Ástand og horfur í landbúnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það er mikil ástæða fyrir mig að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Sérstaklega er það mikið fagnaðarefni fyrir mig að þessari utandagskrárumræðu hefur hæstv. landbrh. mætt með því að skipa nefnd til að hafa forustu fyrir þeim verkum sem hér er nauðsynlegt að vinna. Mér sýnist að skipun nefndarinnar hafi borið upp á sama dag og ég held að það sé nokkuð nákvæmlega í samræmi við það sem fór fram á milli þingmanna, vitneskjan um það að þessi umræða færi hér fram í dag. Mér sýnist, eins og fram kom hjá landbrh., að bréfið sem ég ritaði honum hafi gagnast vel sem erindisbréf til nefndarinnar. Nú hefur hæstv. landbrh. sagt frá því hér að nefndin sé þegar farin að starfa og hún hafi sent út telexskeyti strax í gær --- þetta eru nú mjög óvenjulega hröð og góð vinnubrögð --- og hann segir að hún muni vinna sleitulaust næstu sólarhringa. Það er mjög óvenjulegt að nefndir skuli taka það að sér að vinna bæði nætur og daga. En þetta sýnir mætavel að á þessari umræðu var full þörf og fyrir hana er ég þakklátur.
    Það er aðeins eitt efnisatriði sem ég vildi koma að í þessari síðari ræðu minni, það er ekki mikið um tíma til umfjöllunar, og það er í sambandi við sáðkorn. Um kal og orsakir þess eru til umræður frá fyrri árum og tillögur og þar hefur verið lögð áhersla m.a. á sáðvörubanka. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að fóðurinnflytjendur flytji þetta sáðkorn inn, m.a. vegna þess að það er ómögulegt að vita hver þörfin er. Þar af leiðandi þarf að hafa skjótan á og koma upp sáðvörubanka. Það eru fullkomin rök fyrir því að Bjargráðasjóður komi þar til móts ekki síður en með aðrar aðgerðir. Ég minni á að þrátt fyrir að hin svokallaða rúllubaggaheyskaparaðferð hafi á sér tvær hliðar, eins og reynslan sýnir eftir þennan vetur, opnar hún þó möguleika til þess að nýta grænfóður í ríkari mæli en áður hefur verið þar sem votheysverkun hefur ekki verið fyrir hendi.
    Það er algjört grundvallaratriði til að tryggja eftir því sem kostur er nægan heyfeng á næsta vetri að fengin sé næg sáðvara til landsins í tæka tíð til þess að auðvelda bændum sjálfum að brjótast út úr þeim vanda sem þeir standa nú frammi fyrir að því er varðar heyskap á næsta sumri.