Ástand og horfur í landbúnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Sem svör við þeim spurningum sem hv. málshefjandi bar hér fram vil ég segja eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi: Fyrir nokkrum dögum skipaði ég nefnd þriggja manna til að fara yfir ástandið í landbúnaðinum með tilliti til hins óvenju erfiða tíðarfars. Þá nefnd skipa Sveinbjörn Eyjólfsson, deildarstjóri búnaðarsviðs landbrn., búnaðarmálastjóri Jónas Jónsson og Ari Teitsson héraðsráðunautur. Í erindisbréfi þessarar nefndar segir m.a. að nefndin skuli afla upplýsinga um og meta stöðu og horfur með fóðrun búpenings á næstu vikum á þeim svæðum landsins þar sem gróðri seinkar vegna fannfergis og illviðra. M.a. er óskað upplýsinga um þörf á fóðurkaupum umfram það sem gerist í eðlilegu árferði og hvar sé hægt að útvega fóður. Einnig að metið verði eftir því sem tök eru á og jafnóðum og hægt er horfur með kal í túnum.
    Nefnd þessi hélt sinn fyrsta fund í gærmorgun og þar kynnti búnaðarmálastjóri stöðuna eins og hún kemur fyrir sjónir héraðsráðunautum í hinum ýmsu landshlutum. Ástandið virðist vera einna alvarlegast við Ísafjarðardjúp, en Strandir, hluti Eyjafjarðar, Þingeyjarsýslur og Norðausturland fylgja þar fast á eftir. Ákveðið var á þessum fundi að skrifa öllum búnaðarsamböndunum og var það gert í gær og það bréf sent með telexskeytum, einhvers konar símskeytum samkvæmt nýjustu tækni. Er þar í raun og veru beðið um könnun á öllum þeim þáttum sem fram koma í spurningum hv. þm. Egils Jónssonar.
    Í bréfi sínu til búnaðarsambandanna óskar nefndin m.a. eftir eftirfarandi upplýsingum:
    1. Að kannaðar verði fóðurbirgðir í hverju sveitarfélagi og hvort líkur séu á því að þær dugi áætlaðan fóðrunartíma.
    2. Að magn kjarnfóðurs á næsta verslunarstað verði kannað og horfur um kjarnfóðurkaup á sauðburði bornar saman við þá stöðu.
    Því er að vísu rétt að halda til haga að vegna verkfalls náttúrufræðinga er víða gengið á birgðir og er augljóst mál að vinda verður bráðan bug að því þegar þeirri deilu lýkur að koma fóðri út á þá staði sem tæpastir eru orðnir í þessum efnum. Nokkur skip eru ýmist á leiðinni eða væntanleg til landsins innan fárra daga með fóður eða hráefni til fóðurgerðar svo mér sé kunnugt um.
    3. Óskað er eftir því að búnaðarsamböndin kanni um leið og hægt verði hvernig horfi með kal í túnum.
    4. Óskað er almennra upplýsinga um ástand og horfur í þessum efnum eftir því sem kleift er að gefa slíkar upplýsingar.
    Hér er sem sagt beðið um upplýsingar um bæði fóður og fræ. Harðindanefnd hefur þegar ákveðið, og ræddi það á fyrsta fundi sínum, að beita sér fyrir því verði þess þörf að keypt verði eða útveguð meiri sáðvara til landsins og mun hún hafa samband við fóðurinnflytjendur á næstu dögum, m.a. um það mál.
    Þá mun nefndin snúa sér til Bjargráðasjóðs til að

kanna möguleikana á að styrkja bændur vegna heyflutninga og fóðurflutninga og enn fremur er í athugun hvort rétt sé að grípa til þess að endurgreiða hluta kjarnfóðurskatts því vart er það ætlun manna að skattleggja harðindin og aukna fóðurþörf sérstaklega.
    Af því sem ég hef rakið má sjá að verið er að vinna að þessu með ýmsum hætti. Til viðbótar þessu vil ég nefna að í athugun er hvort unnt sé að auka framleiðslu grasköggla á þessu sumri hjá þeim fjórum verksmiðjum sem starfandi eru til þess að auka einnig fóðurbirgðir á því sviði.