Heilsufarsbók
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um heilsufarsbók á þskj. 832. Meðflutningsmenn mínir eru Danfríður Skarphéðinsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir hv. þingkonur Kvennalistans.
    Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela heilbrmrh. í samráði við landlækni að láta hanna heilsufarsbók sem fylgi hverjum einstaklingi frá vöggu til grafar.
    Í heilsufarsbókina skulu skráðar jafnóðum allar þær upplýsingar um heilsufar einstaklingsins sem máli skipta, svo sem sjúkdómar, læknismeðferð og lyfjanotkun.``
    Það er nú svo að skráning og varðveisla ýmissa mikilvægra upplýsinga um heilsufar einstaklinga hefur farið vaxandi á undanförnum árum og áratugum. Þessar upplýsingar er langoftast að finna hjá heimilis- eða heilsugæslulækni hvers einstaklings en einnig hjá sjúkrahúsum eða öðrum rannsókna- eða meðferðarstofnunum. Þrátt fyrir aukna tækni á tölvuöld er þó skipulag á þessum upplýsingum með ýmsum hætti og oft þarf víða að leita fanga til þess að fá heildarupplýsingar um heilsufar fólks. --- Þá á ég fyrst og fremst við að einstaklingurinn sjálfur hefur oft mikið fyrir því og heldur sjaldnast skipulegt bókhald um það. --- Allt of sjaldan hefur sjúklingurinn sjálfur yfirsýn yfir eigið heilsufar, tímasetningu og niðurstöður rannsókna og læknismeðferðar sem hann hefur fengið. Sem dæmi má nefna bólusetningar, lyfjagjöf, skurðaðgerðir, og þá hvað var numið brott, hvað var gert í hinum ýmsu aðgerðum o.s.frv. Þetta viðheldur vankunnáttu almennings og er ekki í samræmi við stefnu heilbrigðisyfirvalda sem hvetur til aukinna forvarna og frumkvæðis einstaklinga til að taka ábyrgð á eigin heilsugæslu. Til þess að svo geti orðið þarf aukna og skipulega heilbrigðisfræðslu, bæði í skólum og meðal almennings. Fræðslan ein sér nægir þó ekki til að tryggja það að einstaklingar taki ábyrgð á eigin heilsuvernd. Þeim verður jafnframt að vera það kleift efnahagslega og félagslega að velja sér lifnaðarhætti í samræmi við þá heilbrigðisfræðslu sem stunduð er. Það þarf einnig að auðvelda einstaklingnum aðgang að upplýsingum í þessum efnum og stjórnvöld hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Þeim ber t.d. að samstilla ýmsa þætti stjórnsýslunnar þannig að þeir verði samvirkir til að ná markmiðum heilbrigðisfræðslu og heilsugæslu. Einn þáttur þess að auka hlutdeild almennings í eigin heilsuvernd er einmitt að gefa fólki kost á því að skrá í eina bók allt það sem viðkemur heilsufari þess. Upplýsingarnar eru þannig í fórum einstaklingsins eða umsjáraðila hans allt frá vöggu til grafar. Þar getur einstaklingurinn fylgst með eigin heilsufari haft eftirlit með því og tekið ábyrgð á því á virkari hátt.
    Heilsufarsbækur hafa verið notaðar meðal ýmissa annarra þjóða um nokkurt skeið með góðum árangri. Hef ég sérstaklega kynnt mér slíka heilsufarsbók sem notuð er í Frakklandi. Ég ætlaði reyndar að hafa hana

með mér hér í stólinn til þess að sýna hv. þm. en vegna þess hve tíminn var naumur þá tókst mér ekki að taka hana með mér. Ég væri hins vegar mjög fús til að veita upplýsingar ef menn hefðu áhuga. Slíkt skipulag, eins og ég hef þegar vitnað til, eykur ábyrgð og vitneskju einstaklingsins um eigið heilbrigði og heilsufar og skírskotar jafnframt og hvetur til þátttöku. Slík heilsufarsbók er því í fyllsta samræmi við yfirlýst markmið og stefnu heilbrigðisyfirvalda. Mér og okkur flm. finnst það vera á þeirra ábyrgð að hafa frumkvæði að því að gefa úr slíka bók sem einstaklingum yrði síðan falin til umsjár og mundi örugglega hvetja til meiri virkni og þátttöku almennings um eigið heilbrigði.
    Ég legg til að þáltill. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn. sameinaðs þings.