Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal halda mig við þingsköp því að það var ekki um þetta málefni sem ég ætlaði að ræða, en vil samt aðeins fá að segja nokkur orð um það.
    Ég skil að sjálfsögðu afstöðu sjálfstæðismanna mjög vel því það er afskaplega eðlilegt að stjórnarandstöðuflokkur sé ekki að stuðla að því að stjórnarflokkur fái sæti í hinum ýmsu stjórnum og nefndum. Þeirra afstaða er því fyllilega skiljanleg. Hins vegar kemur þetta mér ekkert á óvart. Þetta staðfestir aðeins það sem okkur grunaði alltaf og reyndar vissum. Það var bara spurning hvenær þeir kæmu upp á yfirborðið og það hefur gerst núna. En ég verð að segja að ekki er nú hátt verðið á verðmiðanum sem hangir aftan í þeim borgaraflokksmönnum. Um þetta vil ég þá ekki ræða meira.
    Ég kom upp til að ræða um þingsköp til þess að inna forseta eftir störfum nefnda hér á þinginu. Það vill þannig til að ég lagði fram þáltill. ásamt tveimur öðrum þingmönnum fyrr í vetur, á þskj. 89, um rannsókn á tíðni og umfangi kynferðislegrar misnotkunar á börnum. Þessari tillögu var vísað til allshn. Sþ. og fékk ekki náð fyrir augum þeirrar nefndar. Hins vegar útbjó einn af nefndarmönnum, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, brtt. við þessa þáltill. sem að því er ég best veit hefur meirihlutafylgi ef þá ekki fylgi allra nefndarmanna. Engu að síður er ekki nokkur lifandis leið að fá hv. þm. Guðna Ágústsson, sem er formaður þessarar nefndar, til að taka málið fyrir. Það er engin leið að fá manninn til þess að kalla nefndina saman.
    Mér er því spurn og ég vil spyrja hæstv. forseta: Hver er réttur þingmanna sem eiga þáltill. inni í nefnd sem hafa greinilegt meirihlutafylgi nefndarinnar fyrir málinu? Hver er réttur þingmanna og hver er skylda formanns nefndarinnar að kalla nefndina saman í slíkri stöðu? Ég vil benda á það að einn af flm. upphaflegu tillögunnar, hv. þm. Borgfl. Guðmundur Ágústsson, situr í þessari nefnd. Flm. brtt., hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, styður hana að sjálfsögðu og einnig hv. þm. Eggert Haukdal sem hefur beðið formann nefndarinnar um fund sem hann hefur ekki sinnt. Sjálfur formaður nefndarinnar, Guðni Ágústsson, hefur lýst yfir stuðningi við þetta mál og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, forseti sameinaðs þings, hefur einnig gert það. Því hlýt ég að spyrja: Hvernig stendur á því að þetta mál kemst ekki út úr nefndinni?