Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Þar sem hv. 5. þm. Vesturl., Ingi Björn Albertsson, hefur kvartað við forseta undan störfum allshn. og borið upp óvenjulegt klögumál í Sþ. Vil ég segja það að við í allshn. höfum starfað í miklu samkomulagi í vetur. Við höfum haldið þar marga fundi. Fyrir viku eða tíu dögum töldum við okkur ljúka þar störfum og höfðum þá lagt til að þrjú mál yrðu samþykkt í þinginu og þremur vísað til ríkisstjórnarinnar, en þá voru enn eftir 14 góð mál. Þá kom að því að okkur skorti tíma. Umsagnir um þær tillögur voru skiptar. Þær fóru til umsagnar út í þjóðfélagið til ábyrgra aðila og það voru skiptar skoðanir um þær. Við þurftum tíma til þess að kalla þá menn fyrir og móta afstöðu og ég hygg að allir nefndarmenn mínir sem voru á síðasta fundi hafi verið sáttir og gert sér grein fyrir því að þetta var síðasti fundur þessa vetrar í þeirri nefnd. Það kemur ekkert á óvart. Það er ekki venja að einhverjir óbreyttir þingmenn séu að vaða á nefndarmenn til að gá hvort þeir hafi þessa skoðun eða hina. Ég læt ekki kalla mig hér upp af einhverjum mönnum og skipa fyrir að ég haldi fundi. Ég tel mig ekki bera þá skyldu.
    Ég verð að biðja menn að átta sig á því að þeir kusu mig í sjö nefndir. Ég hef haft ærinn starfa síðustu dagana og hef alls ekki komist yfir það verk að fara að hræra aftur í málum þegar við höfðum lokið störfum í hv. allshn. og haldið okkar lokaveislu með kaffibrauði. Lengra komumst við ekki á þessu þingi. Svo er það ljóst að þingmenn þurfa á haustdögum að flytja góð mál, þá þarf að vinna þau upp á nýtt, skoða betur og komast að niðurstöðu. Tíminn er þannig ekkert floginn frá hv. þm. Inga Birni Albertssyni.