Dvergkafbátur
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Hér er tekin til umræðu till. til þál. um könnun á kostnaði við kaup og rekstur dvergkafbáts. Flm. auk mín er hv. 5. þm. Vesturl., en till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna kostnað við kaup og rekstur dvergkafbáts.``
    Í greinargerð segir svo:
    ,,Á síðasta sumri var fenginn hingað til lands dvergkafbátur til rannsókna við Kolbeinsey. Árangur þessa leiðangurs bendir til að vísindalegur og fjárhagslegur ávinningur mundi verða af rekstri dvergkafbáts. Það hefur víða færst í vöxt að slíkir bátar séu notaðir til rannsókna neðansjávar og með góðum árangri. Þjóð sem byggir afkomu sína að stórum hluta á öflun sjávarfangs hlýtur að leggja vaxandi áherslu á rannsóknir til að auka sem mest afrakstur þess á komandi árum. Sú bylting sem rannsóknir með dvergkafbát mundu þýða er augljós, en nú þegar hafa verið gerðar merkar rannsóknir neðansjávar á hafsvæðum víða um heim sem ekki hefði verið unnt að framkvæma með öðrum hætti. Það má ekki gleyma hversu mikilvægt er að fylgjast með mengun og huga að mengunarhættu neðansjávar, en aðeins með varðveislu lífríkis sjávar er hægt að tryggja eðlilegan viðgang náttúrunnar í hafinu umhverfis landið. Einnig er ljóst að ný og óþekkt fyrirbæri í hafinu geta leitt til framfara og nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar. Og enn á ný má minna á leiðangurinn til Kolbeinseyjar þar sem áður óþekktar lífverur fundust sem ef til vill geta orðið grundvöllur nýs iðnaðar hér á landi.``
    Hæstv. forseti. Í rauninni mætti spyrja hvort ekki væri grundvöllur fyrir öflugum neðansjávarrannsóknum sem gætu orðið undirstaða nýrrar sóknar í atvinnulífinu. Í dag er til hér á landi lítill fjarstýrður dvergkafbátur sem hefur verið notaður til töku á neðansjávarmyndum og er jafnframt hægt að útbúa hann tækjum til sýnatöku. Það hefur þegar sýnt sig að sá kafbátur hefur verið mjög gagnlegur og það hefur komið ýmislegt fram við notkun hans. En það eru til ýmsar og miklu fullkomnari gerðir sem hægt er að manna til skoða lífríki hafsbotnsins með og þau mörgu svið sem við eigum eftir að rannsaka á ókomnum árum.
    Ég hef undir höndum bréf, dags. 30. des. 1988, sem dr. Sigurður Jónsson skrifaði einum af áhugamönnum um kvikmyndagerð sælífs við Íslands og segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Köfun og kvikmyndun til rannsókna á lífríki hafsins var í fyrsta skipti beitt við Ísland í sambandi við sjávarlífsrannsóknir okkar Aðalsteins Sigurðssonar við Surtsey fyrir rúmum 20 árum. Var ætlan okkar að kvikmynda hafsbotninn reglulega í kringum eyjuna til að fá samhangandi mynd af uppbyggingu og þróun samfélags dýra og plantna. Þrátt fyrir erfiða köfunaraðstöðu fyrir opnu hafi og tiltölulega frumstæðan útbúnað tókst að ná kvikmynd á 8 mm filmu sem sýndi helstu botnsamfélög sem þá voru að myndast. Þessi mynd var sýnd í Náttúrufræðifélaginu

og vakti mikla athygli viðstaddra. Björgvin Egill Arngrímsson, framkvæmdastjóri Mar-Tel, tók þátt í þessum leiðangri og er mér ljúft að minnast á áhugasemi hans, alúð og næmleik í öllu sem laut að þessari frumtilraun okkar. Þess vegna er það gleðifregn að nú séu uppi hugmyndir um skipulagða kvikmyndun á sjávarlífinu við Ísland á vegum Mar-Tel.
    Íslendingar sækja fast sjóinn en flestum er hið litríka líf sædjúpanna huldar lendur. Kvikmyndun hinna margslungnu þátta í lífríki sjávar við Ísland, þar sem fram kæmi list, tækni og vísindi, væri eflaust öllum mikill fengur. Slíkar myndir mundu auk vísindalegs og uppeldislegs gildis vekja virðingu fólksins fyrir ósnortinni náttúru og verndun hennar, en slíks er nú mikil þörf. Hugmynd að kvikmyndagerð af lífríki hafsins við Ísland er góð hugmynd og eindregið mælt með því að hún nái sem fyrst fram að ganga.``
    Þetta segir einn af þeim mönnum sem hefur mesta þekkingu á þessu sviði og starfar nú í París við sjávarlíffræðisafnið þar.
    Það er nokkuð ljóst að til eru töluvert margar gerðir af dvergkafbátum sem gætu hentað okkur til rannsókna og skoðunar á lífríki sjávar og hafsbotninum og sem væri mjög þarft að gera. Ég tel að ef Íslendingar fengju slíkan kafbát væri það framfaraspor og mundi þýða að í framtíðinni hefðum við miklu gleggri upplýsingar um þá þætti sem við þurfum að fá upplýsingar um. Það er svo að þessari tækni um köfun neðansjávar hefur fleygt fram undanfarin ár og nú er hægt að kafa allt að því á 6000 m dýpi með sumum þeirra tegunda dvergkafbáta sem nú eru framleiddar. Eitt af forustulöndum í þessari tækni eru grannar okkar Finnar, en þeir hafa hannað og smíðað djúpsjávarbáta til rannsókna sem geta sinnt verkefnum á allt að 6000 m dýpi.
    Það er ljóst að mannaðir leiðangrar í undirdjúpin til að gera athuganir, taka sýni og framkvæma margs konar rannsóknir og mælingar eru mjög til frambúðar fyrir okkur Íslendinga og við hljótum að huga að þessum málum mjög náið. En það er svo að það er mismikill kostnaður við að kaupa slíka báta. Ég hygg þó að það sé ekki það mikill kostnaður að við munum ekki ráða við hann.
Hins vegar er töluverður kostnaður við rekstur og viðhald. Það er alveg ljóst að sú tækni, sem er í örri þróun, gefur okkur möguleika á að nýta okkur hana og er sjálfsagt að við fáum könnun á því hvort það er hagkvæmt fyrir okkur og hvort við munum ráða við að reka slíka báta. En það eru mjög miklar framfarir á þessu sviði og við getum verið nokkuð vissir um að þeir bátar sem nú eru framleiddir eru mjög öruggir miðað við það sem áður var.
    Það eru ýmiss konar rannsóknir sem þegar hafa farið fram erlendis með þessum bátum og ég vil ítreka að það er mjög nauðsynlegt fyrir þjóð, sem að svo stórum hluta byggir á öflun sjávarfangs, að rannsaka hafsvæðin, a.m.k. grunnsvæðin, mun betur en við höfum áður gert. Einnig má minna á það að við þurfum að gera mjög ítarlega landfræðilega athugun á

landgrunninu og hafdjúpinu hér í kring. Þetta er allt framkvæmanlegt í dag og það er því kominn tími til að við leggjum í það að skoða þessa hluti og vindum okkur í að sjá hvort við getum ekki hafið umfangsmiklar rannsóknir á þessu sviði.
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að óska eftir því að þessari þál. verði vísað til atvmn. og síðari umræðu.