Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um könnun á aðstöðu einstaklinga með glúten-óþol og er till. svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna aðstöðu einstaklinga með glúten-óþol. Skal sérstaklega huga að aukakostnaði þeirra við matargerð og fæðiskostnað. Þá verði kannað með hvaða hætti einstaklingar með glúten-óþol njóti aðstoðar hins opinbera annars staðar á Norðurlöndum, svo sem með greiðslum frá almannatryggingum og hvaða skattalega meðferð þeir fá. Einnig verði kannað hvort gera megi glúten-óþol að skráningarskyldum sjúkdómi hér á landi.``
    Hæstv. forseti. Glúten-óþol er sjúkdómur sem greinst hefur á síðustu árum í talsvert auknum mæli hér á landi þó svo að greindir einstaklingar séu innan við 70 eftir því sem best er vitað. Það sem hins vegar hefur gerst er að læknar eru farnir að gefa þessum sjúkdómi meiri gaum og leita að honum sem möguleika. E.t.v. er mönnum ókunnugt hvað glúten-óþol er, en það er ofnæmi fyrir öllu hveiti, þar með talið heilhveiti, rúgmjöli, höfrum og byggi. Sú staðreynd að fyrrgreindar fæðutegundir eru mjög algengar í mat veldur því að verulegum erfiðleikum er háð fyrir einstaklinga að útbúa mat með efnum sem komið geta í stað hveitis, rúgmjöls, byggs og hafra.
    Það er staðreynd að sjúklingar með þetta óþol mega alls ekki neyta brots úr milligrammi af efnunum án þess að þau valdi verulegum skaða á meltingarfærunum. Þó að vandamálið sé lítið í heildinni veldur það einstaklingum með sjúkdóminn verulegum erfiðleikum. Mér er kunnugt um að í Skandinavíu hafa opinberir aðilar átt eitthvert samstarf við félög þessa fólks en mér er ókunnugt um hversu mikið. Það er ljóst að lyf þessa fólks er fæða án hveitis, hafra, rúgmjöls og byggs. Ef þetta fólk þyrfti á lyfjum að halda úr lyfjabúðum þætti sjáfsagt að hið opinbera tæki þátt í kostnaði þess. Mér er kunnugt um að nokkrir einstaklingar njóti greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins vegna þessa, en það kallast þá ekki styrkur vegna glúten-óþols heldur umönnunarstyrkur eða því um líkt. Víst er að þessir einstaklingar þurfa meira að hafa fyrir matargerð en heilbrigðir einstaklingar og verða því fyrir verulegum kostnaði. Það er nauðsynlegt að heilbrigðisyfirvöld geri sér glögga grein fyrir vandamálinu, hversu stórt það er, hversu margir einstaklingar bera sjúkdóminn, hver kostnaðurinn er honum tengdur og hver staða er annars staðar á Norðurlöndunum.
    Ég legg því þessa þáltill. fram til umræðu og afgreiðslu og óska eftir að henni verði vísað til félmn. Sþ. og síðari umræðu.