Útfararþjónusta
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir svör hans fyrir hönd kirkjumálaráðherra í þessu efni. Þar kemur mjög glögglega fram að samkeppnisaðstaða, ef maður getur orðað það svo um þetta, er ekki sú sama fyrir þá einkaaðila sem starfa í þessari grein og hinir opinberu aðilar eru að undirbjóða þá þjónustu sem um er að ræða. Það er auðvitað tekið af kirkjugarðsgjöldum. Í svari við 2. spurningunni kemur greinilega fram að það er gert með þeim hætti að ekki er tekið gjald fyrir ákveðna þjónustu sem opinberir aðilar taka. Þess vegna væri eðlilegt að einkaaðilar fengju greitt af kirkjugarðsgjöldum fyrir þessa þjónustu.
    Ég þakka heilbrmrh. fyrir þau svör sem hann gaf. Það kom fram að það sé enn þá möguleiki að leiðrétta þetta í löggjöf sem er nú í undirbúningi og ég ætla að vonast til að hæstv. heilbrmrh. komi þeim boðum til hæstv. kirkjumálaráðherra að þetta verði tekið inn í þannig að einkaaðilar sitji við sama borð í þessum efnum í framtíðinni.