Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Kjartan Jóhannsson:
    Frú forseti. Ég tel að það sé nauðsynlegt að sú hefð skapist að skýrsla umboðsmanns Alþingis sé árlega tekin til umræðu á Alþingi. Þetta er fyrsta skýrsla umboðsmanns Alþingis og hér er því markaður sá farvegur að skýrslan skuli vera umræðuefni í Sþ.
    Mér sýnist að það sé ástæða til þess að láta í ljós ánægju með þann árangur sem þegar hefur komið í ljós af starfi umboðsmanns Alþingis. Ég held að það sé augljóst að það hafi verið stigið mjög gott skref með stofnun þessa embættis og að jákvæðan árangur af því megi þegar merkja. En það er jafnsjálfsagt að nota þennan vettvang og þetta tækifæri, og tala ég þá sem einn af yfirmönnum umboðsmanns Alþingis sem forseti Nd, að héðan heyrist sú rödd að þeim eindregnu tilmælum sé beint til stjórnarstofnana um að þau veiti greiðlegar svör við þeim fyrirspurnum og tilmælum sem koma frá umboðsmanni Alþingis. Það er auðvitað að gefnu tilefni sem ég mæli þessi orð vegna þess að svör hafa ekki borist nægilega greiðlega, eins og kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis og kom fram í ræðu hv. forseta Ed.
    Það verður þá líka að heyrast af þessum vettvangi að það sé hvatt til þess að ráðuneyti og aðrar stjórnarstofnanir taki fullt tillit til þeirra álita sem frá umboðsmanni Alþingis koma. Hér hefur orðið á einn misbrestur sem nauðsynlegt er að nefna og ég læt í ljós sérstök vonbrigði með, nefnilega viðbrögð hæstv. samgrh. sem hafði álit umboðsmanns Alþingis að engu. Ég tel að það sé mjög slæmt þegar slíkt gerist og það sé ástæða til að láta í ljós vonbrigði, eins og ég hef gert, og hvetja ráðuneyti kannski enn frekar en aðrar stofnanir í þjóðfélaginu til þess að fara eftir þeim álitsgerðum sem frá umboðsmanni Alþingis koma. Ég minni á að það er hlutverk Alþingis að styðja við bakið á þessari stofnun og hér er vettvangurinn til þess að vekja almenning til umhugsunar um þá úrskurði og þau álit sem frá umboðsmanninum koma.
    Virðulegi forseti. Þetta taldi ég nauðsynlegt að yrði sagt hér á þessum vettvangi og þau orð sem ég hef sagt eru ekki síst sögð með tilliti til þess að forsetar eru yfirmenn umboðsmanns Alþingis og ég vil að þau verði skoðuð í því samhengi.