Sjúkraliðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Valgerður Sverrisdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1238 um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða. Nál. er frá hv. heilbr.- og trn.
    Nefndin hefur fjallað um frv. á mörgum fundum. Á fund nefndarinnar komu hjúkrunarfræðingarnir Sigþrúður Ingimundardóttir og Pálína Sigurjónsdóttir og sjúkraliðarnir Kristín Guðmundsdóttir, Margrét Kristjánsdóttir og Solveig Halblaub.
    Í ljós kom að þær tvær heilbrigðisstéttir sem frv. snýr sérstaklega að og eru auk sjúkraliða hjúkrunarfræðingar greinir á um stöðu sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins, en nám sjúkraliða er nú í endurskoðun. Heilbr.- og trn. lagði sig fram um að finna leiðir til breytinga á frv. sem báðir aðilar gætu fellt sig við og telur að sú niðurstaða sem nefndin var sammála um sé spor í þá átt.
    Þær brtt. sem nefndin leggur fram á þskj. 1239 eru í fyrsta lagi við 1. gr. frv. Þar er lögð til sú breyting að allar undanþágur sem gerðar eru frá þeirri grundvallarreglu að sjúkraliðar starfi undir stjórn hjúkrunarfræðinga og beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart þeim verði háðar samþykki heilbr.- og trmrn.
    Hin breytingin er við 2. gr. og felur í sér ákvæði til endurskoðunar á lögunum fyrir 1. jan. 1992. Ástæða þess að nefndin var sammála um að gera þá brtt. er að sjálfsögðu sú að um þetta mál er ekki algjör samstaða meðal hagsmunaaðila og því talið rétt að málið yrði endurskoðað áður en allt of langur tími liði.
    Nefndin fellst einhuga á afgreiðslu Nd. á málinu með þeim breytingum sem hún gerir tillögu um á þskj. 1239.