Staða og þróun jafnréttismála
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Í 22. gr. laga nr. 65 1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er kveðið á um að félmrh. leggi fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Þetta var gert í fyrsta skipti í desember 1986 og var skýrslunni fylgt úr hlaði í febrúar 1987. Samkvæmt lögunum er því á ný komið að því að leggja fram skýrslu og var henni dreift til hv. þm. í desember sl.
    Skýrsla sú sem að þessu sinni er lögð fram á Alþingi er byggð upp með svipuðum hætti og sú fyrri. Í henni er fjallað um nokkra þætti sem gefa til kynna stöðuna og framvinduna á þessu sviði. Þessir þættir eru: Löggjöf sem snertir jafnrétti kynjanna, menntun, atvinnu- og kjaramál, stjórnmál og stjórnsýsla og félagsleg atriði sem hafa áhrif á jafnréttismál. Í lokakafla skýrslunnar er gerð ítarleg grein fyrir þeim aðgerðum stjórnvalda sem hafa að markmiði að jafna stöðu kynjanna. Ég hyggst hér á eftir vekja athygli á nokkrum helstu niðurstöðum skýrslunnar ásamt því að gera grein fyrir því helsta sem unnið er á sviði jafnréttismála í félmrn. Í lokin vil ég draga saman hver ég tel brýnustu verkefni á sviði jafnréttismála í næstu framtíð.
    Eins og áður sagði fjallar fyrsti efniskafli skýrslunnar um löggjöf sem hefur bein áhrif á jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Í honum er vakin athygli á tveim nýjum lögum, þ.e. lögum nr 59/1987, um breytingu á lögum um almannatryggingar. Samkvæmt lögunum skulu greiddir fullir fæðingardagpeningar í fjóra mánuði frá gildistöku laganna. Frá 1. jan. 1989 skal greiða fæðingardagpeninga í fimm mánuði og í sex mánuði frá 1. jan. 1990. Þessi lög eru tvímælalaust mikilvægt skref í jafnréttisátt.
    Alþingi samþykkti á svipuðum tíma ný lög nr. 57/1987 um fæðingarorlof. Nokkur nýmæli eru í lögunum. Nefna má ákvæði í 6. gr. þar sem kveðið er á um skyldu atvinnurekenda til að færa barnshafandi konur til í starfi þar sem því verður við komið ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er hætta búin. Færsla á milli starfsgreina skal ekki hafa áhrif á kjör hlutaðeigandi til lækkunar. Í lögunum eru einnig ákvæði um að óheimilt sé að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildir um foreldri í fæðingarorlofi.
    Í kaflanum um löggjöf kemur einnig fram að á þeim þremur árum sem jafnréttislögin hafa verið í gildi hafa ýmsir annmarkar komið í ljós einkum að því er varðar tækifæri kvenna til stöðuveitinga og hvað varðar að koma á launajafnrétti kynjanna. Þetta kom skýrt fram í skýrslu nefndar sem ég skipaði 8. des. 1987 í samræmi við ákvæði í starfsáætlun þáv. ríkisstjórnar til að gera úttekt á launum og hlunnindagreiðslum hjá hinu opinbera. Meðal þess sem kom fram í skýrslu nefndarinnar var að launamunur kynjanna í dagvinnu var meðal starfsmanna í BSRB 5--7% og hjá BHMR um 17%. Það sem mesta athygli vakti í athugun nefndarinnar var tvöföld yfirvinna karla á við konur. Hjá almennum félagsmönnum í

BSRB fengu karlar í mars til maí 1987 68,2% ofan á dagvinnu sína vegna yfirvinnu en konur 34,9%. Annað atriði sem vakti athygli var að af greiðslum ríkissjóðs fyrir afnot af bílum fyrir árið 1987 komu 10% í hlut kvenna en 90% í hlut karla.
    Ég taldi brýnt í framhaldi af þessu að kanna frekar hvort um væri að ræða mikinn mismun á greiðslum hjá hinu opinbera milli karla og kvenna og hef fengið um það yfirlit að því er varðar ýmsar greiðslur fyrir árið 1987. Kemur þar ýmislegt athyglisvert í ljós sem sýnir að hið opinbera á nokkuð í land enn þá með að stuðla að jafnrétti milli karla og kvenna í launagreiðslum og er þar mikið verk óunnið. Ég vil nefna að í því yfirliti sem ég hef fengið kemur í ljós að í heild sinni eru greiðslur á yfirvinnu 84% meiri til karla en kvenna, greiðslur á vaktaálagi 50% meiri til karla en kvenna, greiðslur á nefndarlaunum 367% meiri til karla en kvenna, greiðslur á kostnaði 489% meiri til karla en kvenna, og er þar um að ræða akstur, dagpeninga innan lands, símakostnað, fæðispeninga o.fl. sem eru 489% meira til karla en kvenna, og heildaraukagreiðslur sem hlutfall af dagvinnulaunum eru 86% meiri til karla en kvenna á árinu 1987.
    Ég hygg að þessar tölur sýni að það sé nauðsynlegt að gerð sé allsherjarúttekt á þessum launagreiðslum hjá hinu opinbera í því skyni að jafna þeim meira á milli karla og kvenna og nauðsylegt að sem fyrst fari fram úttekt á því.
    Í framhaldi af niðurstöðu nefndarinnar sem ég skipaði 1987 taldi ég rétt að lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skyldu endurskoðuð og skipaði ég til þessa verkefnis nefnd í júní 1988. Nefndinni var falið að gera tillögur um breytingar á lögunum, gera tillögur um hvernig nýta megi 3. gr. laganna er heimila sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna og koma með tillögur um hvernig draga megi úr launamun kynjanna. Í nefndina voru skipaðar Jóna Ósk Guðjónsdóttir, formaður Sambands alþýðuflokkskvenna, Unnur Stefánsdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna, Þórunn Gestsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, og Lára V. Júlíusdóttir, fyrrv. aðstoðarmaður minn, sem jafnframt var skipuð formaður nefndarinnar. Í nóvember
1988 bættust við í nefndina þingmennirnir Guðmundur Ágústsson Borgfl., Hjörleifur Guttormsson Alþb. og Kristín Einarsdóttir frá SK.
    Nefndin hefur lokið störfum og hefur skilað frv. til nýrra jafnréttislaga, sem nú liggur fyrir Alþingi. Ég tel að í því frv. felist ýmsar gagnmerkar breytingar, en helstu breytingarnar sem frv. felur í sér að gerðar verði á núgildandi jafnréttislögum eru eftirfarandi:
    1. Lagt er til að hinu tvíþætta hlutverki Jafnréttisráðs verði skipt þannig að skipuð verði sérstök kærunefnd jafnréttismála sem eingöngu hafi það hlutverk að fjalla um kærur sem berast nefndinni og fylgja þeim eftir fyrir dómstólunum. Með þessum hætti gæti Jafnréttisráð einbeitt sér að því að gegna öðrum verkefnum, svo sem að vera stefnumótandi í

jafnréttismálum, sinna rannsóknarskyldu, fræðslu o.fl.
    2. Þá eru í frv. skýrari ákvæði um skipan jafnréttismála í stjórnkerfinu. Kveðið er á um að félmrn. fari með jafnréttismál og samskipti ráðuneytisins við Jafnréttisráð og jafnréttisnefndir sveitarfélaga.
    3. Samkvæmt lagafrv. er gert ráð fyrir ráðningu jafnréttisráðgjafa sem starfi í náinni samvinnu við Jafnréttisráð.
    4. Nefndin leggur til í frv. að beitt verði öfugri sönnunarbyrði í þeim kærumálum sem kærunefnd jafnréttismála berast. Þetta þýðir að sá sem veitir stöðu eða ræður starfsmann verður að sýna fram á með verulegum líkum að þar hafi kynferðið ekki ráðið vali á starfsmanni.
    5. Að því er varðar stöðuveitingar er lagt til að það kynið sem er í minni hluta í starfsgrein gangi fyrir uppfylli umsækjandi tilskildar kröfur til starfsins. Þetta á að gilda bæði hjá því opinbera og á almennum markaði.
    6. Í frv. er það gert að skyldu að sveitarfélög með 500 íbúum eða fleiri skipi jafnréttisnefndir.
    7. Nefndin gerir það að tillögu sinni í frv. að nefndin skuli tilnefna tvo, karl og konu, þegar tilnefnt er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga. Við skipun skuli þess síðan gætt að tala kynjanna verði sem jöfnust.
    8. Í frv. eru skýrari ákvæði um heimild til að dæma miskabætur sem verði lögfest.
    9. Félmrh. leggi fyrir Alþingi till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fenginni tillögu einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs.
    Það er ljóst að hér eru á ferðinni í mörgum atriðum veigamiklar breytingar á núgildandi jafnréttislögum og vonandi fær málið jákvæða umfjöllun hér á Alþingi, en að þessu verki hafa komið fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna.
    Í III. kafla skýrslunnar er gerð grein fyrir þróun menntunar á skólagöngu kvenna og karla sem rétt er að staldra við.
    Í almennu námi á framhaldsskólastigi voru 7800 nemendur á árinu 1987. Þar af voru 4200 konur eða rúmlega 54%. Undirflokkar almenns náms eru hinar ýmsu brautir innan framhaldsskólakerfisins, t.d. málabraut, viðskiptabraut o.s.frv. Meðal þess sem vekur athygli er að 1599 karlar stunda nám á raungreinabrautum en einungis 856 konur. Aðeins 11 karlar eru á námi á heilsugæslubraut en 192 konur.
    Kennaranám, uppeldisfræði er einn aðalflokkurinn, þar með talið uppeldis- og íþróttabrautir framhaldsskólastigs. Samtals stunduðu 1458 nemendur nám í þessum aðalflokki, þ.e. 311 karlar og 1147 konur. Konurnar voru 79% þessara nemenda. Þær voru t.d. 248 af 300 nemendum sem skráðir voru í nám grunnskólakennara á háskólastigi.
    Einn af aðalflokkunum á háskólastigi ber nafnið raunvísindi. Árið 1985 voru samtals 430 nemendur skráðir í nám í raunvísindum hérlendis og erlendis. Þar af voru 156 konur eða 36%. Í námi tengdu heilsugæslu og lækningum voru 1496 nemendur á

öllum skólastigum þar af 346 karlar eða 23% nemenda. Af 346 körlum voru 207 skráðir í læknisfræði, þ.e. 60%. Aðeins 11% kvennanna eða 126 lögðu stund á nám í læknisfræði.
    Við athugun á vali kynjanna í námi í iðngreinum eða handverki skólaárið 1985--1986 kemur eftirfarandi í ljós: Þetta skólaár voru 3282 nemendur skráðir í þetta nám eða um það bil 21% nemenda. Karlar voru 2897 og 385 konur. Konurnar voru því 11,7% þeirra sem lögðu fyrir sig slíkt nám.
    Eitt af því sem vekur sérstaka athygli er að 1% af 2897 körlum eða 25 voru skráðir í þjónustuiðngreinum. Hlutverk kvenna í þessum greinum var 45% eða 172. Af 1179 körlum í samningsbundnu iðnnámi voru 500 eða 42% þeirra á samningi í byggingar- og tréiðnum en aðeins tvær konur. Mun fleiri karlar völdu rafmagnsiðnað. Nám í þessum greinum velja 671 karl eða 97%. Konur voru hlutfallslega fjölmennar í matvælaiðnaðinum og bókiðnum. Engin kona stundaði meistaranám þetta skólaár en 93 karlar.
    Tækninám hefur til skamms tíma verið hefðbundið ,,karlanám``. Sem dæmi má nefna að þær fáu konur sem hafa verið innritaðar í Tækniskóla Íslands hafa nær eingöngu stundað meinatæknanám. Skýringar á þessu eru m.a. sú að flestir sem innritast í Tækniskólann hafa áður lokið iðnnámi þar sem kynskipting í
námsvali er sérstaklega greinileg. Konurnar voru í meiri hluta hvað varðar tækninám í framhaldsskólastigi eða 54%. En þær heltast úr lestinni þegar kemur á háskólastig og í nám erlendis.
    Á háskólastigi á Íslandi voru konur aðeins 11% nemenda á tæknisviði. Annars verður að hafa í huga að mjög lítill hluti íslensks skólafólks stundaði tækninám á þessum tíma. Konur í tækninámi voru 228 af 10.497 konum í námi ofan grunnskóla eða 2%. Karlar í tækninámi voru 897 af 12.024 körlum í námi ofan grunnskóla eða 7%.
    Þessi stutta upptalning gefur til kynna glögga kynskiptingu í námsvali og er brýnt að leitað verði leiða til að hamla gegn henni. Menntmrh. hefur boðað sérstakt átak í þessum efnum og á vegum félmrn. hefur á undanförnum þremur árum verið unnið að norrænu samstarfsverkefni sem hefur þann tilgang að þróa og prófa leiðir til að brjóta niður kynskiptingu á vinnumarkaði, bæði á milli atvinnu- og starfsgreina og einnig á milli áhrifa og valdra staða í þjóðfélaginu. Markmiðið er að aukna fjölbreytni í störfum og menntun kvenna og tryggja áhrif þeirra í atvinnulífinu og tryggja þeim atvinnu. Í fskj. með skýrslunni er gerð ítarleg grein fyrir framkvæmd þessa norræna samstarfsverkefnis.
    Minna má einnig á ákvæði í frv. til nýrra jafnréttislaga um forgang þess kyns til starfs sem er í minni hluta í hlutaðeigandi starfsgrein.
    Ég hef vitnað til þess að bandaríski hagfræðingurinn Mary Stevenson hefur haldið því fram að í kynskiptingu á vinnumarkaðnum væri að leita helstu skýringar á lágum launum kvenna.

Kynskipting á vinnumarkaðnum væri því raunverulega vandamálið að baki lágum launum kvenna. Hún sagði að hvenær sem hægt væri að einangra konur innan takmarkaðs fjölda starfa og atvinnugreina væri afleiðingin lág laun þeirra. Ég er sömu skoðunar. Það þarf ekki annað en litast um í íslensku þjóðfélagi til að fá sönnun fyrir þessari fullyrðingu. Ég hef því hreyft því stundum á Alþingi að ákvæðin um jákvæða mismunun verði tekin upp í jafnréttislögin, m.a. árið 1980. Á þeim tíma voru margir ekki á því að slíkt ætti að taka upp í lög, en tímarnir hafa breyst og m.a. er að finna um það ákvæði í nýjum jafnréttislögum.
    Í riti Þjóðhagsstofnunar um tekjur karla og kvenna sem kom út í upphafi þessa árs er birt talnaefni um laun karla og kvenna sem unnið er úr skattaframtölum einstaklinga og launamiðaskýrslum fyrir tímabilið 1979--1986. Í innangskafla ritsins er lögð á það áhersla að upplýsingar sem unnar eru eingöngu úr þessum gögnum dugi skammt til samanburðar á launakjörum kvenna og karla, en geti gefið vísbendingu um hvort launamunur sé til staðar milli kynjanna svo og hvort hann sé að aukast eða minnka á tilteknu árabili. Tekið er fram að í ritinu sé ekki svarað þeirri spurningu hvernig skýra beri slíkan mun sé hann til staðar og bent á að það verkefni hafi verið falið framkvæmdanefnd um samanburð á kjörum karla og kvenna.
    Í riti Þjóðhagsstofnunar kemur fram að á árinu 1980 hafi um 63 þúsund konur haft einhverjar launatekjur sem svara til 77,9% atvinnuþátttöku þeirra á því ári. Á árinu 1986 voru konur á vinnumarkaði orðnar rúmlega 73 þúsund sem svarar til 81,1% atvinnuþátttöku. Konum á vinnumarkaði fjölgaði um 10.300 á þessu tímabili eða um 16,4%, en á sama tíma fjölgaði vinnandi körlum um rúmlega 6800 eða um 9%. Við nánari athugun kemst Þjóðhagsstofnun að þeirri niðurstöðu að það er einkum giftum konum sem fjölgar á vinnumarkaðnum.
    Árið 1980 var atvinnuþátttaka þeirra 77,7% en árið 1986 er það hlutfall orðið 84%. Atvinnuþátttaka ógiftra kvenna hefur á hinn bóginn nánast staðið í stað og er á milli 78 og 79%. Árið 1980 var óverulegur munur á atvinnuþátttöku kvenna eftir hjúskaparstöðu, en árið 1986 hafði verulega dregið í sundur með þeim og var atvinnuþátttaka giftra kvenna orðin 5,2% hærri en ógiftra. Á þessu tímabili hefur heldur dregið úr atvinnuþátttöku karla þótt ekki sé um að ræða líkt því eins miklar breytingar og meðal kvenna. Árið 1980 var almenn atvinnuþátttaka karla 93,3% en var 92,2% 1986. Þetta á bæði við um gifta og ógifta karla.
    Þjóðhagsstofnun hefur borið saman atvinnuþátttöku kvenna á Íslandi og í nokkrum öðrum löndum. Í ritinu kemur fram að íslenskar konur á vinnumarkaði eru hlutfallslega mun fleiri en kynsystur þeirra í nágrannalöndum. Þetta er sérstaklega greinilegt þar sem útreikningar á atvinnuþátttöku á Íslandi eru miðaðir við allar konur 15 ára og eldri, en í öðrum löndunum eru konur yfir ákveðnum aldri undanskildar.
    Ef einungis er tekið mið af konum á aldrinum

16--74 ára er atvinnuþátttaka íslenskra kvenna árið 1986 90,1%. Ef miðað við er við þá útreikninga sem oftast eru notaðir á Íslandi var atvinnuþátttaka kvenna árið 1986 81,8%, í Svíþjóð 78,3%, í Danmörku 76,5%, í Finnlandi 73,4% svo að nefndar séu nokkrar tölur frá þeim löndum sem næst koma að þessu leyti.
    Í riti Þjóðhagsstofnunar er að finna mjög forvitnilegar upplýsingar um skiptingu kynjanna eftir atvinnustéttum. Þar kemur fram að konur eru í miklum minni hluta í stjórnunarstörfum og störfum sem krefjast starfsmenntunar eða
fela í sér mannaforráð. 80--90% kvenna teljast til ófaglærðs verkafólks eða afgreiðslu- og skrifstofufólks en einungis um helmingur karla.
    Lítil breyting hefur orðið á skiptingu karla og kvenna í hin ýmsu störf á undanförnum árum. Raunar hefur konum beinlínis fækkað í hópi forstjóra og vinnuveitenda en fjölgað lítillega meðal verkstjóra, faglærðs verkafólks og sérfræðinga.
    Í ritinu er fjallað ítarlega um hlut kvenna og karla í heildaratvinnutekjum og koma þar fram ýmsar upplýsingar sem ekki eru uppörvandi. Árið 1986 voru konur um helmingur launþega og var hlutur þeirra í heildaratvinnutekjum landsmanna aðeins tæp 33%. Þennan mun er hægt að skýra með þeirri staðreynd að stór hópur kvenna vinnur hlutastörf, en ef einungis eru athugaðir þeir launþegar sem voru fullvinnandi dregur úr þessu ósamræmi þó að það sé enn umtalsvert. Konur sem eru rúm 38% fullvinnandi launþega bera aðeins úr býtum um 27,5% af heildaratvinnutekjum sama hóps.
    Ef litið er á alla launþega í fullu starfi óháð hjúskaparstöðu höfðu konur árið 1981 60,3% af atvinnutekjum karla, en 60,7% fimm árum síðar. Hjá hjónum hefur munurinn jafnvel aukist. Árið 1981 höfðu giftar konur 55% af atvinnutekjum karla, en á árinu 1986 er hlutfallið 54,7%.
    Við athugun á meðalatvinnutekjum karla og kvenna í einstökum atvinnugreinum, atvinnu- og starfsstéttum eins og þær eru skilgreindar í ritinu, kemur eftirfarandi í ljós:
    Á árinu 1986 höfðu fullvinnandi konur í öllum atvinnugreinum tæplega 61% af tekjum fullvinnandi karla. Lægst var hlutfallið í hópi þeirra sem stunduðu fiskveiðar, en þar höfðu konur 52,4% af tekjum karla. Í þessu sambandi er vakin á því athygli að mjög fáar konur eru í hópi fiskimanna og þá sérstaklega meðal yfirmanna á fiskiskipum. Konur í þjónustugreinum höfðu 56,5% af atvinnutekjum karla en hæstu hlutfalli ná þær í flutningastarfsemi eða 68,4% af tekjum karla. Frá árinu 1981 hafa konur lítillega dregið á karla í öllum atvinnugreinum nema fiskveiðum. Árið 1981 höfðu konur í byggingarstarfi 61,5% af meðalatvinnutekjum karla, en á árinu 1986 hafði hlutfallið hækkað í 64,6%.
    Þótt einungis hafi verið drepið á örfár tölur í sambandi við launamun kynjanna gefa þær góða mynd af stöðu mála á þessu sviði. Það er ljóst að á þessu sviði jafnréttismála hefur okkur miðað allt of hægt. Hér er því þörf á sérstöku átaki stjórnvalda og aðila

vinnumarkaðarins og kem ég nánar að því atriði síðar.
    Í V. kafla skýrslunnar er fjallað um stjórnmál og stjórnsýslu. Í þessum kafla er gerð grein fyrir hlutfalli kynjanna á Alþingi og kemur fram að eftir síðustu alþingiskosningar eru konur 21% af heildarfjölda þingmanna og hafa heldur bætt hlut sinn. Einnig er að finna í kaflanum niðurstöður athugunar sem Jafnréttisráð framkvæmdi á hlutfalli karla og kvenna í opinberum stjórnum, nefndum og ráðum á árinu 1987. Niðurstöður þessarar könnunar eru í stuttu máli þær að hlutur kvenna hefur lítillega versnað frá árinu 1985 eða um 1%. Konur eru 12% nefndarmanna og karlar 88%.
    Könnun Jafnréttisráðs beindist einnig að hlutfalli kynjanna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum á aðalskrifstofum ráðuneyta. Á árinu 1985 var hlutur kvenna á þessu sviði 24% en hafði hækkað í 32% árið 1987.
    Í VI. kafla er gerð grein fyrir ýmsum félagslegum þáttum sem hafa áhrif á þróun jafnréttismála eins og t.d. dagvistarmál, húnæðismál, skattamál o.fl.
    Í lokakafla skýrslunnar um stöðu og þróun jafnréttismála er fjallað um aðgerðir stjórnvalda í jafnréttismálum, en það er of langt mál að rekja ítarlega efni hans og vísa ég því sérstaklega til þess kafla í skýrslunni. Ég kýs heldur að draga fram nokkur mikilvæg atriði.
    Ég vil fyrst minna á að í 22. gr. núgildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kveðið á um það að félmrh. skuli leggja fyrir ríkisstjórn fjögurra ára framkvæmdaáætlun um aðgerðir á sviði jafnréttismála og skuli við gerð hennar hafa hliðsjón af hliðstæðri áætlun Jafnréttisráðs. Þessa áætlun skal leggja fyrir Alþingi og var það gert í fyrsta skipti á árinu 1986. Þeirri framkvæmdaáætlun er skipt í fjóra hluta, þ.e. atvinnu- og launamál, menntun og fræðslu, trúnaðarstöður og ábyrgð á félagslegu sviði. Of langt mál yrði að rekja ítarlega einstaka þætti framkvæmdaáætlunarinnar, en gerð er grein fyrir áætluninni í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Ég vil þó geta þess að verði ný jafnréttislög samþykkt á hinu háa Alþingi er nauðsynlegt að endurskoða þá framkvæmdaáætlun sem nú er í gildi.
    Í fyrsta hluta núgildandi framkvæmdaáætlunar er fjallað um atriði sem hafa verið mikið til umfjöllunar í þjóðfélaginu, en það er sá munur sem menn telja að sé á launum kvenna og karla. Í þessum hlut er m.a. ákveðið að hraðað skuli könnun Þjóðhagsstofnunar á launum kynjanna, að ráðuneyti og opinberar stofnanir beiti sér fyrir sveigjanlegum vinnutíma og fram fari nýtt starfsmat og að efnt verði til námskeiða fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki. Á undanförnum tveimur árum hefur verið unnið að öllum þessum þáttum.
    Þjóðhagsstofnun gaf út í janúar sl. eins og áður er getið ritið Tekjur karla og kvenna. Í því er að finna ítarlegar upplýsingar um tekjuskiptinguna á milli
kynjanna. Framkvæmdanefnd um samanburð á kjörum karla og kvenna vinnur að ítarlegum samanburði á kjörum karla og kvenna þar sem m.a. eru borin saman

laun einstaklinga sem hafa sambærilega menntun, svipaða starfsreynslu og gegna svipuðum störfum. Félmrn. hefur átt viðræður við fjmrn. um sveigjanlegan vinnutíma og svo virðist sem þar séu ekki til staðar mikil vandamál. Á vegum BRYT-verkefnsisins og Fræðslumiðstöðvar iðnaðarins hafa verið haldin námskeið fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki.
    Í inngangi kaflans um menntun og fræðslu í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er vakin athygli á því að munur á menntun kvenna og karla hafi verið mikill, en hann fari minnkandi. Fram kemur það mat að til þess að bæta stöðu kvenna þurfi að stuðla að því að atvinnuþátttaka þeirra verði fjölþætt og hvetja konur til að haga menntun sinni í samræmi við það. Þau atriði sem leggja beri sérstaka áherslu á næstu fjögur árin eru aukin jafnréttisfræðsla, sbr. 10. gr. laga nr. 65/1985, skyldunámskeið um jafnréttisfræðslu fyrir kennara og starfandi fóstrur, endurskoðun námsefnis með tilliti til jafnréttis kynjanna, starfsfræðsla og náms- og starfsráðgjöf og aukin fræðsla um fjölskyldumál. Menntmrh. hefur nýlega boðað að gert verði sérstakt átak í þessum málum. Í þessu sambandi má einnig minna á framkvæmd BRYT-verkefnisins á Akureyri.
    Tvö markmið eru sett í kafla um trúnaðarstöður og ábyrgð. Í fyrsta lagi að ríki og sveitarfélög vinni markvisst að því að hlutverk kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum þessara aðila verði sem jafnast og er í því sambandi bent á 12. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Í öðru lagi er sú skylda lögð á ráðuneyti að þau vinni að því að konur sem starfa hjá hinu opinbera fái aukin tækifæri til að gegna ábyrgðarstörfum.
    Ekki er hægt að segja annað en unnið hafi verið markvisst að því að hrinda í framkvæmd þessum tveimur markmiðum. Ég vil einnig geta þess að eitt fyrsta verkefni mitt sem félmrh. eftir stjórnarskiptin á miðju sumri 1987 var að senda öllum ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum ríkisins bréf þar sem því var beint til þeirra að gera átak í jafnréttismálum og stefnt þar að ýmsum markmiðum.
    Í lokakafla framkvæmdaáætlunarinnar er fjallað um ýmis félagsleg atriði. Þar er á það minnt að íslenskt þjóðfélag hafi gerbreyst á undanförnum árum. Helstu breytingar felist í aukinni menntun kvenna og atvinnuþátttöku þeirra utan heimilisins. Bent er á nauðsyn þess að þjóðfélagið lagi sig að breyttum aðstæðum. Þess vegna þurfi að tryggja heimavinnandi maka sömu réttindi á við þá sem eru úti á vinnumarkaðnum, lengingu fæðingarorlofs, koma á samfelldum skóladegi og fjölga þeim fjölskyldum sem fá aðgang að dagvistarstofnunum og skóladagheimilum. Að öllum þessum atriðum hefur verið unnið eins og komið hefur fram að nokkru leyti áður í ræðu minni.
    Ég vil sérstaklega geta þess að á vegum forsrn. starfaði samstarfsnefnd ráðuneyta um fjölskyldumál sem var skipuð í tíð fyrrv. ríkisstjórnar í ágúst 1987.

Í skipunarbréfi er nefndinni falið að gera úttekt á og tillögur um nokkra málaflokka sem skyldu miða að því að treysta stöðu fjölskyldunnar og auka velferð barna. Þeir málaflokkar sem taldir voru upp í skipunarbréfinu eru skólamál, dagvistarmál, lífeyrismál og skattamál. Enn fremur var nefndinni falið að fjalla um sveigjanlegan vinnutíma.
    Nefndin skilaði ríkisstjórninni fyrrv. áfangaskýrslu um skóla- og dagvistunarmál 23. ágúst 1988.
    Félmrn. hefur undanfarin missiri lagt mesta áherslu á að ná þeim markmiðum sem sett eru í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar og í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun fyrrv. og núv. ríkisstjórna. Þau verkefni sem unnið hefur verið að á vegum ráðuneytisins eru könnun á launamun kynjanna, jafnréttisáætlanir, athugun á launa- og kjaramálum opinberra starfsmanna, séraðgerðir í þágu kvenna, BRYT-verkefnið, norrænt samstarf, endurskoðun jafnréttislaganna og átak í atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni.
    Eitt af því sem lögð hefur verið sérstök áhersla á í félmrn. sl. ár er að fylgja eftir samþykkt ríkisstjórnarinnar um að ráðuneyti og ríkisstofnanir sem hafa fleiri en 20 starfsmenn í þjónustu sinni semji jafnréttisáætlanir til næstu fjögurra ára þar sem þessar stofnanir settu sér markmið í sambandi við jafnrétti kynjanna.
    Í maí í fyrra héldu félmrn. og Jafnréttisráð fund með ráðuneytisstjórum og forstöðumönnum ríkisstofnana þar sem kynnt var gerð jafnréttisáætlana. Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar skulu áætlanirnar gilda í fjögur ár, þ.e. fyrir tímabilið 1. jan. 1989 til 31. des. 1992. Í áætluninni skal koma fram núverandi staða jafnréttismála innan ráðuneytis eða stofnunar og í öðru lagi að ráðuneyti, fyrirtæki og stofnanir setji sér markmið í jafnréttismálum sem stefnt verði að innan tiltekins tíma. T.d. að því er varðar stöðuveitingar, launamál, starfsauglýsingar, námskeið og tilnefningar í nefndir og stjórnir og ráð.
    Samtals hafa félmrn. borist 38 jafnréttisáætlanir. Eins og við mátti búast eru þær misjafnar. Í sumum er gerð nákvæm úttekt á stöðu jafnréttismála í
hlutaðeigandi stofnun og sett merkmið til að stefna að. Minni vinna hefur verið lögð í aðrar. Þetta kemur ekki á óvart. Hér er um brautryðjandaverk að ræða og er ekki við því að búast að öllum takist jafn vel upp. Ég hef hins vegar orðið þess áskynja að gerð jafnréttisáætlana hefur vakið fólk til umhugsunar um þetta mál og orðið hvati að umræðum um stöðu kynjanna á vinnustaðnum. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægi þess að gera jafnréttisáætlun felist ekki síst í þessu, að vekja fólk til umhugsunar og fá það til að ræða þessi mál. Ég er sannfærð um að forsenda árangurs í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna sé sú að fólk sé sammála um og viðurkenni að um misrétti sé að ræða og að aðgerða sé þörf.
    Ég vil geta þess að jafnréttisáætlanir hafa verið sendar Jafnréttisráði til athugunar og ákveðið er að gefa út rit þar sem gerð er grein fyrir hverri og einni áætlun hjá stofnunum og ráðuneyti, dregin fram

jákvæð og neikvæð atriði og birtar þær jafnréttisáætlanir sem þykja skara fram úr. Áformað er að meta stöðuna og árangur reglulega á tveggja ára fresti. Haldinn hefur verið fundur með fulltrúum sveitarstjórna en ætlunin er að hvetja sveitarstjórnir til að taka upp gerð jafnréttisáætlana með svipuðu sniði og fyrirtæki og stofnanir ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég vil þó aðeins í lokin koma inn á norrænt samstarf. Á seinni árum hafa Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin lagt mikla áherslu á norrænt samstarf á sviði jafnréttismála. Jafnréttisráðherrar Norðurlanda hittast reglulega til að leggja drög að sameiginlegri stefnumótun landanna á þessu sviði. Fundir jafnréttisráðherranna eru undirbúnir af norrænu embættismannanefndinni sem fjallar um jafnréttismál. Á undanförnum tveimur árum hafa Norðurlöndin staðið að þremur stórum samstarfsverkefnum, BRYT-verkefninu, samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála til ársins 1993 og síðast en ekki síst studdi norræna ráðherranefndin norrænt kvennaþing í Osló, Nordisk Forum, sem haldið var í júlí á liðnu sumri.
    Á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í mars sl. var afgreidd tillaga frá norrænu ráðherranefndinni um norræna samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála til ársins 1992. Þessi framkvæmdaáætlun hefur verið til umfjöllunar í norrænu embættismannanefndinni um jafnréttismál og á fundum norrænu jafnréttisráðherranna. Af hálfu Íslands hefur verið lögð rík áhersla á að aðgerðir í launamálum ættu að vera rauði þráðurinn í áætluninni. Taka þurfi til umræðu hugtakið ,,jafnverðmæt og sambærileg störf`` þannig að vinna kvenna sé ekki skilgreind sem þýðingarminni en vinna karla. Í áætluninni þurfi að leggja áherslu á að heimilisstörf verði metin til starfsreynslu í atvinnulífinu, leita þurfi leiða til að tryggja að konur hafi sama rétt til yfirvinnu og karlar og auka verði eftirlit með raunverulegum vinnutíma og raunverulegum launagreiðslum fólks. Enn fremur þurfi að auka vægi rannsókna í kjara- og launamálum, rannsóknir þurfi að beinast í ríkari mæli að þeim sviðum þjóðlífsins þar sem augljóst er að kynin standa misjafnlega að vígi.
    Á fundi norrænu jafnréttisráðherranna 30. janúar sl. fyrir Norðurlandaráðsþing, þar sem framkvæmdaáætlun var til lokaumræðu, var að verulegu leyti tekið tillit til þessara athugasemda frá Íslandi.
    Í skýrslunni er að finna frásögn af Nordisk Forum, norrænu kvennaþingi sem haldið var af miklum myndarskap í Osló í júlí sl. Einnig er yfirlit yfir framgang norræna samstarfsverkefnisins BRYT, en vinna við það hófst 1985. Þetta er fjögurra ára verkefni sem unnið er á afmörkuðum svæðum í hverju landi og er núna u.þ.b. að ljúka. Hefur Akureyri orðið fyrir valinu hér á landi. Tilgangur verkefnisins er að þróa og prófa leiðir til að brjóta niður kynskiptingu á vinnumarkaði, bæði á milli atvinnu- og starfsgreina og einnig á milli áhrifa- og valdastiga. Markmiðið er að auka fjölbreytni í störfum og menntun kvenna, tryggja

áhrif þeirra í atvinnulífinu og tryggja þeim atvinnu.
    Áður en ég segi skilið við þann hluta skýrslunnar sem fjallar um erlent samstarf vil ég vekja athygli á hugmynd sem ég hef varpað fram um stofnun sérstakrar jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Meðal verkefna slíkrar stofnunar væri eftirlit með því að unnið væri raunhæft starf í anda Nairobí-samþykktarinnar og að jafnréttismálum væri sinnt á alþjóðavettvangi í þeim mæli sem þörf er á. Hún mundi fylgjast með stöðu kvenna á öllum sviðum, leita orsaka mismununarinnar, bæði hefðbundinnar og nýrrar, og vera til aðstoðar um mótun nýrrar stefnu og hrinda í framkvæmd áætlunum og ráðstöfunum til að binda endi á mismunun kynjanna. Slík stofnun gæti gert sjálfstæðar áætlanir og kannanir á mismunun kynjanna í hvaða mynd sem hún birtist og hún gæti veitt þjóðum heims nauðsynlegt aðhald til að flýta því að jafnrétti kynjanna komist á í reynd.
    Í ræðu minni hef ég fjallað um nokkur atriði sem snerta framkvæmd jafnréttismála undanfarin tvö ár. Mér finnst rétt í lokin að fara nokkrum orðum um þau verkefni sem brýnast er að vinna að á þessu sviði.
    Eitt af því allra mikilvægasta eru launamálin. Á þessu sviði verða ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins að taka höndum samna til að ná árangri. Í þessu sambandi er mikilvægt að gera sér glögga grein fyrir ástæðum
launamunar kynjanna og ráðast síðan að rótum vandans. Mikilvægt atriði er að draga fram upplýsingar um raunverulegar kaupgreiðslur í þjóðfélaginu og að því er nú unnið.
    Annað verkefni er að draga úr kynskiptingu við starfsval. Á árinu lýkur norræna samstarfsverkefninu sem ég áðan nefndi, ,,Brjótum múrana``, með ráðstefnu sem verður haldin á Íslandi í nóvember nk. Á henni verða kynntar helstu niðurstöður og bent á leiðir til úrbóta. Ég tel mjög mikilvægt að reynslan sem fengist hefur með framkvæmd verkefnisins verði nýtt í framtíðinni og reynt að stuðla að jafnari skiptingu kynjanna í einstökum starfsgreinum. Það þarf að stuðla að auknu jafnrétti á vinnumarkaðnum og leita leiða til að auðvelda báðum foreldrum virkari þátttöku í atvinnulífinu.
    Ýmsar leiðir eru færar. Ég vil benda á að þær áherslur sem þurfa að liggja til grundvallar í því sambandi eru að auka dagvistarrými fyrir börn, jafna ábyrgð foreldra á börnum, auka tækifæri til starfsmenntunar úti í atvinnulífinu, lengja fæðingarorlof og koma á launuðu fríi vegna veikinda barna. Það þarf að ná samstöðu um endurmat á hefðbundnum kvennastörfum. Þetta verður ekki gert nema um það takist víðtæk samstaða í þjóðfélaginu, ekki síst stuðningur aðila vinnumarkaðarins. Félmrn. mun freista þess að hafa forustu um viðræður um leiðir í þessu sambandi.
    Leggja þarf ríka áherslu á að bæta stöðu þeirra sem eru heimavinnandi. Konur vinna mun meira á heimilum en karlar og hafa af þeirri ástæðu styttri

reynslu úti á vinnumarkaðnum en karlar. Ég tel mikilvægt að tryggt verði að reynsla heimavinnandi verði metin með sama hætti og starfsreynsla á vinnumarkaðnum. Minna má á að það eru einmitt störfin úti á vinnumarkaðnum sem í eðli sínu eru söm og sambærileg og unnin eru á heimilunum sem eru lægst launuðu störfin í þjóðfélaginu, hin svokölluðu hefðbundnu kvennastörf á vinnumarkaðnum. Ef störf heimavinnandi væru meira metin og starfsreynsla þar nýttist á vinnumarkaðnum til hærri launa væri það tvímælalaust liður í að jafna launamisrétti á vinnumarkaðnum milli kvenna og karla og að vinna í hefðbundnum kvennastarfsgreinum væri meira metin að verðleikum.
    Um þessar mundir en nefnd á vegum félmrn. að vinna að málefnum heimavinnandi fólks og ég vænti þess að hún skili áliti innan ekki allt of langs tíma og að leggja megi tillögur til úrbóta fyrir ríkisstjórn og Alþingi á næsta hausti.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég vænti þess að þær upplýsingar sem hér hafa verið lagðar fram varpi nokkru ljósi á hvert okkur hefur miðað og að þær geti lagt grunninn að sameiginlegu átaki í jafnréttismálum næstu missirin.