Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegur forseti. Ég ætla nú á hvorugt þeirra mála, sem hér hafa verið til umræðu, að minnast en vil aðeins leyfa mér að vekja athygli hæstv. forseta á því að þann 10. apríl sl., fyrir hartnær sex vikum síðan, var útbýtt till. til þál. á þskj. 754 frá mér og hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Tillagan fjallaði um að heimila veiðar á hrefnum. Þessi tillaga hefur ekki verið á dagskrá Sþ. dögum og vikum saman af einhverjum ástæðum sem mér eru alveg huldar. Ég hef rætt um það við forseta Sþ. hvað valdi því að ákvarðanir séu teknar um að taka ekki þáltill., sem fluttar hafa verið og útbýtt í þinginu, á dagskrá sameinaðs Alþingis svo að hægt væri að ræða málin. Ég hef ekki fengið önnur svör en þau að mér hefur verið heitið því að þessu skyldi verða breytt og málið tekið á dagskrá.
    Nú fer senn að líða að þinglausnum og enn hefur þetta mál, sem flutt var og útbýtt 10. apríl sl., ekki fengist tekið á dagskrá. Það hefur því ekki verið hægt að ræða þetta mál. Nú hefur komið fram í umræðum um sambærilegt mál, þ.e. fsp. í þinginu, að það er talsverður stuðningur við þetta mál á Alþingi, kannski ekki endilega tillöguna eins og hún er orðuð heldur efnisatriði hennar. Mér finnst ansi hart að það skuli hafa verið komið í veg fyrir það að þessi tillaga fengi eðlilegar umræður með því að taka hana ekki inn á dagskrá dögum og vikum saman. Mér er það ljóst að það er varaforseti sem situr í forsetastól en ég vildi biðja hæstv. forseta að afla svara við þessari fsp. minni. Hvað veldur því að þessi tillaga hefur verið þurrkuð út af dagskrá Sþ. vikum saman? Eru fleiri mál, sem flutt hafa verið af þingmönnum og útbýtt í Sþ., sem þannig eru vaxin að forsetar hafa tekið ákvörðun um að taka þau ekki á dagskrá vikum saman?