Staða og þróun jafnréttismála
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að nú skuli gefast tækifæri til þess að ræða jafnréttismál á Alþingi í tengslum við skýrslu félmrh., en það er á sama hátt óviðunandi að svo hægt skuli miða í kvenréttindabaráttunni sem raun ber vitni og birtist m.a. í þessari skýrslu og öðrum skýrslum sem okkur berast.
    Ef ég lít til baka finnst mér ótrúlega lítið hafa áunnist. Staða kvenna hefur að vísu breyst mikið, en ég efast um að hún hafi breyst neitt verulega umfram þær heildarbreytingar sem hafa orðið í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir öll lög eru konur enn með lægstu launin. Enn eru störf kvenna inni á heimilinu lítið metin. Enn hafa konur lægstu launin á vinnumarkaðnum. Enn bera konur mesta ábyrgð á börnum og heimili. Enn er fæðingarorlofið skammarlega stutt. Og enn hafa karlar ekki tekið á sig þann hluta ábyrgðarinnar sem ætti að leggjast á þeirra herðar vegna aukinnar atvinnuþátttöku kvenna. Það er jafnvel svo að í nafni jafnréttis hafa konur þurft að fórna hluta af sínum réttindum til karla án þess að karlar hafi þurft að láta nokkuð í staðinn.
    Undanfarin ár hafa æ fleiri gert sér grein fyrir því jákvæða í reynslu, menningu og viðhorfum kvenna og mikilvægi þess að viðhorf kvenna verði stefnumótandi afl í þjóðfélaginu. Á þetta sérstaklega við okkur konurnar sem vorum fyrr á árum ákaflega bundnar af því jafnrétti sem fólst í því að konur fengju að vera eins og karlar. Margir, og þá sérstaklega karlar en einnig margar konur, eru ekki enn búnir að átta sig á þessu.
    Þjóðfélagsstaða kvenna sem hefur ákvarðast af kynhlutverkinu hefur leitt til þess að konur hafa staðið utan við valdakerfið. Þær hafa ekki verið þar sem ákvarðanir eru teknar um mótun samfélagsins. Hlutverk karlmannsins hefur verið út á við þar sem hörð samkeppni ríkir. Það má deila um hvort hlutskiptið er gjöfulla eða öfundsverðara. Eflaust hefur þessi starfsskipting heft karla engu síður en konur og kysu þeir sér e.t.v. annað hlutskipti en þeim býðst nú ef svigrúm gæfist til.
    Barátta kvenna fyrir auknum réttindum er engin nýlunda, hvorki hér á landi né annars staðar. Það var árið 1908 sem konur fengu kosningarrétt til bæjarstjórnar í Reykjavík og Hafnarfirði og þær nýttu þann kosningarrétt á þann hátt að þær ákváðu að bjóða fram sérstakan kvennalista til bæjarstjórnar í Reykjavík og fengu mikið fylgi. Þær voru fjórar sem voru á listanum og voru allar kjörnar og hefðu fengið eina í viðbót ef þær hefðu áttað sig á þessu og boðið fram fleiri. Kosningarrétt fengu konur til Alþingis árið 1915 þó að margir efuðust á þeim tíma um að það væri hægt að veita konum kosningarrétt því þær mundu ekki geta notað þann rétt. Margir karlar efuðust um að þær hefðu nægilegar gáfur til þess að geta notað þennan kosningarrétt, en aðrir óttuðust að ef konur fengju kosningarrétt þá mundu þær flykkjast í allar stöður, verða strax 50% af alþingismönnum og fleira hræðilegt að því er þeir töldu. Mörgum körlum sem tóku þátt í umræðunni fannst að þarna væri stigið

skref aftur á bak. Það reyndist því miður ekki mikill akkur fyrir konur sem þessi sjálfsögðu mannréttindi gáfu þeim. Þetta skilaði þeim ákaflega litlu.
    Fyrsta konan sem kjörin var á þing var Ingibjörg H. Bjarnason og var hún kosin af Kvennalista árið 1922. Ég vil koma því á framfæri hér að hún var kosin af Kvennlista. Að vísu gekk hún í Sjálfstfl. síðar. Það hefur hins vegar komið fram, m.a. í blaðagrein sem formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, skrifaði að hún hefði verið sjálfstæðiskona. Ég vil því endilega koma því að að hún var kjörin af Kvennalista. Ingibjörg var fyrsta konan sem kjörin var á Alþingi og fáar hafa þær verið sem komist hafa inn á þing þó að, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan, konur séu nú rúmlega 21% af alþingismönnum. En þær eru að sjálfsögðu enn allt of fáar.
    Það sem hrellir þegar farið er að athuga málflutning kvennanna á þessum tíma frá 1908 og 1922 er að þeirra málflutningur getur í sumum tilvikum átt nákvæmlega við í dag. Ef þær greinar, sem þá voru skrifaðar, væru settar í blöðin í dag gætu eflaust margir haldið að þær væru skrifaðar miðað við það hvernig staða kvenna er nú. Þannig að þó að konur á Íslandi fengju kosningarrétt mjög snemma miðað við margar aðrar hefur það skilað þeim frekar litlu inn í stjórnkerfið.
    Síðan fengum við jafnréttislög árið 1976 sem svo voru endurskoðuð árið 1985 og við þetta voru bundnar vonir. Árið 1976 sérstaklega voru margir sem bundu miklar vonir við að þá mundi allt breytast þar sem í þeim lögum stóð t.d. að greiða ætti sömu laun fyrir sömu vinnu o.s.frv. Því héldu margir að það væri nú rétt handan við hornið sem jafnrétti mundi nást. En þrátt fyrir þetta hefur ótrúlega lítið áunnist og þarf ég ekki annað en vísa til skýrslu hæstv. ráðherra og ræðu hennar hér áðan þar sem lýsing á stöðu kvenna er vægast sagt mjög bágborin.
    Það má kannski segja að viðhorf til kvenna í þjóðfélaginu endurspeglist fyrst og fremst af þeim launum sem konur fá fyrir störf sín, enda varði hæstv. ráðherra drjúgum tíma sínum í að tala um laun kvenna og upplýsa, sem reyndar kemur engum á óvart, hversu launamunurinn er gífurlega mikill milli karla og kvenna. Það er gripið til ýmissa skýringa þegar reynt er að afsaka þennan
mikla mun sem er á launum fyrir hefðbundin kvennastörf miðað við laun fyrir hefðbundin karlastörf. Það er sagt að karlastörf séu svo erfið, konur séu minna menntaðar og þær vilji ekki taka að sér ábyrgðarstörf. Þetta eru dæmi um það sem nefnt er til skýringar. En ef farið er að athuga þetta nánar hljóta allir að átta sig á því að mikilvægustu ábyrgðarstörfin eru t.d. barnauppeldi, þjónustustörf, hjúkrun og heimilisstörf. Þetta eru störf sem mest hafa hvílt á herðum kvenna, enda rúmast tilfinningamál sem bundin eru slíkum samskiptum illa í hinum harða heimi karla. En eru þess störf þannig að skýringar um minna erfiði, minni ábyrgð eða minni menntun eigi við? Það hljóta allir að vera sammála um að réttlæting

í lágum launum geti ekki falist í ofangreindum atriðum. Ég held að allir sem hafa reynt að skúra og þrífa viti að þau störf eru með erfiðari störfum sem til eru og á sjúkrahúsum vinna konur yfirleitt erfiðustu störfin. Þegar farið er að athuga þessi svokölluðu hefðbundnu kvennastörf er langt frá því að það sé hægt að grípa til þessara skýringa. Ég vil nefna hér sem dæmi að ljósmóðir, sem hlýtur að allra mati að hafa með höndum starf sem er bæði mjög vandasamt og ábyrgðarmikið, hefur sömu laun og meindýraeyðir. Það er furðulegt mat sem þarna er lagt til grundvallar. Það var líka sagt við konur: Þið hafið ekki nægilega mikla menntun, þið þurfið að mennta ykkur til þess að fá hærri laun. Konur hlýddu kallinu, menntuðu sig og þar með átti allt að lagast. En hvað gerðist þá? Á bls. 7 í skýrslu hæstv. félmrh. kemur greinilega fram hvað konur gerðu. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Konur velja frekar nám sem leiðir til umönnunar- og þjónustustarfa sem eru lakar launuð en ,,karlastörf``.
    Þessi staðreynd er í nokkru misræmi við 10. gr. laganna nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar er kveðið á um að við náms- og starfsfræðslu í skólum skuli leitast við að breyta hinu venjubundna náms- og starfsvali kvenna og karla.``
    Þá má spyrja sjálfan sig: Hvers vegna skyldi nú vera kveðið á um í þessari 10. gr. laga að það þurfi að leitast við að breyta hinu venjubundna náms- og starfsvali kvenna. Ég held að það sé augljóst í þessari skýrslu að konur velja sér ekki sams konar nám og karlar og þær verða að hafa frelsi til þess að velja sér þau störf og þá menntun sem hentar þeim. Ef þær velja sér frekar umönnunar- og þjónustustörf hlýtur að vera mjög eðlilegt að ef þær vilja þessi störf fái þær að sjálfsögðu að velja þau. Ef karlarnir vilja ekki fara í þessi störf að meiri hluta til er ekkert við því að gera, þó að ég telji nú að þeir hefðu mjög gott af því og að það væri nauðsynlegt að reyna að fá karla til að fara í fleiri af þeim störfum sem konur fara venjulega í.
    Ég er því algerlega ósammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan að við þurfum að reyna að breyta þessu vali og reyna að hafa áhrif á konur til að breyta um námsleiðir. ( Félmrh.: Líka að hafa áhrif á karla til að breyta um.) Það er alveg sjálfsagt að benda fólki á allar þær leiðir sem til eru en það þýðir ekki að troða fólki í eitthvað sem það hefur ekki áhuga á og leiðir til starfa sem það hefur heldur ekki áhuga á því. Það sem við hljótum að þurfa að gera er að breyta verðmætamatinu. Það er ekki hægt að þvinga fólk til að mennta sig til ákveðinna starfa. Það verður hver og einn að fá að velja. Mér er nú ekki alveg ljóst hvernig á þá að manna hefðbundin kvennastörf því að ekki hefur það sýnt sig að karlarnir fari í þau.
    Það sem skiptir máli er verðmætamatið. Það þarf að breyta matinu þannig að kvennastörfin séu metin til jafns á við störf karla. Annað er útilokað. Ég var búin að minnast aðeins á að það hafi verið talað um menntun og hversu erfið störfin eru. Ég held að það sé bara fyrirsláttur þegar verið er að tala um það og

segja síðan að konur eigi að hafa lægri laun, eins og ég hef vikið að. Það sem líka er talað um er að konur vilji ekki taka að sér ábyrgðar- og stjórnunarstörf. Þetta hefur mér alltaf fundist mjög furðulegt og á bls. 19 í skýrslu ráðherra er talað um þetta. Þar er talað um að hlutur kvenna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum sé eingöngu 24%. Þegar verið er að tala um það hvar konur lenda í störfum stendur neðst á bls. 19, með leyfi forseta: ,,Á því skal vakin athygli að um er að ræða stjórnunar- og ábyrgðarstöður.``
    Þá langar mig til að vita hvað það er sem ráðherrann á við. Hvað er átt við með ,,ábyrgðarstöður``? Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig ábyrgðin er þarna metin vegna þess að að konur vinna yfirleitt svokölluð hefðbundin kvennastörf sem almennt eru miklar ábyrgðarstöður. Það kemur líka fram á bls. 23 á miðri síðu, með leyfi forseta:
    ,,Í öðru lagi að ráðuneytin ynnu að því að konur sem starfa hjá hinu opinbera fengju aukin tækifæri til að gegna ábyrgðarstöðum.`` Það er greinilegt að þarna er talað um einhverjar ákveðnar stöður sem eru ábyrgðarstöður og ég átta mig ekki á hvernig er skilgreint sérstaklega í þessu samhengi þar sem ég tel að konurnar hafi almennt mjög mikla ábyrgð á sínum herðum. Það þarf því ekki að vera að gefa í skyn að þær vilji það ekki né hafi ekki þess konar störf á höndum.
    Ráðherra minntist á frv. til laga um jafna stöðu og jafnrétti kvenna og karla, 437. mál, sem hefur verið lagt fram á þinginu en ekki verið mælt fyrir.
Ég kom aðeins að þessu máli, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, þar sem ég kom inn í þá nefnd sem fjallaði um endurskoðun þessara laga rétt í lok þeirrar vinnu sem þarna var verið að vinna. Það hlýtur öllum að vera ljóst að auðvitað eru lög um jafna stöðu kvenna og karla á engan hátt lausn fyrir konur. Það getur hins vegar verið til góðs og verið til hjálpar ef rétt er á haldið, en það þarf svo sannarlega aðrar aðgerðir til að þetta muni hafa einhver áhrif. Það breytir ekki því að það er nauðsynlegt með stjórnvaldsaðgerðum að reyna að hafa áhrif á stöðu kvenna.
    Ég ætla að leyfa mér að fara yfir nokkur atriði þessa frv. þó að ég ætli mér alls ekki að fara í það í smáatriðum, aðeins að drepa örlítið á nokkur atriði. Í 2. gr. frv. er talað um að konur eigi að hafa jafna möguleika til atvinnu, launa og menntunar. Í 4. gr. frv. er talað um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þetta er ekki nýtt ákvæði í lögunum og hingað til hefur það sýnt sig að þetta ákvæði í lögunum er vægast sagt haldlítið. Hver á að meta verðmæti starfa? Það verðmætamat sem nú gildir tekur á engan hátt mið af því sem er í raun verðmætast fyrir þjóðfélagið. Undirstaða þjóðfélagsins er fólkið sjálft, þeir sem sjá um uppeldi og umönnun, menntun og heilbrigði þjóðarinnar vinna verðmætustu störfin ásamt þeim sem vinna að nýtingu auðlindanna. Þeir sem vinna þessi verðmætu störf hafa ekki notið nálægt því sambærilegra kjara á við þá sem vinna

störf sem eru þjónusta við undirstöðugreinarnar og fólkið og byggir algerlega á þeim. Í ljósi þessa er ljóst að án skilgreiningar á því hvað við er átt með verðmæti í þessu samhengi er þessi grein haldlítil.
    Í athugasemd við þessa grein stendur, með leyfi forseta: ,,Einn mikilvægasti þátturinn í slíkri skilgreiningu [þ.e. á jafnverðmæt og sambærileg störf] þarf að vera að uppeldis-, umönnunar- og önnur hefðbundin kvennastörf verði metin til jafns við hefðbundin karlastörf.`` Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt atriði og vonast ég til að það verði hægt að taka á þessu máli aðeins betur þó að ljóst sé að það verði ekki gert nema með hreinni uppstokkun á öllu launakerfinu.
    Það er ákvæði í lögunum að um hvers konar mismunun eftir kynferði sé óheimil og að tímabundnar aðgerðir í þágu kvenna teljist ekki mismunun. Það verður að vera alveg ljóst að konur kæra sig ekkert um neina aumingjahjálp. Þær telja að það sem þær hafa fram að færa sé fyllilega sambærilegt við það sem karlar hafa fram að færa, en það hefur bara ekki verið metið að verðleikum þannig að það þarf að ýta undir það atriði. Mér finnst mikilvægt að það sé ekki litið svo á að þessi lög séu einhvers konar aumingjahjálp. Við erum að vinna að því að reyna að stuðla að því að þjóðfélagið fái notið krafta kvenna og þeirra lífsreynslu og viðhorfa.
    Ég ætla mér ekki að fara nánar út í greinar frv. nema hvað mig langaði til að minnast á 16. gr., þar sem talað er um Jafnréttisráð, en sú grein var eitt af því sem var langmest rætt í þessari nefnd sem endurskoðaði jafnréttislögin. ( Forseti: Forseti vill benda hv. þm. á að reyna að halda sig við skýrsluna vegna þess að tími er takmarkaður tími hjá okkur í dag og reyna að fara ekki út í önnur efnisatriði þó þau séu kannski skyld.) Ég skal taka tillit til þess. Ég gerði þetta eingöngu vegna þess að hæstv. ráðherra minntist á þetta og því fannst mér ástæða til þess að gera það hér. Ég skal hins vegar stytta mál mitt, virðulegur forseti, og taka tillit til þess, enda er ég rétt að ljúka máli mínu.
    Ég vildi aðeins minna á breytingu í þessu frv. varðandi skipan Jafnréttisráðs, en það urðu miklir erfiðleika við að finna út hvernig best væri að skipa Jafnréttisráð. Við komumst að lokum að þessari málamiðlun sem þarna er þó að í raun væri enginn ánægður með hana. Vil ég láta það vera lokin um þetta. Ég vildi aðeins koma því að þar sem þetta bar á góma fyrr í umræðunni.
    Að jafna stöðu kvenna og karla er markmið svo ótrúlega margra, ef marka má orð þeirra, en svo ótrúlega margir vilja ekkert á sig leggja til að ná því marki. Kvennfrelsisbaráttan hefur undanfarin ár og áratugi fyrst og fremst verið borin uppi af konum enda hefur óréttlætið bitnað á þeim. Margir karlar hafa stutt konur í baráttunni en allt of fáir. Aukin þátttaka kvenna í hinum opinbera þætti þjóðfélagins hefur ekki leitt til þess að karlar hafi að sama skapi tekið á sig stjórnunar- og ábyrgðarstörf í hinum óopinbera hluta þjóðfélagsins. Konur bera enn að

stærstum hluta til ábyrgð á heimilum án þess að það sé viðurkennt af þjóðfélaginu. Það er kominn tími til að snúa hér við blaði og taka á raunhæfan hátt á þessum málum. Til að leiðrétta það misrétti sem konur búa við þarf margar og samþættar aðgerðir. Þær verða ekki að veruleika nema pólitískur skilningur sé til staðar og viðurkenning á misrétti en í því skortir mjög mikið á eins og dæmin sanna. Það sem þarf að gera hið allra fyrsta eru framkvæmdir byggðar á áætlunum þar sem tekið er á misréttinu og því eytt.
    Hæstv. ráðherra minntist á marga þætti sem þyrfti að taka til og koma fram í jafnréttisáætlun sem birt er sem fylgiskjal með skýrslunni og minntist í
nokkrum atriðum á hvað þar væri á ferðinni. Það þarf að sjálfsögðu mikið til. Það þarf að lengja hið allt of stutta fæðingarorlof og stórbæta aðstoð við þá sem eiga lítil börn, m.a. með því að gera stórátak í uppbyggingu dagvistarheimila, gera skóladag barna samfelldan, samræma hann vinnu foreldra og auka rétt foreldra til að fá leyfi frá störfum vegna umönnunar barna, hvort heldur er vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Þegar konur fara út á vinnumarkaðinn eftir margra ára stjórnunar- og ábyrgðarstörf á heimili á að meta það sem starfsreynslu. Stytta þarf vinnudaginn og síðast en ekki síst þarf að endurmeta kvennastörfin þannig að uppeldis-, umönnunar- og önnur hefðbundin kvennastörf verði metin til jafns á við hefðbundin karlastörf. Það held ég að sé langbrýnasta verkefnið eins og fram hefur komið og kemur greinilega fram í þessari skýrslu og kom fram reyndar í máli hæstv. ráðherra.
    En jafnrétti næst ekki með því að konur verði eins og karlar eins og enn er reynt að gera, þótt sú stefna sé sem betur fer á undanhaldi, heldur verður að viðurkenna sérstöðu hvors kynsins um sig. Karlar verða að taka sig á og gera sér grein fyrir að það er farsælast fyrir þjóðfélagið að uppræta það misrétti sem viðgengst gagnvart konum. Vinnum saman að því að bæta stöðu kvenna til farsældar fyrir okkur öll. Nú er kominn tími til að karlar axli ábyrgð.