Heimilisrekstrarbrautir í framhaldsskólum
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég hef ásamt virðulegum þingkonum Kvennalistans leyft mér að leggja fram á þskj. 612 svohljóðandi þáltill.:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipuleggja nám á heimilisrekstrarbrautum í framhaldsskólum landsins.``
    Í greinargerð fylgir nokkur rökstuðningur fyrir því að slík tillaga er borin fram.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu gagngerar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu varðandi fjölskyldur og heimili. Þessar breytingar koma m.a. fram í því að nú er minna um það en áður var að börn og unglingar læri inni á heimilunum störf sem þar eru unnin, þ.e. heimilisstörf. Því er nauðsyn að skólinn komi til móts við einstaklingana í þeim tilgangi að gera þá færari um að reka eigin heimili. Undirstöðuatriði heimilisfræða eru kennd í grunnskólum og er það gott svo langt sem það nær, en frekari fræðslu er þó þörf. Einnig má benda á að í 9. bekk eru heimilisfræði aðeins valgrein en ekki skylda.
    Hússtjórnarskólarnir voru einu skólarnir þar sem var samfellt nám í hússtjórn og heimilisrekstri. Nú eru þeir flestir aflagðir. Orsakir þess verða ekki raktar hér en þörfin fyrir það nám, sem þar fór fram, er og verður ávallt fyrir hendi. Þegar húsmæðraskólarnir voru lagðir niður var gefið fyrirheit um að námsefni þeirra yrði flutt inn í framhaldsskólana. Sú hefur þó ekki orðið raunin. Því er þessi þáltill. flutt og jafnframt gerð tillaga að innihaldi og skipulagi námsins.
    Ýmsar orsakir voru fyrir því að húsmæðraskólarnir voru aflagðir, m.a. breyttur tíðarandi sem þessum skólum tókst ekki að laga sig að. En þó er það svo að þeir skólar sem eftir standa anna ekki eftirspurn. Hér er ekki lagt til að hússtjórnarskólar verði endirreistir heldur að það nám sem þar fór fram og enn er full þörf fyrir verði fært inn í framhaldsskólana og nemandi geti tileinkað sér það jafnvel samhliða öðru námi.
    Í umræðum á seinni árum um skóla- og menntunarmál hefur það oft borið á góma að verklegt nám og verkmennt séu skör lægri í almenningsáliti en bóknám, bóknám sé enn í meiri metum. Ég vil ekki leggja dóm á sannleiksgildi þessa en vil þó benda á að í OECD-skýrslunni um fræðslumál sem oft er vitnað til kom fram að mikil þörf sé á því hér að efla verkmenntun á framhaldsskólastigi. Vissulega er sú uppbygging þegar hafin og sú tillaga sem hér er til umræðu er einmitt í þeim anda og tekur, ef svo má segja, á grunnþáttum verkmenntunar, þ.e. náms í þeim verkþáttum sem fram fara á hverju heimili og varla er hægt að skorast undan að unnin séu og það er mikilvægt að sem flestir séu sem meðvitaðastir um það. Ungt fólk sem er að hefja búskap er oftast óvant heimilisstörfum, hefur e.t.v. gripið í þau í foreldrahúsum en sjaldan unnið þau í samfellu og gerir sér því tæpast grein fyrir hve mikinn tíma störfin taka, kann ekki að skipuleggja þau og vinnur sér þau

erfitt. Það gerir sér sjaldnast grein fyrir því í upphafi hvað heimilisrekstur kostar í tíma og fjármunum. Auðvitað lærist þetta með reynslunni, en sé haft í huga að félagsráðgjafar telja að fákunnátta um heimilishald valdi býsna oft sambúðarslitum má segja að sú reynsla geti verið dýru verði keypt.
    Það heyrist oft talað um að fólki þyki hin almennu heimilisstörf vera hálfgerð áþján, pottar, ræsting, matreiðsla, viðgerðir, þessi störf sem enginn sér að séu unnin nema ef það er ekki gert. Það er þó guði sé lof til fólk sem þykir hemilisstörf skemmtileg. Og hverjir eru það? Það eru þeir sem kunna til verka, kunna að vinna sér verkin létt og ná leikni við þau. Það er höfuðatriði við öll störf, hver sem þau eru, að kunna að vinna þau og hafa vald á þeim, þá verða þau aldrei áþján.
    Það má líka benda á þá geysilegu verðmætasköpun sem fram fer á heimilum í landinu. Að vísu eru ekki til tölur um hvernig því sé farið hér á landi, en t.d. í Danmörku hafa neytendasamtökin gert úttekt á verðmætisgildi heimilisstarfa og er ekki ástæða til að ætla að þau séu mikið öðruvísi þar en hér. En í stuttu máli er niðurstaðan sú að vermætagildi heimilisstarfa nemi 45% af vergri þjóðarframleiðslu Dana og tæplega 50% ef þjóðartekjum. Það er augljóslega ekki svo lítil verðmætasköpun sem fram fer á heimilunum þó hún sé hvergi metin að verðleikum og ósýnileg í hagkerfinu í þokkabót.
    Við sjáum á þeim tölum sem ég nefndi hversu mikill hluti þjóðarteknanna fer um hendur þeirra sem heimilin reka og þá er líka augljóst hve mikið veltur á því að heimili séu rekin af ábyrgð og hagsýni. Við vitum öll um þá röskun sem orðin er á fjölskyldu- og heimilislífi frá því sem var og við sem eldri erum en þeir sem hér eru höfum sjálf lifað þessar breytingar. Uppeldi ungmenna er að miklu leyti komið til skólanna og ásamt fræðslunni þarf nú skólinn einnig að koma til móts við einstaklingana og gera þá færari um að reka sín eigin heimili. A.m.k. verður fólk að eiga kost á því námi.
    Ég vil aðeins fara í gegnum þá námsskrá sem hér er og að hverju hún miðar. Á fyrsta þrepi er matreiðsla og framleiðsla og hreinlætisfræði, næringar- og neytendafræði, umönnun barna og aldraðra og rafmagns- og orkunotkun. Allt þetta kemur fólki til góða. Á öðru þrepi eru handmenntir, fatasaumur,
viðgerðir og fatnaður, híbýlafræði, hreinlæti á heimilum og heimilishagfræði (bókhald, skattskil o. fl.). Á þriðja þrepi, sem er framhald hinna tveggja, eru heimilisrekstur, heimililshjálp (nokkrir þættir sem tengjast aðstoð við heimilisstörf), heilsufræði, félagsfræði og vörukynning í verslunum.
    Þessi upptalning á hugsanlegu námsefni er sett fram mönnum til glöggvunar á að hverju er stefnt. Námið er þrepaskipt og hverju þrepi mætti ljúka á einni önn. Þriðja þrepið yrði framhald hinna fyrri. Hver og ein önn nýttist fólkinu til náms og til starfa því að það er ætlast til þess að námsefni á hverju þrepi geti nýst sem einingar í öðru námi, t.d. fóstrunámi eða matartækninámi, og að fólk, sem hefur

lokið námi t.d. í heimilisrekstri og neytendafræði og heimilishagfræði o.fl., gæti t.d. verið starfsfólk hjá heimilishjálp og jafnvel yrði þetta nám þá metið því til launa. Sömuleiðis getur vörukynning og undanfari hennar í náminu nýst starfsfólki verslunar til vörukynningar og þá bæði með vefnaðarvörur, búsáhöld og matvæli því það er mikill skortur á því í verslunum vítt um landið að fólk sem þar starfar og afgreiðir hafi nógu staðgóða þekkingu á því sem það er að selja. Það er mjög mikilvægt fyrir neytendur að á þetta sé lögð meiri áhersla og er ætlast til að hluti af þessu námi geti nýst við þetta.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en minna á það að á sl. vetri sendi hæstv. menntmrh. fjölmörgum aðilum, þar á meðal þingflokkum, bréf um forgangsverkefni í skólamálum þar sem hann óskaði eftir því að menn gæfu það til kynna hver þeir teldu að ættu að vera forgangsverkefni í skólamálum.
    Ég vil ljúka máli mínu á því að lesa hluta af svarbréfi þingflokks Kvennalistans til hæstv. menntmrh. Þar segir:
    ,,Við teljum það meginhlutverk skóla að tryggja ákveðna undirstöðuþekkingu og að flytja menningararfinn áfram til næstu kynslóðar. Gífurlegar breytingar hafa dregið úr þeirri fjölbreyttu lífsreynslu og örvun sem börn öðluðust áður fyrr á heimilunum. Þéttari byggð, minni fjölskyldur og aukin vinna foreldra fjarri heimilum með þeim breytingum sem fylgt hafa kalla á nýjan skóla sem bregst við breyttum aðstæðum. Skólinn verður að tryggja að fólk geti séð um sig sjálft, kunni til algengustu verka, geti alið upp börn og verið góðar manneskjur sem virða umhverfi sitt, samfélag og samborgara. Hlutverk skólans er einnig að búa nemendur undir það að takast á við og þróa framtíð sína á farsælan hátt. Þetta hlutverk skólans breytir því ekki að eftir sem áður hvílir ábyrgð barnauppeldis mest á herðum foreldra.``
    En ég vil segja að skólinn verður að taka við þar sem handleiðslu foreldranna sleppir og sú þáltill. sem hér er til umræðu miðar að því að uppfræða unglinga í þeim fræðum sem virkilega koma að gagni í þeirra daglega lífi og geta í rauninni skipt sköpum um framtíð þeirra að sé haldgóð þekking á.
    Virðulegur forseti. að loknum umræðum óska ég eftir að málinu verði vísað til félmn.