Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir):
    Nú ætlar forseti að gera smáhlé á þessari þingskapaumræðu sem honum finnst vafamál hvort hægt sé að réttlæta sem umræðu um þingsköp og lesa hér nokkrar útbýtingar.
    Enn hafa þrír hv. þm. beðið um orðið um þingsköp og vill forseti beina því til hv. þm. að þeir reyni að hafa ekki langt mál ef þeir fara út fyrir ramma þess sem forseti a.m.k. telur vera umræðu um þingsköp og virði það. Þinghaldið í dag hefur gengið mjög vel og greiðlega gengið að koma málum áfram. Nú eru aðeins eftir tvö mál og að auki atkvæðagreiðsla um þrjú mál til að koma þeim til nefndar eða áfram. Það hefur verið orðað við forseta að ekki yrði þörf á kvöldfundi heldur mætti halda eitthvað áfram og sleppa síðan kvöldfundi þrátt fyrir það að skýrsla Byggðastofnunar verði tekin til umræðu. Þetta vil ég biðja hv. þm. að hafa í huga áður en þessi þingskapaumræða heldur áfram.