Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1988. Sú skýrsla er býsna vel fram sett og unnin og til mikils sóma fyrir það embætti. Þar er gripið á mörgum þáttum, ekki aðeins þeirri vinnu sem umboðsmaður hefur lagt fram heldur einnig stöðu hans lagalega og ýmsum upplýsingum eins og t.d. um þörf á lögfestingu þjóðréttarsamninga.
    Það er ekki nokkur vafi á því að stofnun umboðsmanns Alþingis er á margan hátt þörf stofnun. Þar gefst litla manninum kostur á því að bera sig upp við umboðsmann Alþingis, sem er óháður, og leita eftir því hvort rétt hafi verið farið með mál hans í kerfinu. Umboðsmaðurinn leiðbeinir jafnframt hverjum og einum um það hvert, til hvers og hvernig hann á að standa að sínum málum. Það er því mjög mikilsvert að við stöndum þétt á bak við umboðsmann okkar þannig að hann geti unnið fljótt og vel fyrir borgarana. Það kemur hins vegar fram í hans skýrslu, eins og hv. 10. þm. Reykn. kom hér inn á, á bls. 6 að það hefur dregist nokkuð að ýmis ráðuneyti hafi svarað honum. Það er ljóst að við verðum að ýta á eftir því að umboðsmaður geti starfað þannig að hann fái svör og hann geti leyst þau ágreiningsmál sem hann telur að eigi að leysa. Jafnframt er í þessari skýrslu getið um nokkur mál sem hann hefur tekið á og eru mjög athyglisverð. Ég ítreka að við verðum að huga að okkar málum hér á þinginu. Í þessari skýrslu er t.d. einmitt bent á meinbugi í lögum o.fl.
    Ég hefði kosið að við hefðum getað tekið öllu meiri tíma í þessa umræðu og á öðrum tíma ársins, eins og hér hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum um þetta efni, því þetta er töluvert stórt mál.
    Ég vil líka taka undir það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um mannréttindamál. Hann minnti á Evrópuráðið og þau mannréttindaverðlaun Evrópuráðsins sem Lech Walesa var sæmdur á 40 ára afmæli ráðsins og þann fund sem var haldinn með honum og þingmönnum Evrópuráðsins. Ég hjó eftir því að á þeim fundi lagði Lech Walesa mikla áherslu á einstaklingsfrelsið og rétt einstaklinganna. Við mættum stundum hafa það meira í huga hér á Íslandi að einstaklingsfrelsið er mikils virði og við ættum að standa svolítið betur að okkar löggjöf á mörgum sviðum þannig að við virtum einstaklingsfrelsið meira en oft er gert. Ég held að það væri þörf áminning að fá slíkar athugasemdir eins og Lech Walesa gerði um einstaklingsfrelsið því það er grundvöllur okkar stjórnskipulags.
    Ég vil svo víkja að því sem ég gat um fyrr, þ.e. lögfestingu á þjóðréttarsamningum. Við höfum á undanförnum árum gerst aðilar að allmörgum þjóðréttarsamningum, skrifað undir þá en ekki lögfest. Við erum aðilar að töluvert mörgum alþjóðlegum samtökum þar sem þjóðréttarsamningar eru til umfjöllunar. Þetta er mjög mikilsverður hluti okkar laga í dag og við verðum að huga sérstaklega að þessum samningum sem hafa auðvitað mikið gildi fyrir okkur eftir að við höfum lögfest þá. Það er eins víst að við hljótum að huga sérstaklega að

Mannréttindasáttmálanum, sem hv. 3. þm. Reykv. minntist hér á áðan, og hljótum að leggja ofurkapp á að lögfesta hann og gerast fullgildir aðilar að þeim samningi.
    Það er svo að þeir mörgu þjóðréttarsamningar sem við höfum gerst aðilar að en ekki lögfest hljóta að koma til umræðu og staðfestingar. Það er svo að í mörgum alþjóðastofnunum er unnið að ýmiss konar samningum sem við hljótum að taka afstöðu til og athuga. Það er orðin miklu meiri ástæða til þess að við hugum alveg sérstaklega að þessum alþjóðlegu samningum og væri full ástæða til þess að Alþingi Íslendinga hugi að stöðu Íslands og réttarstöðu okkar gagnvart öllum þessum samningum sem við höfum gerst aðilar að og í hvaða veru við þurfum að beina okkar löggjöf í því sambandi. Við höfum legið á eftir í þessu á mörgum sviðum og það er því mjög brýnt að við tökum okkur til og gerum okkur ljóst hvar við erum aðilar að þjóðréttarsamningum og lögfestum þá og breytum okkar lögum í því samræmi.
    Ég vil einnig sérstaklega undirstrika það sem kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis þar sem hann bendir á með réttu að það eru mjög ófullkomin ákvæði til verndar mannréttindum í íslenskum lögum. Það er því brýn ástæða til þess að við setjum miklu fullkomnari ákvæði til verndar mannréttindum í íslensk lög sem tryggi einstaklingsfrelsið og rétt einstaklinganna á hinum ýmsu sviðum. Þetta sýnir sig þar sem fram kemur í þessari skýrslu að ýmis ráðuneyti hafa lítt svarað umboðsmanni og dregið það úr hömlu. Framkvæmdarvaldið telur sig bæði hafið yfir lög og rétt og virðist oft á tíðum halda að það sé hið eina vald í þjóðfélaginu. Þess vegna er það mikilvægt að við stöndum mjög þétt á bak við umboðsmanninn og setjum þau ákvæði í lög um mannréttindi þannig að réttur einstaklinganna sé ekki fyrir borð borinn.
    Í þessari skýrslu er farið inn á mjög mörg atriði sem væri þörf á að ræða hér. Ég ætla ekki að ræða þau sérstaklega því ég held að til þess þurfi alllangan tíma. Það kemur fram í þessari skýrslu að umboðsmaður hefur fjallað um samtals 70 mál og það sýnir e.t.v. hve margir telja sig misrétti beitta. Það er því full ástæða til þess að þetta haldi áfram með þeim hætti sem hér er og ég vil sérstaklega þakka umboðsmanni fyrir allítarlega, vel gerða og
yfirgripsmikla skýrslu þó í stuttu máli sé því þessi skýrsla er alveg til fyrirmyndar og mættum við á margan hátt læra af því. Ég vil þakka umboðsmanni alveg sérstaklega fyrir það hversu vel hann hefur komið þessum málum á framfæri við okkur á Alþingi.