Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til l. sem hér liggur fyrir er eitt mesta hræsnisfrv. sem hér hefur verið lagt fram og verður að segja eins og er að það er flm. ekki til sóma. Fyrsti flm. hefur verið á biðlaunum sem ráðherra og hefði mátt skila þeim biðlaunum samkvæmt þessu. Ýmsir aðrir sem hafa gegnt ráðherrastöðum hafa verið á biðlaunum þegar svo hefur borið undir og á þingmannslaunum líka. Það má spyrja: Hefði ekki verið ástæða til þess að flytja frv. um að fella niður þessi biðlaun líka?
    Svo er hitt að biðlaun sem hafa sérstaklega komist í hámæli núna eru að því er virðist sérstaklega tengd ákveðnum persónum, hv. fyrrv. þm. Sverri Hermannssyni og hv. fyrrv. þm. Albert Guðmundssyni. Ég held að það væri meiri sómi að því að láta kyrrt liggja því að auðvitað er þetta ekkert verra eða betra en það að ráðherra skuli þiggja biðlaun. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi málflutningur vekur dálitla furðu og með hvaða hætti hann er borinn fram, með hvílíkum hraða þykir ástæða til að bera þetta frv. fram. Það væri gaman, fróðlegt og nauðsynlegt að fá fram hver biðlaun ráðherra hafa verið á undanförnum árum. Það má spyrja um það. Það væri gaman að fá það fram þannig að ráðherrarnir gætu skýrt okkur frá því. Hitt er annað mál að verið getur að munur sé á því hvort menn segi upp eða sé sagt upp. En það er líka álitamál þegar mönnum eru falin önnur trúnaðarstörf hjá hinu opinbera að þeir njóti þá ekki svokallaðra biðlauna. En þá er hitt: Nú getur maður farið til einkafyrirtækis og það þarf ekki endilega að koma fram að hann fái laun. Hann getur verið á biðlaunum þess vegna. (Gripið fram í.) Hann getur verið kauplaus hjá einkafyrirtækinu en á biðlaunum hér. Það eru mörg tilbrigði af þessu.
    Ég held að menn ættu að láta þetta ganga yfir og væri sómi að því að afgreiða þetta mál ekki. Sú hræsni sem fylgir því að taka þetta hér upp er einstök og ekki til sóma þeim mönnum sem flytja frv. eða hafa mælt fyrir því.
    Ég verð að segja alveg eins og er að það væri fróðlegt að vita hver biðlaun ráðherra hafa verið á síðustu árum og fá það upplýst hér. Almenningur hefði gaman af því að vita það. Það eru ekki bara þingmenn sem Alþingi greiðir biðlaun eins og menn vita. Þar að auki eru biðlaun veitt í ýmsum tilvikum. Menn fá launalaust frí í ýmsum tilvikum. Svo fá menn frí á launum. Ég vil minna á að læknar fá starfsleyfi á fullum launum. Kennarar fá það eftir ákveðinn tíma á fullum launum. Það er ekkert meira þó að þingmenn séu á biðlaunum þegar þeir hætta þingmennsku. Þetta er blásið upp með þeim hætti að það telst ekki til sóma fyrir þá þingmenn sem standa að því að flytja frv.