Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Óli Guðbjartsson getur auðvitað þjónað lund sinni eins og honum sýnist með því að vitna í einkasamtöl manna og gert það með þeim hætti sem honum sýnist. Ég ætla að stilla mig um það að vera að rekja okkar samtal. En ég hlýt að verða að segja frá því að við sjálfstæðismenn gerðum töluverðan greinarmun á því að starfa með Borgfl. eða Kvennalista. Ég rakti það í samtalinu að það væri nokkuð annað að greiða atkvæði með ríkisstjórninni þegar hún er komin í einhverja sérstaka hættu. Menn þekkja auðvitað þær atkvæðagreiðslur sem hafa farið fram í þinginu, bæði fyrir jól og núna við húsbréfakerfið. Það er nokkuð annað en það sem Kvennalistinn gerði, án þess að ég ætli að fara að bera blak af afstöðu Kvennalistans til ríkisstjórnarinnar, þ.e. að semja um tiltekin atriði sem kæmu inn í frv., t.d. um húsbréfin, og þykjast hafa náð þar nokkrum árangri og styðja því málið. Það er töluvert annað en greiða atkvæði þegar menn sjá það að stjórnin er kannski við það að tapa máli. ( Gripið fram í: Sannfæringin.) Það fer nú ekki mikið fyrir sannfæringunni, það verð ég að segja. Ef menn rekja atkvæðagreiðslur Borgfl. á þessu síðasta þingi verður að leita grannt til þess að finna sannfæringuna hjá þeim flokki. En látum það nú vera.
    Ég get vel skilið það að þingmenn Borgfl. hafi þótt nauðsynlegt að leita einhvers staðar skjóls og þeir hafa fundið þetta skjól hjá ríkisstjórninni. Ég óska báðum til hamingju, bæði ríkisstjórninni og Borgfl., með það að hafa fundið hvort annað. Ég óska þeim til hamingju og alveg sérstaklega Borgfl. vegna þess að það vita það allir sem vilja vita að í flestum stjórnum og ráðum sem kosið er til í þinginu eru sjö menn og ríkisstjórnin hefur ekkert með þessi fimm atkvæði Borgfl. að gera til að halda sínum fjórum mönnum. En ríkisstjórnarflokkunum hefur sýnilega þótt það mikið við liggja að fá þá innbyrta endanlega að þeir gefa eftir sæti til Borgfl. þó að þeir þurfi þess ekki. Ég vænti þess að þetta sé upphafið af því sem koma skal þegar verður farið að gefa á garðann í haust, þegar allar þingnefndirnar verða kosnar, bankaráðin og allt fleira. Það er væntanlega búið að semja um það allt saman.