Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Frv. um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds sem hér er til umræðu fékk allmikla umræðu í þeirri nefnd sem ég átti sæti í og það var einróma álit t.d. fulltrúa Lögmannafélags Íslands að nauðsynlegt væri að frv. yrði að lögum. Ef við ættum að vera fullgildir að virða mannréttindasáttmála Evrópu, nánar tiltekið 6. gr., væri nauðsynlegt að þetta frv. væri samþykkt. Það komu ekki fram neinar aðrar hugmyndir til lausnar þessu máli en þetta frv. Það getur vel verið að þessar hugmyndir séu til, en ég verð að segja að mér finnst ekki nóg að vera á móti því að frv. verði samþykkt ef menn hafa ekki einhverjar aðrar betri hugmyndir því að við eigum ekki að skrifa undir alþjóðasáttmála og virða þá svo ekki. Við þurfum ekki að koma þannig fram, Íslendingar, og allra síst í mannréttindamálum.
    Það kom fram í dag að sýslumenn hefðu oft reynst ágætir sáttamenn og taka skal ég undir það. Þeir eru alls góðs maklegir og eiga þakkir skildar fyrir vel unnin störf. Það er ekki þar með sagt að nýtt skipulag þurfi að vera neitt verra. Við verðum einfaldlega að virða þá alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Um það snýst þetta mál.
    Varðandi kostnaðinn get ég tekið undir að það er ástæða til þess að vara við því að framkvæmdarvaldið sé alltaf að færa út kvíarnar í kostnaði. Ég get fúslega tekið undir það. Út af þessu tiltekna frv. skrifaði ég Fjárlaga- og hagsýslustofnun bréf og spurði hvernig kostnaðarskiptingin væri milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds m.a. af þessu tilefni. Það kom fram að heildarkostnaður við dómsvald, þ.e. allt undir dómsmrn. nema kirkjumál og Hæstarétt, er 3 milljarðar 146 millj. á fjárlögum í ár eða 4,11% á fjárlögum. Það er talað um að þetta hafi kostnað í för með sér upp á 50 millj. þannig að þetta er spurningin um hvort dómsvaldið kostar 3146 millj. eða 3200 millj. Þetta getur aldrei verið nákvæmt.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst fyllsta ástæða til þess að gæta sín í því að ekki sé verið með samkrull milli dómsvalds og framkvæmdarvalds á sama hátt og ég verð að segja að það er sannarlega líka tími til kominn að ræða samkrullið milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og þó fyrr hefði verið.
    Úr því að farið er að tala um kostnað hjá framkvæmdarvaldinu er líka allt í lagi að rifja upp að það hefur ýmislegt komið fram að undanförnu. T.d. var frétt á Stöð 2 fyrir nokkrum dögum um að virkjun Blöndu kostaði orðið 10 milljarða. Það er ekki búið að selja rafmagn úr þessari virkjun í eina einustu Hellesens-rafhlöðu einu sinni. Það er hægt að tala um að löggjafarvaldið hafi verið platað af framkvæmdarvaldinu í sambandi við kostnað. Maður ætti að byrja á réttum stöðum og ræða hluti sem varða ekki mannréttindamál í kostnaðarútgjöldum. Svona háttalag af hálfu framkvæmdarvaldsins, að virkja og virkja í landinu og eyða og sóa peningum án þess að hafa selt orku í einn einasta hraðsuðuketil

einu sinni, gengur ekki. Menn geta svo spurt af hverju rafmagnið sé alveg fokdýrt og af hverju verðbólgan æði áfram þegar mokað er inn í landið erlendu lánsfé í fjárfestingar sem eru ekki nokkur not fyrir enn þá.
    Við skulum vona að guð gefi að það takist að semja, en samningsstaðan verður ekki bærilegri þegar búið er að mála sig úti í horn eins og Andrés Önd gerði í einni ágætri bók. Það verður ekki glæsileg samningsstaða. Það reyndar kemur ekki þessu máli við, en það kemur kostnaðinum við.
    Ég ætla því að segja það að lokum, hæstv. forseti, varðandi þetta mál að það var mín niðurstaða í þessari nefnd að það væri óhjákvæmilegt annað, þar sem við erum aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu og þar sem ekki hafa komið fram neinar aðrar hugmyndir um með hvaða hætti megi fullnægja 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu öðruvísi en með þessum hætti, en samþykkja að mæla með samþykkt frv.