Öryggismálanefnd sjómanna
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og fagna því að skriður skuli vera á þessum málum í ráðuneytinu. Einnig að svo margar þeirra góðu tillagna sem nefndin gerði skuli vera komnar til framkvæmda eða í vinnslu og fagna því að skýrslan skuli væntanleg hér á Alþingi á næsta hausti.
    Öryggi sjómanna byggist á stöðugri fræðslu þeirra og annarra sem nálægt slíkum störfum koma og það er mjög nauðsynlegt að halda vöku sinni í þeim efnum. Verkefni ráðuneytisins er ekki síst að skoða og endurskoða þessi mál í sífellu, en það er einnig nauðsynlegt að Alþingi haldi vöku sinni og fylgist með og taki sinn hluta ábyrgðarinnar til að koma þessum málum í betra horf.