Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Tvisvar verður gamall maður barn og nú er ég sannfærður um að þetta á líka við um konur eftir að hafa heyrt málflutning hv. 3. þm. Reykv. Ragnhildar Helgadóttur í þessari umræðu um störf allshn. Slíkur var málflutningurinn að ég undraðist að hv. þm. skuli eiga að baki yfir 30 ára þingferil. Ég hygg að þingmaðurinn þekki störf þessa þings vel. Ég ætla að gera hv. þm. grein fyrir því að öll þau mál sem til allshn. bárust fengu þinglega meðferð. Um þau var fjallað. Þau voru send út til umsagnar og nefndin tók þau til umræðu á fundum. Samkvæmt stundatöflu þingsins átti þinghaldi að ljúka 6. maí og við töldum fram á síðustu stund að það mundi standa. Í þessari nefnd á m.a. sæti hæstv. forseti Sþ., Guðrún Helgadóttir. Nefndin fór rækilega ofan í öll mál. Okkur tókst að afgreiða aftur inn til þingsins sex mál en 14 mál fengu mjög nákvæma vinnumeðferð í nefndinni en náðu ekki lengra að þessu sinni.
    Ég ætla ekki að rifja upp þau orð sem hv. fyrrv. þm. og flokksbróðir 3. þm. Reykv. viðhafði um þessa nefnd í fyrra. Hann lagði ekki jafnmikla áherslu á að ýmislegt sem í hana bærist væri afgreitt út eins og hv. 3. þm. Reykv. gerir í þessari umræðu.
    Veislan sem við héldum varð nú ekki stór. Við fengum okkur snittur til tilbreytingar frá þurru brauðinu þannig að það var ekki dýrt. En ég hélt þennan síðasta fund eftir að hafa átt fund með forseta Sþ. um störf þingsins þar sem lagt var upp úr því að nefndin kæmi saman og tæki sameiginlega ákvörðun um það hvað hún treysti sér til að afgreiða út, hitt yrði að liggja. Þannig var starfað í þessari nefnd. Eins og ég segi þá hef ég ekki komist í það að endurskoða þá afstöðu á síðustu dögum og reyndar ekki talið ástæðu til þess í ljósi þess að öll málin, sem til nefndarinnar bárust, höfðu fengið þá þinglegu meðferð sem talin er nauðsynleg.