Vínarsamningur um vernd ósonlagsins
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Frsm. utanrmn. (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Utanrmn. hefur fjallað um till. til þál. um staðfestingu Vínarsamnings um vernd ósonlagsins og Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun á ósonlaginu. Nefndin hefur skilað frá sér svonefndu nefndaráliti:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og mælir með að hún verði samþykkt óbreytt.``
    Undir þetta skrifa allir nefndarmenn í utanrmn.
    Ég vil þó taka fram að það urðu þó nokkrar umræður hjá okkur um orðalag í tillögunni, þar sem segir í síðari hluta tillgr.:`` og bókun um efni sem valda rýrnun á ósonlaginu``, hvort þar hefði verið eðlilegra að nota orðalag sem notað er í athugasemdum við þáltill. um tiltekin efnasambönd sem valda rýrnun, en að höfðu samráði við starfsmann þingsins, Helga Bernódusson, sem er manna fróðastur um þessa hluti og orðaval í ýmsum tilfellum, töldum við ekki rétt að breyta þessu orðalagi, en þarna er að sjálfsögðu átt við efnasambönd þannig að það valdi engum misskilningi. Orðið ,,efni`` er notað bæði í heiti tillgr. og í tillgr. sjálfri og í þýðingu á bókuninni eins og kemur fram í fskj. Þar er enska orðið ,,substances`` þýtt sem efni. Við töldum að eðlilegra hefði verið að þýða það sem efnasambönd, en að höfðu samráði við starfsmenn þingsins töldum við ekki rétt að breyta þessu orðalagi.