Útboð opinberra rekstrarverkefna
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Frsm. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Þetta er eitt af fyrstu málum þingsins og er á þskj. 63. Þingskjalið með þessari till. kom því nokkuð snemma til fjvn. sem óskaði eftir því að fá umsögn nokkurra aðila í ríkiskerfinu, framkvæmdarvaldinu, sem málið varðar.
    Hins vegar ber svo við að horfa, virðulegur forseti, að fjvn. hefur ekki borist ein einasta umsögn frá þeim aðilum sem hún óskaði eftir að fjölluðu um þetta mál. Er það e.t.v. til nokkurs merkis um það að framkvæmdarvaldinu þykir stundum hlýða að vera ekki allt of skjótt í svörum við svo einföldum spurningum eins og fjvn. beindi til þessara tilteknu aðila framkvæmdarvaldsins, þ.e. að gefa umsögn sína um þessa tillögu. Þetta er í annað sinn sem þessi tillaga er flutt óbreytt á Alþingi þannig að Alþingi hefur haft tvö ár til þess að skoða málið og fjalla um það en í hvorugt skiptið hefur fengist svar við þeirri einföldu spurningu hvað þær stofnanir, sem um svona mál fjalla, hafa um þetta að segja.
    Okkur í fjvn. finnst hins vegar ekki eðlilegt að bíða með afgreiðslu á málinu, sem í sjálfu sér er mjög einfalt í eðli sínu, jafnvel þótt svo dráttur hafi orðið á því að umbeðnar umsagnir kæmust til skila. Niðurstaða fjvn. er sem sagt sú að rétt sé að samþykkja tillöguna með nokkrum breytingum og er brtt. flutt á þskj. 1214. Þar er lagt til að tillgr. verði breytt og hún orðist svo sem hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. í samráði við aðra ráðherra að láta kanna tilhögun á útboðum opinberra rekstrarverkefna sem hér segir:
    1. Á hvaða sviðum og í hve miklum mæli slíkum útboðum hafi verið beitt hjá ríkinu og stofnunum þess á næstliðnum áratug.
    2. Hvaða reynsla hefur fengist af slíkum útboðum, m.a. með tilliti til kostnaðar miðað við sambærileg verkefni sem unnin hafa verið án útboðs.
    3. Á hvaða sviðum ríkisrekstrar rétt þyki og hagkvæmt að efna til slíkra útboða og hvaða sjónarmiða skuli gæta við val slíkra útboðsverkefna.
    Niðurstöður könnunarinnar skulu lagðar sem skýrsla fyrir Alþingi.``
    Sú eina breyting sem raunverulega hefur verið gerð frá þeirri tillögu sem upphaflega var flutt af flm. er sú að setja inn í tillgr., sem óskað er samþykkis Alþingis á, að fjmrh. og önnur ráðuneyti, eftir því sem við á, skuli veita Alþingi þá umsögn og svara þeim atriðum í sinni umsögn sem eðlilegast hefði verið að kæmi fram við fjvn. annað hvort þeirra ára sem tillagan var þar til umfjöllunar. Hér er því í rauninni lagt til að hin upphaflega tillaga verði samþykkt efnislega að mestu óbreytt með þeirri viðbót að Alþingi samþykki að fela þessum tilteknu ráðuneytum að gefa umsögn um reynsluna og framkvæmd þessara mála undanfarin ár sem með eðlilegum hætti hefði átt að berast í umsögnum þessara aðila til fjvn. svo sem beðið var um en ekki fékkst svar við.