Jöfnun á raforkukostnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Frú Auður Eiríksdóttir, sem átti sæti á Alþingi í fjarveru minni, lagði fram fyrirspurn á þskj. 675 sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hefur eitthvað verið unnið að undirbúningi þess að jafna verð á raforku í landinu eins og fram kemur í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar?``
    Tilefni þessarar fsp. er það að þegar var verið að ræða um myndun hæstv. ríksstjórnar var eitt af því sem þau samtök, sem við Auður erum fulltrúar fyrir, lögðu mikla og þunga áherslu á að stigin yrðu skref til að jafna lífsaðstöðu í ýmsum málum, ekki eingöngu fyrir byggðarlögin heldur fyrir þjóðina alla vegna þess að ef menn marka eitthvað sem menn segja fyrir kosningar eru það allir stjórnmálaflokkarnir sem vilja og segjast vilja stuðla að því að byggð haldist í landinu með líku formi og er, en svo vill það gleymast á milli kosninga, því miður.
    Sú grein í þessum merka málefnasamningi sem er tilefni þessarar fyrirspurnar er þannig, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 6: ,,Gerðar verði ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og skólagöngu.``
    Nú liggur það fyrir að Landsvirkjun var rekin með mjög miklum hagnaði á sl. ári og nú liggur það fyrir að raforkukostnaður í landinu er mjög breytilegur. Mér er tjáð af kunnugum að t.d. við upphitun á húsum sé raforkukostnaður a.m.k. tvöfaldur miðað við það sem hann er á Reykjavíkursvæðinu og þar sem hann er lægstur úti á landi og t.d. á Vestfjörðum þar sem hann mun vera hæstur. Það er mikill munur á því einnig hjá Rafmagnsveitum ríkisins. En þar sem við höfum ekki orðið vör við að neitt skref hafi verið stigið á þessum mánuðum síðan ríkisstjórnin var mynduð í þá veru að jafna þessa aðstöðu er þetta tímabær fsp. Raunar hefði átt að koma fram fsp. fyrr, og gerði það raunar því að þetta er búið að liggja hér nokkuð lengi, um það hvað sé hugsað í því að framkvæma þetta. Það er gott að setja þetta á blað, en athafnir verða að fylgja orðum.