Ástand og horfur í landbúnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjenda fyrir að hreyfa þessu máli hér á hinu háa Alþingi. Þær alvarlegu horfur sem við er að fást í tengslum við harðindi eru sannarlega þess verðar að þær séu ræddar. Þær ráðstafanir sem auðvitað er brýnast að vinna að af hálfu stjórnvalda er að hlutast til um að kanna möguleika á heymiðlun á milli landshluta og milli einstakra bænda. En það er nú meiri vanda vafið en oft áður vegna aðgerða í sambandi við sauðfjárveikivarnir.
    Í öðru lagi er algjör nauðsyn að hlutast til um að nægilegur fóðurbætir, nægilegt kjarnfóður sé til í landinu og að koma kjarnfóðri til þeirra staða sem hætta er á að kjarnfóðurskortur verði.
    Í þriðja lagi er það mikil nauðsyn að nú sé hlutast til um að fengnar séu auknar birgðir af sáðkorni, bæði vegna grænfóðurræktar og eins vegna almennrar jarðræktar, grasræktar, vegna þess að víða mun þurfa að vinna upp tún vegna kals á þessu harða vori.
    Ég vil taka undir það, sem hér var hreyft af hæstv. landbrh., að það er full ástæða til þess að endurgreiða kjarnfóðurgjald til þeirra sauðfjárbænda sem nú verða að leggja í gífurlegan kostnað vegna harðindanna, enda mun framkvæmd á þeim þætti mála hafa verið með þeim hætti að sauðfjárbændur eru nánast þeir einu sem ekki hafa fengið endurgreiðslu á þessum skatti.
    Ég vil svo brýna það enn að það er ástæða til þess að við í þessu landi okkar sofum ekki á verðinum. Þó að mörg góð ár hafi komið koma harðindi annað veifið og við því verður að snúast. Í fyrsta lagi verður að búast við því af hálfu bændanna sjálfra en síðan að snúast við því að verjast áföllum af hálfu stjórnvalda með þeim ráðum sem tiltæk eru og að því miðar þessi umræða að það sé brýnt fyrir núv. hæstv. ráðherra.