Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram. Ég get tekið undir það sem komið hefur fram í máli manna að æskilegt væri að menn hefðu þar getað undirbúið sig betur og um þetta væri fjallað á breiðari grundvelli en orðið hefur við þessar aðstæður. Hins vegar vil benda á að það er erfitt að ásaka einhvern einstakan fyrir það að svo hefur orðið nú og allra síst held ég að þar sé við umboðsmann að sakast. Hann skilaði þessari skýrslu til forseta áreiðanlega nokkru fyrr en margar stofnanir gera. Skýrslan var að sjálfsögðu aðeins í handritsformi og síðan þurfti að prenta hana. Strax og því var lokið var skýrslunni dreift á Alþingi og það eru nákvæmlega þrjár vikur síðan nú í dag. Það er því vafasamt að segja að þetta sé mjög skammur fyrirvari að því leyti fyrir þessari umræðu eða frá því að skýrslunni var dreift. E.t.v. hefði verið réttara að tilkynna það með fyrirvara að hún yrði tekin á dagskrá í dag til þess að menn væru betur undirbúnir fyrir umræðuna og sjálfsagt að það verði þá tekið til athugunar framvegis. Ég held að jafnvel þó að umræðan hafi ekki verið lengri en þetta hafi verið ávinningur af henni, bæði þeim ábendingum sem hér hafa komið fram til alþingismanna og annarra.
    Eins og ég sagði í upphafi vænti ég þess að það verði árviss atburður að skýrslan verði rædd hér og það megi verða til styrktar því málefni sem hún fjallar um.