Almannatryggingar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1208 um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, ásamt síðari breytingum, sem er 372. mál þingsins á þskj. 698 en á þskj. 1186 eftir breytingar í Nd.
    Þetta frv. fjallar fyrst og fremst um nánari og ákveðnari skilgreiningu á valdsviði tryggingaráðs annars vegar og tryggingayfirlæknis hins vegar. Sú breyting varðar jafnframt meðferð þeirra tilvika þegar ágreiningur ríkir um örorkumat. Upphaflega frv. hefur einnig ákvæði um skipan stjórnar sjúkrasamlaga og breytingu á ákvæðum um tilvísanir sérfræðinga. Þetta frv. var rætt nokkuð ítarlega í öllum umræðum í Nd. og þar voru gerðar á því eftirfarandi breytingar sem koma fram á þskj. 1071 og mig langar að reifa það stuttlega, með leyfi forseta:
    Það er þá í fyrsta lagi breyting við 2. gr. frv. Henni hefur verið breytt frá upphaflega frv. þannig að 7. gr. laganna hljóði svo:
    ,,Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta leggur tryggingaráð úrskurð á málið.
    Komi ágreiningur fyrir tryggingaráð til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu, lögfræðilegu eða félagsfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.``
    Í öðru lagi var 3. gr. felld brott og það var fyrst og fremst vegna þess að hún stangast á við ætlun frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þar sem 38. gr. er ætlað að falla brott. Var því ákveðið í umfjöllun Nd. að þessi grein yrði felld brott þar sem talið var líklegt að frv. um verkaskiptingu mundi verða samþykkt á þessu þingi.
    Þá er í þriðja lagi smávægileg orðalagsbreyting við 6. gr., að í stað orðanna ,,að semja við sérfræðinga um`` komi: greiða sérfræðingum fyrir.
    Þær breytingar sem voru gerðar við 2. gr. og varða 7. gr. laganna voru nokkrar í Nd. og var m.a. bætt inn á fyrra stigi umfjöllunar málsins að tryggingaráð ætti að leggja úrskurð á mál sem risu vegna ágreinings, ekki einungis um bætur heldur einnig um örorkumat. Um þetta spunnust þó nokkrar umræður og voru skoðanir skiptar og var að lokum ákveðið að fella út örorkumatið en víkka aðeins út skilgreiningar á bótum með því að setja inn grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta. Einnig var bætt við áliti lögfræðinga og félagsfræðinga sem kalla mætti til eða félagsráðgjafa þegar tryggingaráð þarfnaðist ráðuneytis til þess að skera úr um mál sem ágreiningur væri um. Það var fyrst og fremst til að undirstrika að örorkumat er ekki einungis læknisfræðilegt eða á sér læknisfræðilega þætti heldur og einnig félagslega.
    Það náðist þó sátt um málið í Nd., en reynt hafði verið að taka tillit til annars máls sem lá fyrir Nd. á þskj. 185, 171. mál þingsins, en mál þess efnis, þ.e. um áfrýjunardómstól fyrir þá sem eru ósáttir við það örorkumat sem þeir hafa hlotið, hefur verið flutt hér á þinginu nokkrum sinnum en ekki verið samþykkt og

var gerð tilraun í Nd. til að samræma þessi tvö mál. Það tókst þó ekki að öllu leyti, en sáttir náðust um málið í Nd. og við umfjöllun hv. heilbr.- og trn. Ed. voru engar breytingar lagðar til en fallist á einróma að samþykkja frv. með þeim breytingum sem þar voru gerðar. Nál. sem er á þskj. 1208 hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og leggur til að það verði samþykkt eins og neðri deild afgreiddi það.
    Stefán Guðmundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir nál. rita Valgerður Sverrisdóttir, Karl Steinar Guðnason, Salome Þorkelsdóttir, Guðmundur H. Garðarsson, Margrét Frímannsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir.