Jöfnun á raforkukostnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hér er hreyft miklu máli og miklu vandamáli. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að ástandið í þessum málum hefur verið og er óviðunandi. Það er því lítill fagnaður yfir því þótt hæstv. iðnrh. lýsi yfir að ástandið hafi ekki enn þá versnað í tíð núv. ríkisstjórnar. Ég hygg að flestir sem hafa fengist við þessi mál hafi talið að það yrði einmitt þegar að bæta úr.
    Hæstv. ráðherra segir að það sé verið að hugsa um jöfnun á raforkukostnaði á vegum ríkisstjórnarinnar og hv. 6. þm. Norðurl. e. er ánægður með þetta. Ég vil lýsa því yfir að ég er óánægður. Ég er óánægður með seinaganginn. Og það er óviðunandi það ástand sem nú ríkir í þessum málum.