Byggðastofnun
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að hafa skýrslu þessa stutta þótt margt mætti segja um byggðamálin eins og nú er ástatt. Í skýrslu þeirri sem hefur verið dreift á hinu háa Alþingi er rakið hvernig Byggðastofnun hefur varið þeim fjármunum sem hún hefur haft til ráðstöfunar á árinu 1988 og minnst á ýmis þau verkefni sem hún hefur unnið að á þessu ári.
    Í upphafi sl. árs má segja að góðæri hafi ríkt í þjóðarbúinu en það hefur breyst snöggt vegna hárra vaxta og aukinna skulda fyrirtækja í sjávarútvegi. Með óbreyttar eða lækkandi tekjur var síðan fljótlega ljóst að það hallaði mjög undan fæti og stefndi víða í stórkostlegan vanda. Það kom í ljós. Staðreyndin er sú að verulegur hluti af starfi og fjármunum Byggðastofnunar hefur á yfirstandandi ári farið í að aðstoða sjávarútvegsfyrirtæki landsbyggðarinnar við að leysa úr brýnasta rekstrarvanda og má segja að hver björgunaraðgerðin hafi rekið aðra.
    Stjórnvöld hafa falið Byggðastofnun æ fleiri og viðameiri verkefni. Þessi verkefni hafa bæði verið fólgin í ráðstöfun verulegra fjármuna umfram það sem ætlast var til í upphafi ársins og hefur einnig falið Byggðastofnun ýmiss konar úttektir og athuganir bæði fyrir ríkisstjórnina sem slíka og einstök ráðuneyti. Vissulega má um það deila hvort öll þessi verkefni hafi haft jákvæð áhrif á þróun byggðar í landinu, en þó held ég að óumdeilanlegt sé að þau hafi verið nauðsynleg. Menn gætu jafnframt spurt sig að því hvað hefði orðið ef Byggðastofnun hefði ekki beitt sér eins og hún hefur gert á sl. ári.
    Íslendingum fjölgaði allverulega á síðasta ári. Fólksfjölgunin er þó mjög misjöfn eftir landshlutum. Fólki fjölgar ört á höfuðborgarsvæðinu en því fækkar í öðrum landshlutum. Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgaði um 4000 manns á sl. ári og hefur þá fjölgað um rúmlega 22.000 á undanförnum tíu árum. Sé litið til landsbyggðarinnar allrar fjölgaði íbúum á fimmta hundrað, eða um 0,4%, á síðasta ári. Sú fjölgun var hins vegar nær öll á Suðurnesjum. Á síðustu tíu árum hefur íbúum landsbyggðarnnar fjölgað um tæplega 5.000 manns. Fækkun íbúa á landsbyggðinni ár frá ári hlýtur að draga mjög þrótt úr viðkomandi byggð. Afleiðingarnar eru m.a. lægra fasteignaverð og samdráttur í framkvæmdum. Af því leiðir síðan framtaksleysi og erfiðleikar við að vinna bug á vandræðunum.
    Árið 1988 var eitthvert hið versta sem sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum á síðustu árum. Óhóflega þungur skuldabaggi og því mikill fjármagnskostnaður, eins og ég minntist á áður, léleg afkoma og háir vextir lögðust þar á eitt. Um nokkurra ára skeið hefur rekstrartap í sjávarútvegi verið fjármagnað með erlendum lántökum gegnum viðskiptabanka og Byggðastofnun. Hingað til hafa þeir fjármunir, sem ætlaðir eru til aðgerða í byggðamálum, verið í höndum Byggðastofnunar. Stofnunin ráðstafar fjármunum sínum með lánveitingum, styrkjum eða beinni þátttöku í fyrirtækjum. Mest hefur farið fyrir

lánveitingum. Er þar að langmestum hluta um að ræða endurlánuð erlend lán á markaðskjörum. Stærstur hluti þessara lánveitinga hefur farið til sjávarútvegsins. Lánveitingar á markaðskjörum til fyrirtækja á landsbyggðinni teldust ekki aðgerð í byggðamálum í öðrum löndum. Lántökurnar gera það að verkum að mjög óhægt er um vik að taka þá áhættu sem í mörgum tilvikum er nauðsynleg. Lánveitingar geta t.d. ekki bætt óhagræði staðsetningar á landsbyggðinni.
    Fjárveitingar af fjárlögum hafa dregist verulega saman á undanförnum árum. Lánþegar Byggðastofnunar greiða í lántökuskatt, stimpilgjöld og annað, eins og lög gera ráð fyrir, upphæð sem nærri jafngildir þeirri fjárveitingu sem til stofnunar kemur á ári hverju frá Alþingi.
    Miðað við þá þróun sem orðið hefur í byggðamálum þarf nú að finna nýjar leiðir til að styrkja og efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Stjórnvöld standa frammi fyrir því að ákveða hvort þau vilja veita meira fjármagni til eflingar atvinnulífs á landsbyggðinni eða horfast í augu við það að geta þjóðarbúsins til að fullnýta auðlindir til lands og sjávar minnki en mismunur á kjörum íbúa landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins fari vaxandi og þar með togstreita milli íbúa þessara svæða. Skoðanakannanir hafa sýnt að íbúar landsbyggðarinnar telja að í þessu sambandi sé heilbrigt atvinnulíf mikilvægast og hefur Byggðastofnun talið það sitt mikilvægasta verkefni að stuðla að slíku.
    Í ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1988 er gerð grein fyrir þeim fjármunum sem hún hefur haft umsjón með. Við síðustu áramót var niðurstaða efnahagsreiknings Byggðastofnunar 6 milljarðar 755,7 millj. kr. og hafði hækkað um 46,2% á árinu. Eigið fé stofnunarinnar var 1 milljarður 641,7 millj. kr. Er þá búið að taka tillit til 200 millj. kr. færslu á afskriftareikning. Eigið fé óx um 19,5% á árinu. Hlutfall eigin fjár stofnunarinnar af heildareign var 29,7% í upphafi ársins. Þegar gert er upp í árslok er niðurstaðan sú að þetta hlutfall hefur lækkað í 24,3%. Þessi mikla lækkun er framhald langtímarýrnunar á hlutfalli eigin fjár. Lækkunin stafar annars vegar af miklum lántökum stofnunarinnar en hins vegar af því hversu mikið hefur verið lagt til hliðar í afskriftareikning útlána til að mæta óhjákvæmilegum
töpum. Á mælikvarða lánskjaravísitölu óx eigið fé Byggðastofnunar á sl. ári um 4,9 millj. kr., eða um 0,3%. Fasteignir Byggðastofnunar eru 6,8% af eigin fé.
    Samkvæmt lögum skal Byggðastofnun njóta framlags af fjárlögum til starfsemi sinnar. Framlagið nam 125 millj. kr. á árinu 1988 og hafði hækkað úr 80 millj. kr. frá fyrra ári. Frá árinu 1981 hafa lántökur numið um 2 / 3 af lánveitingum hvers árs en hækka nokkuð jafnt og þétt. Vegna þess hversu umsvif stofnunarinnar jukust mikið á árinu 1988 var ekki hjá því komist að þetta hlutfall hækkaði enn. Lántökur ársins voru 79,9% af heildarlánveitingum.
    Eins og kemur fram í ársskýrslu Byggðastofnunar

jukust umsvif hennar töluvert á árinu 1988. Um áramótin störfuðu samtals 29 manns hjá stofnuninni. Þar af eru þrír í hlutastarfi. Starfsmönnum fjölgaði um fjóra, þrír voru ráðnir til skrifstofu stofnunarinnar á Akureyri en einn fluttist norður. Ráðið var í eina ritarastöðu í Reyjavík.
    Starfsemi Byggðastofnunar á Akureyri hófst formlega 1. okt. 1988. Áður höfðu verið undirbúnar breytingar á húsnæðinu við Geislagötu 5 og jafnframt uppsetning tækja og margt annað sem tilheyrir þeim rekstri sem þar er. Í miðstöð Byggðastofnunar á Akureyri eru Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, atvinnumálafulltrúi Akureyrarbæjar og ferðamálafulltrúi fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland. Reynsla fyrstu þriggja mánaðanna lofar góðu ef tekið er mið af fjölda þeirra sem leitað hafa til skrifstofunnar á Akureyri. Fullyrða má að sumir af þeim sem fengið hafa aðstoð við að meta sína starfsemi hefðu ekki farið um langan veg eftir þeim ráðleggingum. Með því hefur Byggðastofnun á Akureyri veitt hjálp við að koma góðum hugmyndum á framfæri og stuðla að því að þær kæmust til framkvæmda. Auk þess hefur starfsemin þar auðveldað mörgum samskipti við stofnunina.
    Af einstökum verkum sem Byggðastofnun hefur unnið verð ég að fara hratt yfir sögu en ég vil nefna endurmat á byggðastefnu sem stofnuninni var falið af þáv. forsrh. með bréfi dags. 30. mars 1988. Eftir því var óskað að Byggðastofnun gerði heildarúttekt á þróun byggðar í landinu á búsetubreytingum og stöðu atvinnugreina á landsbyggðinni. Að þessu máli hefur verið ítarlega unnið og verkefnið hefur verið nefnt ,,Endurmat byggðastefnu``. Það hefur verið kynnt ítarlega fyrir öllum þingflokkum og drög að lokaskýrslu hafa borist til ríkisstjórnarinnar og verið lögð þar fram á fundi hennar og verið til umræðu. Á grundvelli þessarar niðurstöðu er tvímælalaust nauðsynlegt að skoða á hvern máta megi endurmeta og gera áætlanir um nýtt átak í byggðamálum.
    Þá hefur stofnunin unnið að byggðamálum í Dalasýslu þar sem orðið hefur mikill samdráttur í landbúnaði sem valdið hefur verulegri röskun á atvinnustarfsemi þar, m.a. starfsemi sláturhússins og kaupfélagsins, svo að liggur við borð að mikil vandræði hljótist af. Þetta mál er nú til framhaldsmeðferðar og í athugun á hvern máta Byggðastofnun getur komið inn í þetta málefni sem hér er um að ræða.
    Á árinu 1988 var unnið að endurskoðun á Vestfjarðaáætlun sem upphaflega var lögð fram á fjórðungsþingi Vestfirðinga árið 1987. Á fjórðungsþingi 1988 var þriðji hluti áætlunarinnar enn lagður fram og samþykktur. Áætlunin var síðan lögð fram í stjórn Byggðastofnunar og hún samþykkt þar. Vegna mikilla anna reyndist ekki unnt að ganga endanlega frá áætlun á árinu. Þegar því verki verður lokið verður áætlunin send forsrh. og tekin til meðferðar í ríkisstjórninni.
    Á sl. ári var loks unnið að könnun á vöruflutningum að beiðni samgrn. Tilgangur verksins

var að leggja raunhæft mat á framtíð strandsiglinga þeirra sem styrktar eru af ríkissjóði og kanna hvort hægt sé að sinna þeim með ódýrari hætti. Gerð var könnun á umfangi vöruflutninga skipafélaganna og landflutningum og gerð um það skýrsla ásamt nokkrum ábendingum um aðgerðir.
    Loks vil ég geta þess, virðulegi forseti, að mjög mikil starfsemi hefur verið hjá Byggðastofnun í tengslum við þá aðstoð sem með skuldbreytingu og fleiru er veitt útflutningsatvinnuvegunum því Byggðastofnun var falið að sinna því verkefni og hefur allt mat og allir útreikningar verið hjá sérfræðingum Byggðastofnunar. Þetta hefur að sjálfsögðu verið mikið álag á starfsemi Byggðastofnunar, en eins og kom fram í þeirri könnun sem ég nefndi á viðhorfi landsbyggðarmanna til byggðavandans þá telur yfirgnæfandi meiri hluti að vandinn stafi af atvinnuástandi og stöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Því var eðlilegt að Byggðastofnun kæmi mjög að þessu verkefni.
    Virðulegi forseti. Það hefði vissulega verið ástæða til að ræða hér langtum ítarlegar um byggðamálin almennt, þann byggðavanda sem blasir við og hvað skal til bragðs taka. Ég hef, með tilliti til þess skamma tíma sem til þessa er ætlaður, talið mér skylt að takmarka mjög mína skýrslu en vísa hins vegar til ársskýrslunnar sem var dreift hér í handriti fyrir meira en viku. Það vildi ég gera í því skyni að þingmenn gætu kynnt sér efni skýrslunnar þótt ársskýrslan í endanlegri mynd lægi ekki fyrir.