Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Á þskj. 1222 hef ég ásamt nokkrum öðrum þingmönnum flutt tillögu um að vísa máli þessu til ríkisstjórnarinnar. Með mér skrifa á þessa till. hv. þm. Páll Pétursson, Ragnar Arnalds, Hreggviður Jónsson, Valdimar Indriðason, Ólafur Þ. Þórðarson og Matthías Bjarnason. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem frumvarp þetta, ef að lögum verður, á eigi að taka gildi fyrr en 1. júlí 1992 og um málið standa deilur meðal lagamanna og á Alþingi er ekki einhugur um afgreiðslu þess lítur deildin svo á að ástæða sé til að athuga þetta mál betur og samþykkir að vísa því til ríkisstjórnarinnar.`` --- Þannig hljóðar tillgr.
    Ég hef rætt þetta mál nokkuð við 1. og 2. umr. og skal ekki taka hér langan tíma til frekari umræðu um málið. Hér við 3. umr. tóku nokkrir þingmenn til máls og tóku í þann sama streng sem ég hef togað í við 1. og 2. umr. og það kom í ljós við atkvæðagreiðslu við 2. umr. málsins að veruleg andstaða er við málið í hv. deild. Það kom sem sé í ljós að meðal þeirra sem eru andvígir þessu máli eru sumir af hinum virtustu þingmönnum í liði hæstv. ríkisstjórnar, þeirra á meðal formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson, og fyrrv. formaður Alþb., hv. þm. Ragnar Arnalds. Þessir þingmenn eru að sjálfsögðu báðir þingmenn úr Norðurlandskjördæmi vestra, enda á það kjördæmi ýmsum ágætum þingmönnum á að skipa.
    Enn fremur var talað gegn þessu máli af hálfu stjórnarliða og greiddi atkvæði gegn því hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sem er þekktur fyrir að leyfa sér að hafa sjálfstæðar skoðanir og standa á þeim og er það honum til virðingar. Það er sem sé komið í ljós að í liði hæstv. ríkisstjórnar er fjarri því einhugur um málið þegar forustumenn úr liði stjórnarflokkanna eru þannig andvígir málinu.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að meðal lögfræðinga og samtaka lagamanna er ágreiningur um þetta mál og um það standa deilur. Ég held að það sé því ekki að ófyrirsynju, með tilliti til þess að þó svo að þetta mál yrði að lögum á þessu þingi eiga þau lög ekki að taka gildi fyrr en eftir meira en þrjú ár, þ.e. 1. júlí 1992, að flutt sé tillaga um að vísa þessu máli nú til ríkisstjórnarinnar til þess að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. dómsmrh. fái málið til athugunar í því skyni að leitast við að ná friðsamlegri og ásættanlegri niðurstöðu í þessu máli þar sem hægt væri að taka ákvörðun sem væri nokkur einhugur um meðal fagmanna á þessu sviði, þ.e meðal lögfræðinga og samtaka lagamanna, og enn fremur gæti verið um málið betri friður hér á hinu háa Alþingi en raun ber vitni. Þetta er að sjálfsögðu ekki að ófyrirsynju og hæstv. ráðherra ætti að taka þessu fagnandi og með gleðibrosi á vör og ég sé að hann gleðst nú heldur eftir því sem líður á mál mitt.
    Ég hef vitaskuld talað um þetta mál aðallega út frá einu sjónarmiði, þ.e. því sjónarmiði að við skulum vara okkur á því, þessi fámenna þjóð, 250 þúsund manns, að vera sífellt að auka við ríkiskerfið, setja

upp nýja og nýja þætti kerfisins, auka við mannahald í þjónustu ríkisins, stofna til nýrra og nýrra embætta með öllum þeim kostnaði sem fylgir, þar á meðal embættisbústöðum starfsmanna í því kerfi sem hér er verið að tala um út um allt land auk fjárfestinga í skrifstofuhúsnæði og öðru þvílíku. Við verðum að vara okkur á þessu og það er hárrétt, sem kom fram t.d. í dag hjá hv. þm. Hreggviði Jónssyni, að núv. ríkisstjórn hefur síður en svo gætt hófs í lagasetningu sem hefur í för með sér mikinn kostnað fyrir íslenska ríkið. Fyrri ríkisstjórnir hafa heldur ekki gætt hófs í þessum efnum. Þess vegna er svo komið að við lendum í vandræðum þegar við þurfum að koma saman fjárlögum ríkisins. Þó að afgreiðsla á fjárlögum væri með þeim hætti fyrir þetta ár að þar væri á jöfnuður og heldur betur þó eru ákvarðanir núv. ríkisstjórnar frá því að fjárlögin voru afgeidd þess efnis að þar er kominn verulegur halli auk þess sem fjárlagaafgreiðslan var með þeim hætti, eins og ég vakti þá rækilega athygli á, að forsendur fjárlaganna voru í lausu lofti, enda brostnar þegar tveir til þrír mánuðir voru liðnir af árinu. Þá voru fjárlagaforsendurnar brostnar. Þrátt fyrir að að þessu sinni væri stefnt að því af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að afgreiða fjárlög með jöfnuði er þegar kominn halli og þegar við förum að fást við að ná saman fjárlögum þar sem þessi nýi kostnaður bætist enn við stöndum við alltaf frammi fyrir meiri og meiri vanda, vanda sem verður að mæta á einhvern hátt. Ég á ekki von á því að hæstv. sjútvrh. og dómsmrh. leggi til að þeim vanda sé mætt með hallarekstri og nýjum og nýjum lántökum. Ég á raunar frekar von á því að hann mæli með því að annað sé látið þoka, e.t.v. stuðningur við atvinnuvegina eins og ég sagði við 2. umr., en ellegar að skattar séu enn hækkaðir, nýir skattar séu lagðir á í þjóðfélaginu og seilst dýpra og dýpra í vasa einstaklinganna og atvinnuveganna til að greiða skatta til ríkisins. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að hugsa sig um tvisvar áður en hún tekur ákvarðanir um að ganga mikið lengra á þeirri braut. Ef hún ætlar sér að ganga mun lengra á þeirri braut að sækja nýja og nýja skatta í vasa þjóðfélagsborgaranna og til atvinnufyrirtækjanna í landinu í
þeirri stöðu sem þau eru nú held ég að það verði hennar banabiti, þá þurfi ekki lengur um að binda.
    Ég hvet því mjög eindregið til að þessi tillaga verði samþykkt og horfið að því að skoða þetta mál betur. E.t.v. má spyrja: Hvaða leiðir eru þá til athugunar? Ég hef ekki rætt þetta mál mikið frá faglegu sjónarmiði og viðurkenni það. En ég hef heyrt til að mynda uppástungur, jafnvel frá nefndarmönum í þeirri hv. nefnd sem um málið fjallaði í þessari deild, um að það mætti koma við aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds með því að sýslumenn dæmdu ekki í eigin umdæmi heldur hjá þeim næsta þannig að t.d. sýslumaður í Borgarnesi dæmdi Snæfellinga og sýslumaðurinn í Stykkishólmi dæmdi Mýramenn og Borgfirðinga og svo í framhaldi af því að sýslumaður á Blönduósi dæmdi Skagfirðinga og

sýslumaður Skagfirðinga dæmdi í héraði hjá okkur Húnvetningum. Þar með væri búið að skilja á milli þannig að ekki væri sá sami sem um málið fjallaði og hefði umboðsvald í því héraði. Þetta væri einföld og ódýr lausn.
    Ég held einnig að menn vanmeti stórlega þann kostnað sem af þessu leiðir og það muni jafnvel vera skárra að senda setudómara í fleiri mál en gert er heldur en leggja út í þetta óheillakerfi. Þá hlýtur að hafa verið athugað, sem ég veit að er í raun, að mjög mörgum af þeim málum sem eru til meðferðar, minni háttar brotamálum sem eru til meðferðar á landsbyggðinni þar sem þetta á aðallega við, er lokið með sátt og er það í sjálfu sér vel. Það greiðir ekkert fyrir því að málum ljúki með sátt að setja upp nýjan dómstól í fjarlægð frá málsatvikum sem oft vill auðvitað verða og það dómstól sem ekki hefur kynnst rannsókn málsins á frumstigi eða meðan sú vinna stendur yfir, en þá eru vitaskuld mestar líkur til þess að megi ljúka málum með sátt.
    Ég hef gengist inn á það við hæstv. forseta að þreyta ekki þetta mál með neinu málþófi, enda engin ástæða til og ég hef ekki komið hér í þennan ræðustól til þess heldur hef ég komið upp til að vekja athygli á því enn og aftur að hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórn vari sig á þessari sífelldu útþenslu ríkiskerfisins og með tilliti til þess að þetta mál getur vel komið fram enn þó svo það verði tekið til athugunar til haustþingsins þar sem það á ekki að taka gildi á morgun eða hinn daginn heldur eftir meira en þrjú ár. Því beini ég því mjög eindregið til hv. þm. og hæstv. ráðherra, sem ætti að taka því fagnandi, að þessu máli verði nú vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari athugunar og ég sannarlega vona að þá mundu finnast leiðir sem í senn eru færar að því leyti að við stöndum við okkar alþjóðasamninga og um leið þurfi ekki að kosta til miklu fé. En ef við höfum bundið okkur í alþjóðasamninga sem eru svo kostnaðarsamir að við sjáum okkur ekki fært að rísa undir öllum þeim kostnaði sem því fylgir verðum við bara að segja slíkum samningi upp og halda okkar réttarfari og réttarkerfi hér fyrir okkur Íslendinga eins og okkur sjálfum þóknast og vel hefur gefist.