Leigubifreiðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um leigubifreiðar. Það er 438. mál Nd. á þskj. 798 en á þskj. 1228 eftir breytingar í Nd.
    Frv. þetta var samið á vegum samgrn. í samráði við hagsmunaaðila. Þannig háttar til að gildandi lög um leigubifreiðar frá árinu 1970 hafa staðið óbreytt í 19 ár að undanskilinni minni háttar breytingu sem gerð var 1988 og athugun á réttarstöðu leigubifreiðastjóra hefur leitt í ljós að heildarendurskoðun á lögunum er löngu orðin tímabær. Vandamál samfara stjórn þessara mála hafa verið leyst með sífelldum breytingum og reglugerðum um leigubifreiðar vegna þess að lögin sjálf hafa ekki verið nægjanlega fastmótuð og víðtæk. Það er sem sagt afrakstur heildarendurskoðunar þessara mála sem birtist í þessu frumvarpi. Meginmarkmið frumvarpsins er eins og laganna frá 1970 að koma góðri skipan á málefni leigubifreiðastjóra og gæta hagsmuna almennings sem nýtur þessarar þjónustu.
    Meginefni frumvarpsins og fyrri laga er að veita heimildir til að takmarka fjölda leigubifreiða á viðkomandi svæðum. Þetta á við um fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar, en þróun mála hefur orðið nokkuð misjöfn eftir því um hvaða flokk bifreiða er að ræða. Sendibifreiðar hafa í mjög fáum tilvikum notið takmörkunar þar sem stéttarfélög sendibifreiðastjóra hafa yfirleitt ekki óskað eftir slíku. Um vörubifreiðar gegnir öðru máli. Víðast hvar á landinu eru í gildi takmörkunarreglugerðir fyrir vörubifreiðar. Takmarkanir á fjölda sendibifreiða og vörubifreiða eru framkvæmdar með því að taka ekki fleiri menn inn í viðkomandi félög en reglugerð segir til um, þ.e. félögin ráða því sjálf hverjir bætast við í stéttina og öðlast rétt til að stunda leiguakstur á viðkomandi svæðum. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel hjá vörubifreiðastjórum en minni reynsla hefur fengist af því hjá sendibifreiðastjórum.
    Framvinda mála hjá fólksbifreiðastjórum hefur orðið með talsvert öðrum hætti. Þar eru takmörkunarreglugerðir í gildi hjá félögum sem staðsett eru í hinum stærri kaupstöðum, þar á meðal ein slík reglugerð fyrir höfuðborgarsvæðið í heild. Á hinn bóginn er takmörkun á fjölda fólksbifreiða til leiguaksturs ekki framkvæmd af stéttarfélögum fólksbifreiðastjóra heldur með útgáfu atvinnuleyfa sem opinberar nefndir annast á hverju félagssvæði.
    Þetta atvinnuleyfakerfi hefur tíðkast hjá fólksbifreiðastjórum allar götur síðan 1956 þegar takmörkunarreglur voru teknar upp, sbr. lög nr. 25/1955. Þetta kerfi er orðið mjög fast í sessi og um það gilda ítarleg ákvæði í takmörkunarreglugerðum sem sífellt gerast flóknari eða hafa gerst það undanfarin ár.
    Í gildandi lögum, lögunum frá 1970, segir ákaflega lítið um það hvernig takmörkun á fjölda leigubifreiða skuli hrundið í framkvæmd, þ.e. hvort félögin skuli gera það sjálf eða opinberar nefndir eigi að gera það með útgáfu atvinnuleyfa. Í lögunum segir aðeins að

með reglugerð skuli kveðið á um ráðstöfun atvinnuleyfa, enda verði fyrir það girt að leyfin geti orðið verslunarvara. Að þessu leyti eru lögin ófullkomin og í reynd á eftir tímanum. Lögin hafa þó ætíð verið skilin á þann veg að þau útiloki ekki takmörkun á fjölda leigubifreiða án atvinnuleyfa svo sem tíðkast hefur með vörubifreiðar og sendibifreiðar. Brýna nauðsyn ber til að lögfesta skýr ákvæði um þær takmörkunaraðferðir sem þróast hafa og ekki er ástæða til að breyta út af í meginatriðum og það er lagt til í frv. þessu.
    Á það ber einnig að líta að atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða eru mjög eftirsótt og leyfishafar líta á þau sem mikilvæg persónuleg réttindi. Því er mjög æskilegt að setja í lög glöggar grundvallarreglur um atvinnuleyfin en láta þar eigi reglugerðarákvæðin ein nægja. Þannig má líka forðast deilur um hvort reglugerðarákvæði um atvinnuleyfi eigi næga stoð í lögum, en deilur um þetta efni hafa nokkrum sinnum orðið tilefni dómsmála.
    Umboðsmaður Alþingis, sem hefur af gefnu tilefni gert nokkra athugun á atvinnuleyfamálum fólksbifreiðastjóra, segir í bréfi til samgrh. dags. 13. október 1988: ,,Af því tilefni tek ég enn fremur fram að ég tel ástæðu til að lög um leigubifreiðaakstur verði tekin til rækilegrar endurskoðunar í heild. Í þessari endurskoðun verði m.a. fjallað um hvaða skilyrðum menn þurfi að fullnægja til þess að geta fengið og haldið leyfum til leigubifreiðaaksturs og um nýtingu slíkra atvinnuleyfa.``
    Ýmis fleiri atriði en hér hafa verið nefnd kalla á þessa endurskoðun laga um leigubifreiðar og skal í því efni vísað til helstu nýmæla sem þetta frv. felur í sér. Þau eru, svo nokkur þau helstu séu nefnd, að leiguakstur fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða er skilgreindur. Í gildandi lögum er aðeins skilgreindur leiguakstur vörubifreiða. Þá er gerður greinarmunur á framkvæmd takmörkunar eftir því hvort um er að tefla annars vegar vörubifreiðar og sendibifreiðar eða hins vegar fólksbifreiðar. Með þessu er hin venjubundna framkvæmd þessara mála, sem hefur öðlast nokkuð fastan sess, staðfest með lögum.
    Bifreiðastjórar sem njóta þess að fjöldi leigubifreiða í atvinnugrein þeirra
er takmarkaður eru skyldaðir til að vera félagsmenn í einu og sama stéttarfélagi á viðkomandi svæði. Um þetta atriði hafa verið nokkuð skiptar skoðanir og sumir viljað halda því fram að það samræmdist ekki ýmsum öðrum sjónarmiðum eða öðrum rétti að binda félagsaðild með þessum hætti. Á þessu hefur verið gerð nokkuð ítarleg skoðun lögfræðilegs eðlis og hefur hún leitt í ljós, óyggjandi að ég tel, að þessi venja er nokkuð algeng í lögum og má nefna ýmis lög þar sem tiltekin hlunnindi eða skipulag á nýtingu slíkra hluta eru bundin takmörkunum eða kvöðum af þessu tagi til þess að unnt sé að hafa um hlutina skipulag eða almenna reglu á framkvæmd þeirra. Má þar nefna t.a.m. ýmsa hlunnindalöggjöf þar sem félög um hlunnindanýtinguna eru lögbundin, svo sem gert er í lögum um lax- og silungsveiði, vatnalögum, lögum

um málflytjendur þar sem segir að héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn skuli vera í félagi, lögum um framleiðslu og verðlagningu á búvörum, en þar segir að bændur skuli vera í Stéttarsambandi bænda eða öðrum samþykktum eða viðurkenndum samtökum búvöruframleiðenda, og mætti fleira til nefna. Þá má og vitna til þess að í nýlegum hæstaréttardómi, sem féll um það efni hvort heimilt væri að binda aðild að stéttarfélagi með reglugerð, féll dómur á þann veg að það væri ekki heimilt. Hins vegar væri það heimilt með lögum og minni hluti dómsins taldi reyndar að mögulegt væri að binda félagsskylduna þó að lög kvæðu ekki með skýrum hætti á um slíkt.
    Af öðrum nýmælum í frv. má nefna að grundvallarreglur eru settar um atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða, en þær hefur alveg skort í gildandi lögum. Í því efni er tekið mið af tilmælum umboðsmanns Alþingis. Þá er skýrt fram tekið að þeim sem ekki hafa atvinnuleyfi sé bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á fólki. Það er að mínu mati mjög mikilvægt atriði að það sé með skýrum hætti tekið fram í lögunum að réttindi til þessarar atvinnustarfsemi séu eingöngu bundin þeim sem hafa atvinnuleyfi og öðrum sé bannað að hafa þessa starfsemi með höndum.
    Þetta er nauðsynlegt til að veita leyfishöfunum viðunandi réttarvernd, fá sett fram þau skilyrði sem eru fyrir því að menn geti öðlast atvinnuleyfi og haldið því og eru þau nokkuð víðtækari en tíðkast hafa í reglugerðum en ákvæði um þetta efni hefur skort í lögum.
    Veitt er heimild til að halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða til að auka hæfni umsækjenda og framkvæma síðan faglegt mat á hæfni þeirra með prófum.
    Þá er lagt til að atvinnuleyfi falli úr gildi við 70 ára aldur. Frumvarpið gerði að vísu upphaflega ráð fyrir að heimilt væri að hækka þetta aldursmark upp í allt að 75 ár með reglugerð, en samgn. Nd. breytti frumvarpinu að þessu leyti og vill binda þetta við 70 ár.
    Þá eru sett skýr ákvæði um skipan og hlutverk umsjónarnefndar sem áður voru eingöngu til í reglugerð og gerðar nokkrar efnisbreytingar á þessum ákvæðum.
    Það er kveðið á um skyldur til að hafa gjaldmæla í leigubifreiðum, en ákvæði um þetta efni voru nýlega felld brott úr umferðarlögum þar sem þau voru talin eiga betur heima í sérstökum lögum um leigubifreiðar.
    Þá er gert ráð fyrir því að samgrn. setji á grundvelli þessarar lagasetningar tvær reglugerðir um nánari framkvæmd laganna, aðra fyrir fólksbifreiðar en hina fyrir vörubifreiðar og sendibifreiðar. Er þá meiningin að hætta útgáfu svæðisbundinna reglugerða en þannig hefur verið staðið að þessu hingað til að sérstök reglugerð hefur gilt um hvert atvinnusvæði en það hefur svo leitt til þess að nokkuð hefur skort á samræmingu þessara mála.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða

frekar um þetta frumvarp en vísa að öðru leyti til greinargerðar þess. Ég vænti þess að hv. deild sjái sér fært að afgreiða málið þannig að það geti orðið að lögum á þessu þingi. Samstaða tókst um breytingarnar á frumvarpinu í Nd. og samgn. Nd. stóð einhuga að afgreiðslu málsins.
    Ég undirstrika að lokum það, sem áður hefur komið fram í máli mínu, að gildandi lög um þetta efni eru með öllu ófullnægjandi. Það hefur gerst erfiðara með hverju árinu sem líður að hafa skynsamlega stjórn á þessum málum og ég verð að viðurkenna að ég er sammála að nokkru leyti áliti umboðsmanns Alþingis í því efni að vegna þessa ástands hefur framkvæmdarvaldið teygt sig í lengra lagi til að reyna að stýra þessum málum með reglugerðum sem er auðvitað óheppilegt. Stefna ber að því í þessu tilviki eins og annars staðar að lagaákvæði séu skýr og ekki sé gengið í neinu tilviki lengra í því en góðu hófi gegnir að stjórna málum með reglugerðum.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.