Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Þetta mál mun trúlega vera það sem er mest dæmigert fyrir þau mál sem flutt hafa verið á Alþingi Íslendinga á þessum vetri, beinlínis flutt til að þjóna fjölmiðlum. Það er nú einu sinni svo að fjölmiðlum finnst gjarnan að þeir sem hafa staðið hátt í okkar samfélagi liggi gjarnan vel við höggi.
    Alþingi Íslendinga ber ábyrgð á mjög mörgum hlutum í þessu samfélagi. Við berum ábyrgð á því m.a. að við erum með lífeyrissjóðakerfi sem er þannig að margir sem hætta störfum munu verða á mun hærri launum eftir að þeir eru hættir en meðan þeir voru starfandi í fullu fjöri. Ætlum við að taka á þessu? Ætlum við að taka á því að koma á einum lífeyrissjóði og reyna að koma einhverju viti í þau mál? Það er eins og ég finni í salnum að það séu misjafnar undirtektir undir þetta. Það verður að segjast um fyrrv. formann Framsfl., sem hafði það sem sitt fyrsta mál að flytja frv. um að hér skyldi vera einn lífeyrissjóður til að reyna að tryggja réttlæti í þeim efnum og var mikill valdamaður í íslensku samfélagi og forsrh., að hann var aldrei svo mikill valdamaður að hann gæti komið því í gegn að hér skyldi vera einn lífeyrissjóður.
    Við erum með bankastjóra á launum í voru landi sem halda óskertum launum þegar þeir hætta. Og við erum með menn sem flytjast e.t.v. á milli bankastjórastarfa og halda kannski óskertum launum á báðum stöðum. Er þetta eitt af því sem við viljum hreyfa við? Er þetta eitt af því sem snertir okkur?
    Það hefur komið fram að það er leikur einn að standa þannig að málum ef menn fara í vinnu á hinum almenna vinnumarkaði að semja um að þeir séu kauplausir þann tíma sem þeir taki biðlaunin og fái svo einfaldlega hærri laun þegar þeir eru búnir með þann tíma. Þetta er einfaldasta mál í heimi. Niðurstaðan er þá sú að það er aðeins í opinbera geiranum sem menn yrðu látnir gjalda þess. Ég veit ekki hvort það er rökrétt að standa þannig að þessu. Það hlýtur líka að verða umhugsunarefni þegar menn eru kosnir á þing og líta á það sem fullt starf að þá eigi að greiða ráðherrum biðlaun fyrir það að þeir séu að gegna því starfi sem þeir voru kosnir til. Er það sjálfgefið að þeir eigi að halda þeim?
    Erum við ekki komnir út í dálitlar ógöngur í þessum efnum og er ekki skynsamlegra að skoða þessi lög sem heild, í samræmi, en að rjúka til jafnvel þó að okkur finnist að það sé kannski nokkuð stórt skammtað að sá sem fer í betur launað starf fái þá umbun sem honum er veitt. Sannleikurinn er nefnilega sá að það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að menn hætti. Það geta verið persónulegar ástæður sem tengjast þeirra fjölskyldu. Það geta verið ýmsar ástæður. Í sumum tilfellum getur það gerst að ríkisstjórnin leiti eftir viðkomandi aðilum til annarra starfa. Það er dálítið köld kveðja undir þeim kringumstæðum, ef þeir eru kannski ekki fyrr búnir að þiggja slíkt og taka við starfi sem eftir var leitað að þeir fengju, að þá sé rokið upp til handa og fóta til að reyna að undirstrika að þau laun sem þeim ber að

lögum séu gerspillt fyrirbrigði.
    Ég hef setið í stjórn stofnunar sem vissulega gekk í gegnum þann hreinsunareld að hún var lögð niður. Það var samkvæmt lögum gengið frá málum á þann veg að ýmsir aðilar fengu full biðlaun þótt þeir færu í önnur störf og væru búnir að vera skemur við störf en hér er verið að tala um. Mér er ljóst að það má vel vera að í almenningsáliti á Íslandi og þeirri túlkun sem fjölmiðlar hafa á viðhorfum manna sé auðvelt að sverta þá afstöðu og gera menn tortryggilega fyrir það að þeir hiki við að samþykkja þær hugmyndir hér er lagðar fram. En ég verð að segja eins og er: Mér sýnist að menn hafi verið nokkuð fljótir á sér. Mér sýnist að e.t.v hafi þeir farið að grýta úr glerhúsi þegar þeir ruku til í ljósi þess að íslenskir alþingismenn bera ábyrgð á mörgu í þessu samfélagi sem er fullkomlega hliðstætt og væri skynsamlegra að taka á áður en menn rjúka til í þessum efnum. Ég held nefnilega að það væri hollt fyrir fjölmiðla að fara yfir það hvaða auði margir af þeim mönnum söfnuðu sem voru lengst í ráðherrastólum á Íslandi. Það er hægt að fara yfir ýmis nöfn í þeim efnum. Það er hægt að taka Ólaf Thors, það er hægt að taka Hannes Hafstein, það er hægt að taka Bjarna heitinn Benediktsson eða Eystein Jónsson svo að við nefnum nokkra. Og menn geta spurt ef menn skoða starfsferil manna sem hafa hæfileika, e.t.v. nálgast þessa menn að hæfileikum og voru geymdir vel varðir inni í framkvæmdarvaldinu á öðrum stöðum í kerfinu: Voru þeir jafngrátt leiknir og þessir menn efnahagslega séð ef þetta er skoðað?
    Ég held að við eigum að flýta okkur hægt í þessum efnum. Ég tek undir að þetta verði skoðað sem heild og ég held að menn þurfi að horfa mjög breitt á þetta svið eigi þingið að komast að skynsamlegri niðurstöðu.