Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég beindi spurningum til forseta deildarinnar áðan um það hvort ekki væri rétt að láta prenta upp þingskjalið þar sem þar er farið með rangt mál og menn bendlaðir við það mál og deildin þar með plötuð. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. forseti hafi svarað þeirri spurningu sem fyrir hann var lögð þannig að ég ætla að endurtaka hana, hvort það sé ekki rétt meðferð á málinu að þingskjalið verði prentað upp rétt og því dreift upp á nýtt í deildinni. Ef ekki, hvort það sé þá réttur skilningur og megi gagnálykta sem svo að menn geti notfært sér nöfn ýmissa aðila á þingskjöl máli sínu til stuðnings.