Útbreiðsla Stöðvar 2
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Það er spurt um hvort það sé rétt að Siglufjörður sé annar af tveimur kaupstöðum landsins sem ekki nái sjónvarpsútsendingum Stöðvar 2. Og það er rétt. Siglufjörður er annar af tveimur kaupstöðum sem svo háttar til um. Hinn staðurinn er Stykkishólmur. Þar nást að vísu útsendingar Stöðvar 2 að hluta til, en búist er við að fullkomnum sendibúnaði verði komið upp vegna Stykkishólms á þessu hausti og verði þeir þá jafnsettir öðrum landsmönnum um þetta efni eða öðrum kaupstöðum a.m.k.
    Í öðru lagi er spurt hvenær megi búast við að nauðsynlegum útbúnaði verði komið upp til að Siglfirðingar fái notið góðs af útsendingum Stöðvar 2. Stöð 2 mun nýverið hafa átt í viðræðum við Póst- og símamálastofnun, m.a. um útsendingar til Siglufjarðar. Á fundi þessum kom það fram að Póst- og símamálastofnunin reiknar með að örbylgjubúnaður fyrir útsendingar Stöðvar 2 verði settur upp fyrir Siglufjarðarkaupstað seinni part sumars og munu beiðnir um úthlutanir fyrir senditíðni fyrir Siglufjörð og Stykkishólm verða sendar Póst- og símamálastofnun innan tíðar.
    Þá hefur Stöð 2 fest kaup á 10 watta sendibúnaði sem staðsettur verður á brún Hvanneyrarskálar og áætlað er að þessi sendibúnaður verði settur upp í október nk. þannig að það verður nokkuð farið að hausta þegar verkamenn eiga við það indælar stundir, e.t.v. ekki andvökustundir en góðar samt, að setja upp þennan búnað í Hvanneyrarskál. Eitt er víst að þeir verða öfundsverðir af útsýninu.
    Þannig verður það sem sagt, virðulegi forseti og hv. fyrirspyrjandi, að frá og með næsta hausti munu allir kaupstaðir landsins væntanlega njóta þeirrar miklu blessunar að nema útsendingar Stöðvar 2.