Viðskipti á hlutabréfamarkaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég fagna þessari tillögu til að örva viðskipti við hlutabréfamarkaðinn því að hér er um mjög þýðingarmikið atriði að ræða, sérstaklega svo að íslenskir stjórnmálamenn geti fylgst með því hvað þeir eru að gera. Ef það hefði verið meira um það að fyrirtæki hefðu viðskipti við hlutabréfamarkaði í fyrrahaust þegar þessum dæmalausu sköttum var skellt á fyrirtækin og framleiðsluna hefði nú eitthvað gerst á þeim markaði. Þeir hefðu sennilega aldrei reynt að fara að blóðmjólka kúna ef svona markaður hefði verið til.
    Kjarni málsins í dag er auðvitað hvernig sé hægt að snúa við. Það er hægt að auka eigið fé íslenskra fyrirtækja með aukinni þátttöku almenningshlutafélaga. Það verður náttúrlega ekki gert nema skilyrðin séu til þess og þau gerast í gegnum svona hlutabréfamarkað. Eins og tækniþróunin er orðin í dag þá er ekkert því til fyrirstöðu að einn hlutabréfamarkaður sé dreifður um allt land í gegnum bankaútibú. Það er mjög auðvelt að framkvæma það og það eru tæknilegir möguleikar í dag á að hafa einn hlutabréfamarkað sem nær um allt landið. Á þann hátt er hægt að laga íslenska hagkerfið meira að svipaðri hagstjórn og er í öðrum vestrænum ríkjum. Verðbólgu og vöxtum verður aldrei náð niður með öðrum hætti en viðurkenndum, vestrænum aðgerðum, þó að menn séu að reyna að galdra eitthvað hókus pókus og sýnast vera að reyna að gera það með öðrum hætti. En það er mjög þýðingarmikið að þessum hlutabréfamarkaði verið komið á sem fyrst til þess að auka megi eigið fé íslenskra fyrirtækja með aukinni þátttöku almennings.