Íslenskur gjaldmiðill
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Flm. (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja að því í sambandi við þessa umræðu: Er enginn ráðherra í húsinu? T.d. viðskrh.? ( Forseti: Eftir því sem forseti kemst næst þá er einn ráðherra staddur í húsinu og það er hæstv. félmrh. Samkvæmt töflu í borði forseta eru aðrir ráðherrar ekki staddir í húsinu.) Það er ágætt að það komi fram hvernig framkvæmdarvaldið stendur sig á Alþingi.
    Ég vil bæta við það í framhaldi af því sem ég sagði hér áðan að þessi tillaga var flutt í fyrra, er reyndar flutt í aðeins breyttu formi nú. Henni var þá vísað til nefndar og nokkrar umsagnir fengnar og er ég hér með fjórar þeirra. Í fyrsta lagi er umsögn frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem telur mjög eðlilegt að nefnd verði skipuð þó að þetta hafi ekki verið nákvæmlega eins. Alþýðusamband Íslands samþykkti að mæla með tillögunni. Landsbanki Íslands sagði að ályktunin fjallaði um málefni sem væru lykilatriði í íslensku efnahagslífi og taldi mjög eðlilegt að tillagan yrði samþykkt. Seðlabankinn blessaður getur ekki haft neitt á móti því að ríkisstjórnin skipi nefnd í þessu skyni. Þá vitum við það. Eina neikvæða umsögnin var síðan frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Ég taldi rétt að þetta kæmi líka fram.
    En ég vildi gjarnan bæta því við að það er fullkomin ástæða til þess í sambandi við tillögu sem þessa og þetta málefni, þ.e. gengi íslensku krónunnar, að Alþingi Íslendinga fari að skoða hvernig framkvæmdarvaldið framkvæmir lög sem eru jafnþýðingarmikil og t.d. lög um Seðlabanka Íslands. Ég satt að segja skil ekki margt af þeirri framkvæmd.
    Það er einnig rétt að það komi fram að það er kominn tími til þess að löggjafarvaldið endurskoði samskipti sín við framkvæmdarvaldið alveg frá grunni. Ég vil að það komi fram í sambandi við kostnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að ég skrifaði bréf til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar í vetur um þessa kostnaðarskiptingu og rakti það reyndar í gær varðandi dómsvaldið, þ.e. allt sem heyrir undir dómsmrn. nema kirkjumál og Hæstiréttur er þar meðtalinn, að þangað fara 4,11% af fjárlögum. Framkvæmdarvaldið eyðir 95,14% en löggjafarvaldið, þ.e. embætti forseta Íslands, Alþingi Íslendinga og Ríkisendurskoðun, eyðir 0,75% af fjárlögum. Þó að mörgum þyki að Alþingi sé dýrt í rekstri er þetta ekki nema 0,75% af fjárlögum og eins og ég sagði áðan er Ríkisendurskoðun, með liðlega fjörutíu manna starfslið, innifalin og einnig allt embætti forseta Íslands. Mér er spurn hvort það væri réttara að löggjafarvaldið yki sjálfstæði sitt og fylgdist meira með því að framkvæmdarvaldið framfylgi lögum, eins og t.d. lögum um Seðlabankann. Ég tel að það sé fyllilega ástæða til þess að Alþingi fylgist með því að framkvæmdarvaldið geri eins og Alþingi hefur ákveðið, þá á ég við það að skrá gengi íslensku krónunnar þannig að jafnvægi haldist í utanríkisviðskiptum. Það er meginsjónarmið.
    Ég skil ekkert í þingmönnum sem halda að sér höndum meðan atvinnuvegum blæðir út vegna rangrar

gengisskráningar. Svo talar ráðherra alltaf um einhverja gengiskollsteypu. Hvað er það? Það er ekki til í orðabók. Er það gengiskollsteypa að fara að lögum, að skrá gengið eins og á að gera það? Er það gengiskollsteypa? Ég skil ekki svona kjaftæði. Það er alveg hreint fráleitt. Það er mikill ábyrgðarhluti, eins og ég sagði áðan, að rýra íslenska atvinnuvegi með því að skrá gengið vitlaust. Ég álít að að fyrirtæki í útflutnings- og samkeppnisiðnaði tapi um þessar mundir u.þ.b. 400--500 millj. kr. á mánuði. Það segir enginn neitt við því og þögn er bara sama og samþykki hjá þessu hv. stjórnarliði. Ég verð að lýsa furðu minni yfir svona háttalagi. En ég vona að einhvern tíma komi að því að menn vakni til vitundar um að það þarf að fara að fjalla um efnahagsmál á Íslandi út frá sömu forsendum og gert er annars staðar í hinum vestræna heimi. Vatnið rennur niður í móti á Íslandi. Það gerir það líka alls staðar annars staðar á hnettinum og það eru ákveðin grundvallaratriði í efnahagsmálum sem þarf að fjalla nánar um.