Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir að skýra mjög vel út ákveðna liði í kjaramálum þingmanna. Hann gerði það mjög vel. Ég ætla mér ekki að fara meira í efnisumræður um þetta mál, en ég kom inn á það áðan að hér lægi frammi plagg þar sem deildin hefði verið plötuð. Hér liggur frammi falskt plagg. Það stendur að þetta sé gert í samráði við þingforseta þessarar deildar. Einn af þremur þingforsetum er búinn að lýsa því yfir úr forsetastól að hann hafi engan þátt átt í þessu máli. Nú er annar forseti deildarinnar kominn í salinn og ég hlýt að fá að spyrja héðan úr ræðustól hvort hann hafi haft eitthvað með þetta frv. að gera eða ekki. ( Forseti (ÓÞG): Sá sem til er nefndur getur greint frá því að hann hafði vitneskju um þennan málatilbúnað í Ed. eins og hann þar var.) Ekki er ég almennilega klár á því, hæstv. forseti, hvernig á að túlka þetta, hvort þetta á að túlka eins og stendur í frv., að það sé flutt í fullu samráði við þingforseta. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á þessu svari.
    Ég ítreka hins vegar að hér er lagt fram plagg á fölskum forsendum og ég ítreka þá beiðni að það verði dregið til baka eða prentað upp rétt og heiðarlega. Verði það ekki gert mun ég fara þess á leit við forseta deildarinnar að hann sjái til þess að sú nefnd sem fær þetta til skoðunar, þ.e. fjh.- og viðskn. Nd., fái lista yfir alla þá sem þegið hafa biðlaun frá upphafi þeirrar reglu sem þá var sett þar sem það komi greinilega fram hvort þeir fóru í önnur launuð störf og hver þau launuðu störf voru eða þá hins vegar hvort þeir fóru ekki í annað starf. Ég tel að þetta þurfi að liggja fyrir þannig að menn geti áttað sig á umfangi þessa máls.
    Auðvitað er ég sammála hv. síðasta ræðumanni í því að Alþingi á að fara eftir lögum. Það var mjög merkilegt að heyra hans lýsingu á hvernig Alþingi meðhöndlar varaþingmenn. Auðvitað er þetta þinginu til háborinnar skammar. En að snúa orðinu ,,biðlaun`` í það að menn séu að bíða eftir launum þykir mér í hæpnara lagi. Það má alveg eins lýsa þessu á þá lund að ef menn sem eru að hverfa af þingi kannski eftir 20--30 ára setu og t.d. 60 ára labba þeir ekki inn í starf. Það bíða ekkert eftir þeim gylliboð upp um alla veggi og menn þurfa aðeins að ná áttum. Til þess held ég m.a. að biðlaunin séu, enda má svo sem segja að biðlaun séu víða til í formi 13. mánaðarins hér og þar út um allt.
    Hæstv. forseti. Að lokum vil ég aðeins segja að hér er lagt fram falsað plagg og ég ítreka þá beiðni mína að það verði dregið til baka og prentað upp, ellegar verðum við að taka á því í nefndinni.