Heimilisrekstrarbrautir í framhaldsskólum
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Sú tillaga sem hér er flutt af þingmönnum Kvennalistans um heimilisrekstrarbrautir í framhaldsskólum er ágætt mál og felur í sér þarfa áherslu og ábendingu til framkvæmdarvaldsins varðandi nauðsyn þess að taka betur en gert hefur verið á námsefni og námsskipan varðandi heimilisrekstur á framhaldsskólastigi. Ég hef ekki sett mig inn í það í einstökum atriðum að hvaða þáttum er unnið sem tengjast þessu máli nú síðustu missirin, en vænti þess að eitthvað sé þar á döfinni af hálfu menntmrn. En um leið og ég nefni það að þá tel ég síður en svo ástæðulaust fyrir Alþingi að láta sig þessu skipta og koma á framfæri við ráðuneytið þeim áherslum sem það metur nauðsynlegt eins og hér er gert.
    Það er alveg rétt, sem fram kom í máli hv. 1. flm. þessa máls, að það er í rauninni af tveimur ástæðum sem mikil nauðsyn er að fræðsluyfirvöld bregðist við í sambandi við þetta efni. Það er staða hússtjórnarskólanna, að þeirra hlutur er lítill orðinn eins og við vitum, og svo hitt að kennslan á heimilunum í þessum efnum er minni nú en í hinni eldri þjóðfélagsgerð sem við sum hver munum þar sem börnum var af nauðsyn haldið til verka heima fyrir. Börn voru þátttakendur í heimilisstörfum víða a.m.k. og fengu þannig fræðslu frá fyrstu hendi ef svo má segja. Vegna aukinnar verkaskiptingar í þjóðfélaginu, starfa foreldra utan heimilis, hygg ég að úr þessu hafi dregið mjög víða og þess vegna er þörfin á því að taka á þessum málum, bæði í grunnskóla og á framhaldsskólastiginu, veruleg.
    Þær áherslur sem hér koma fram og ábendingar í grg. varðandi uppbyggingu þessa máls tel ég allrar athygli verðar. Auðvitað er það útfærsluatriði og álitamál hvernig nám af þessu tagi er byggt upp, en miklu skiptir að það sé tengt við aðrar námsbrautir þar sem það getur orðið að liði eins og einnig var vikið að í máli hv. þm. Málmfríðar Sigurðardóttur. Í því sambandi getum við haft í huga örlög hússtjórnarfræðslunnar í sérskólunum. En ég hygg að ein ástæðan fyrir því að aðsókn að þeim skólum minnkaði svo mjög hafi verið sú að þeir sem héldu á málefnum þessara skóla sinntu ekki kalli tímans sem skyldi, breyttu ekki til í sambandi við uppbyggingu námsins og tengsl þess við annað nám í landinu sem þörf hefði verið á, því ég er nokkuð viss um að ef það hefði verið gert í tæka tíð væru þessir skólar enn þá starfandi sumir hverjir til verulegs gagns fyrir alla.
    Það er að vísu svo að enn eru til hússtjórnarskólar sem sinna sínu hlutverki, að vísu í breyttu formi frá því sem áður var. Ég þekki einn slíkan á Austurlandi sem kemur enn að notum sem hússtjórnarskóli með námskeiðum og námsbrautum. Ég átti hlut að því í eina tíð sem aðili að byggingarnefnd menntaskóla á Egilsstöðum að leggja fram tillögur um að tengja þann skóla einmitt við hússtjórnarbraut í menntaskólanámi á Austurlandi, framhaldsskólanámi. Ég hygg að það hafi minna verið gert af því en ástæða hefði verið til, en möguleikinn er enn opinn því að þessi skóli starfar

enn sem hússtjórnarskóli.
    Varðandi þau námsþrep sem hér er gerð grein fyrir í greinargerð hef ég ekki vit til að gefa þar margar ábendingar, enda ekki ástæða til. Mér dettur þó í hug að garðyrkja og matjurtarækt séu einn sá þáttur sem ástæða sé til að tengja þessu námi vegna þess að æskilegt er að hann sé liður í starfi hvers heimilis, a.m.k. þar sem aðstæður eru til slíks, og það sé ástæða til þess að veita hagnýtar leiðbeiningar varðandi slíka þætti í sambandi við heimilisrekstur.
    Ég vil að lokum, virðulegur forseti, nefna það vegna þess að félmn. þingsins hefur verið að fjalla um manneldis- og neyslustefnu að einmitt sú stefnumörkun, manneldis- og neyslustefna, tengist því efni sem hér er til umræðu og góð skipan heimilisrekstrarnáms í framhaldskólum á að geta verið gildur þáttur í því að ná fram þeim áherslum sem menn vilja leggja í sambandi við manneldis- og neyslumál á hverjum tíma. Ég held að það hafi verið í huga flm. að þetta mál gengi einmitt sem fræðslumál til félmn. og þó að skammt lifi af þessu þingi kann að vera að nefndin geti litið á þetta mál nú eða þá endurflutt það á næsta þingi.