Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Kjartan Jóhannsson:
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur verið drepið á kemur það fram í þessari skýrslu að ákvæðin til verndar mannréttindum séu ófullkomin í íslenskum lögum og stjórnarskrá okkar að því leytinu gölluð og úrelt. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að áratugum saman hafa menn sett niður hverja nefndina á fætur annarri til þess að endurskoða stjórnarskrána með nákvæmlega engum árangri. Það eitt hefur verið átt við stjórnarskrána, held ég að óhætt sé að segja, að breyta kosningalögum svo sem eins og einu sinni á áratug.
    Það er starfandi nefnd þingmanna, einu sinni enn, sem búin er að vera starfandi í allmörg ár á vegum þingsins og tilnefnd á vegum þingflokkanna, til þess að vinna að þessum málum en það sér ekkert frekar fyrir endann á því verki. Ég held að það væri ástæða til að reyna að koma þessari vinnu að endurskoðun stjórnarskrárinnar í nýjan farveg og stuðla þannig að því að frekari skriður kæmist á endurskoðunina. Þá á ég ekki síst við þau ákvæði sem lúta að mannréttindamálum og sem gerð er grein fyrir hversu ófullkomin séu í þeirri skýrslu sem hér er til umfjöllunar og aðrir hv. ræðumenn hafa á minnst. Ætli það væri ekki ráð að skipa sérstaka nefnd sérfróðra aðila til að fjalla sérstaklega um þá þætti stjórnarskrárinnar sem varða mannréttindi? Kannski ætti ég að orða það þannig að fjalla um þá þætti stjórnarskárinnar sem ekki beinlínis lúta að kosningalögum.
    Ég vil nota þetta tækifæri til þess að gera það að tillögu minni að slík nefnd verði skipuð, nefnd sérfróðra manna, sem væri ætlað að undirbúa tillögur um breytingar á stjórnarskránni einkum að því er varðar mannréttindi og þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem ekki snúast um kosningalög og skyld málefni. Þetta ætti að vera nefnd sérfróðra aðila og verkefni nefndarinnar væri að leggja línur um þá valkosti sem fyrir hendi eru, vinna málið í hendur stjórnmálamanna til þess að greiða fyrir ákvarðanatöku.
    Ég geri þetta hér að tillögu minni og í rauninni beini ég máli mínu að öllum líkindum til hæstv. forsrh. sem ætti að hafa frumkvæði að slíkri nefndarskipan ef menn vildu fylgja þessari tillögu. Mín skoðun er sú að það hafi dregið svo úr hömlu að endurskoða stjórnarskrána, þær tilraunir sem hafi verið gerðar í þessa veru og eru í gangi hafi og verið svo óvirkar og seinvirkar að við það verði ekki unað og því sé nauðsynlegt að finna þessu nýjan farveg. Mín hugmynd er sú að með þessum hætti, þ.e. að skipa nefnd fáeinna sérfróðra aðila, mætti greiða mjög fyrir því að tekið yrði á þeim ákvæðum sem að er fundið í stjórnarskránni og lúta einkum að mannréttindum.