Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Fyrir nokkru var lögð fram á Alþingi skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1988. Samkvæmt ákvörðun forseta þingsins og með tilvísun til 12. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er skýrslan nú tekin til umræðu í sameinuðu þingi. Rétt þótti að einn af okkur þingforsetum mælti fyrir skýrslunni.
    Til embættis umboðsmanns Alþingis var stofnað með lögum nr. 13/1987 er tóku gildu 1. jan. 1988 og á fundi í Sþ. hinn 17. des. 1987 var dr. Gaukur Jörundsson kjörinn í starf umboðsmanns Alþingis til næstu fjögurra ára. Skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1987 skal umboðsmaður árlega gefa Alþingi skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Skal skýrslan prentuð og hún birt opinberlega.
    Skýrsla sú er hér liggur fyrir er fyrsta skýrsla umboðsmanns sem berst Alþingi í samræmi við nefnt lagaákvæði. Í bréfi umboðsmanns, er fylgdi skýrslunni og prentað er fremst í henni, er lýst efni skýrslunnar en henni er skipt í fimm kafla. Fjallar fyrsti kaflinn um störf umboðsmanns og rekstur skrifstofu hans á árinu 1988. Ég vek sérstaka athygli á öðrum kafla skýrslunnar en þar er að finna lýsingu á aðdraganda að stofnun embættis umboðsmanns Alþingis og starfssviði, hlutverki og starfsháttum umboðsmanns. Er þarna að finna fróðlegar upplýsingar um embættið og skýringar á þeim lagareglum sem um það gilda. Ber að þakka þá áherslu sem umboðsmaður hefur lagt á að hafa tiltækar slíkar skýringar til að auðvelda almenningi að átta sig á hlutverki og starfsháttum embættis umboðsmanns Alþingis.
    Í næstu tveimur köflum er gerð grein fyrir þeim málum sem umboðsmaður fjallaði um á árinu 1988. Annars vegar er þar um að ræða tölfræðilegar upplýsingar og hins vegar eru birtar niðurstöður og álit í einstökum málum. Aðeins er þó gerð grein fyrir þeim málum sem umboðsmaður telur að hafi almenna þýðingu vegna starfs umboðsmanns og starfshátta í stjórnsýslunni.
    Ársskýrslu umboðsmanns er einmitt ætlað það hlutverk að veita alþingismönnum, þeim er starfa í stjórnsýslunni og almenningi upplýsingar um þau mál er umboðsmaður fjallar um. Slík upplýsingagjöf er í raun hluti af því aðhaldi sem starfi umboðsmanns Alþingis er ætlað að vera gagnvart stjórnsýslunni og gefur okkur alþingismönnum kost á að íhuga hvernig til hefur tekist við lagasetningu og eftir atvikum að gera tillögur um breytingar.
    Eins og umboðsmaður bendir á í bréfi sínu hafa ársskýrslur umboðsmanna þjóðþinga annars staðar á Norðurlöndunum áunnið sér sess sem upplýsingarit um réttarframkvæmd varðandi stjórnsýsluhætti. Með störfum sínum hafa umboðsmenn þessara þjóðþinga haft veruleg áhrif til góðs á starfshætti í stjórnsýslu þessara landa og ég vænti þess að sú verði einnig raunin hér á landi.
    Í skýrslunni kemur fram að á árinu 1988 voru skráð hjá umboðsmanni 70 mál og af þeim höfðu 35 verið afgreidd við síðustu áramót. Aðeins er þarna um

að ræða erindi sem bárust skriflega, en auk þess bárust skrifstofu umboðsmanns fjölmargar fyrirspurnir sem ýmist leiddu til þess að formleg kvörtun var borin fram af viðkomandi eða veittar voru leiðbeiningar um hvernig fyrirspyrjandi ætti að leita úrlausnar sinna mála. Þá ber að hafa í huga að skrifstofa umboðsmanns var ekki opnuð fyrr en í júlímánuði 1988 þannig að árið í fyrra var varla marktækt varðandi málafjölda hjá embættinu. Má til samanburðar nefna að samkvæmt upplýsingum umboðsmanns Alþingis hafa honum borist um 60 mál sem af er þessu ári.
    Viðfangsefni þeirra mála sem berast til umboðsmanns eru af margvíslegum toga eins og fram kemur í yfirliti á bls. 18 í skýrslunni. En auk þess að taka frá kvörtunum frá almenningi hefur umboðsmaður heimild til að taka upp mál af eigin frumkvæði.
    Á árinu 1988 fjallaði umboðsmaður um þrjú mál að eigin frumkvæði og fjölluðu þau um breytingar á lagareglum um gjafsókn, tiltekna þætti í starfsemi hlutafélagaskrár og mannréttindaákvæði í íslenskum lögum. Hefur ábending umboðsmanns Alþingis um ófullkomin ákvæði til verndar mannréttindum í íslenskum lögum orðið mönnum áminning í þessu efni og er vonandi að þess verði ekki langt að bíða að breytingar verði gerðar á íslenskum lögum til að bæta úr þessum annmörkum. Sérstaklega er ástæða til að vona að ekki líði á löngu áður en Alþingi fær til umfjöllunar tillögur að breytingum á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Samkvæmt lögum er það hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem greinir í lögum um starf hans og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.
    Eins og bent er á í skýrslunni er starf umboðsmanns Alþingis enn í mótun og umboðsmaður telur engan veginn fullreynt hvernig við því verði brugðist af stjórnvöldum. Eiginlegt vald umboðsmanns Alþingis er fyrst og fremst fólgið í því að hann getur krafið stjórnvöld um upplýsingar og skýringar á ákvörðunum þeirra og framkomu. Að lögum eru hvorki stjórnvöld né sá er kvörtun hefur borið fram bundinn af áliti og niðurstöðu umboðsmanns. Umboðsmaður minnir hins vegar á það í skýrslu sinni að það kom skýrt fram í grg. með frv. til laga nr.
13/1987 að þau lög séu á þeirri forsendu reist að stjórnvöld hljóti yfirleitt að fara eftir áliti umboðsmanns. Víkur umboðsmaður í því sambandi sérstaklega að þeirri ákvörðun samgrn. að hafna niðurstöðu hans í þremur málum varðandi nauðsyn lagaheimildar til að mæla fyrir með reglugerð um sviptingu leyfis til aksturs leigubifreiða vegna hámarksaldurs leigubifreiðastjóra.
    Þá vekur umboðsmaður athygli á því að í nokkrum tilvikum hefur dregist úr hófi að ráðuneyti hafi orðið við tilmælum hans um greinargerð og upplýsingar. Mun umboðsmaður af því tilefni hafa ritað forsrh. bréf og óskað eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið fylgi ekki einhverjum starfsreglum um svör við

erindum, sérstaklega þegar afgreiðsla dregst lengur en ástæða er til að vænta.
    Umboðsmaður lýkur þeim hluta skýrslu sinnar er fjallar um störf hans á árinu 1988 með þeim orðum að hann telji óhjákvæmilegt að vekja athygli á þeim atriðum sem nefnd voru hér að framan. Í skýrslu sinni til Alþingis segir dr. Gaukur Jörundsson orðrétt:
    ,,Forsenda laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er sú að umboðsmaður sé virtur svars og að tillit sé tekið til álita hans. Ef sú forsenda bregst tel ég að það hljóti að koma í hlut Alþingis að taka á ný afstöðu til þess með hvaða hætti unnið skuli að endurbótum í stjórnsýslu hér á landi.``
    Í tilefni af þessum orðum er ástæða til að minna á ábyrgð Alþingis á starfi umboðsmanns. Alþingi hefur með lögum ákveðið að koma þessu embætti á fót og fengið því það hlutverk að hafa í umboði þess eftirlit með stjórnsýslunni. Umboðsmaður Alþingis er kjörinn af Alþingi og þingið hefur því valið til starfsins mann sem það treystir til að fara með þetta eftirlitshlutverk. Er þarna fylgt fyrirmynd ýmissa erlendra ríkja sem hafa talið eðlilegt að borgararnir ættu kost á að leita með þessum hætti til óháðs aðila vegna skipta sinna við stjórnsýsluna. Það er því mikilvægt að Alþingi leggi sitt af mörkum til að treysta tiltrú almennings og stjórnvalda á embætti umboðsmanns Alþingis. Liður í því er sú umræða sem væntanlega verður árviss á Alþingi um skýrslu umboðsmanns. Þar gefst einmitt tækifæri fyrir þingmenn til að ræða þær athugasemdir sem umboðsmaður hefur gert við störf og starfshætti í stjórnsýslunni og þá einnig við framkvæmd þeirra laga sem stjórnsýslan starfar eftir.
    Ég vil að lokum nota þetta tækifæri og þakka umboðsmanni Alþingis fyrir það brautryðjandastarf sem hann hefur þegar unnið með störfum sínum þennan stutta tíma og ég vonast til þess að árangur þess verði sem æskilegastur fyrir okkur öll.