Leigubifreiðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Það er trúlega rétt hjá hæstv. samgrh. að hér er nauðsyn að setja nýja löggjöf um leigubílstjóra, ég dreg það ekki í efa. Löggjöfin er orðin gömul og þarf sjálfsagt endurskoðunar. En ég vil lýsa megnri óánægju minni með það að ég kom á framfæri við a.m.k. tvo fulltrúa í samgn. að kalla til Arnmund Backman lögfræðing, sem er held ég viðurkenndur sérfræðingur í vinnurétti, til að ræða þessi mál og það tókst ekki betur til hjá þeim en svo að það var reynt að ná til hans um klukkustundu eða tæplega það fyrir síðasta fund nefndarinnar í gær svo hans sjónarmið komust ekki á framfæri.
    Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir þessu var beiðni frá öðru stéttarfélagi leigubifreiðastjóra suður í Keflavík, en þar hafa um allmörg ár verið tvö stéttarfélög. Menn geta svo deilt um hvort það sé heppileg ráðstöfun eða ekki. Það er nú einu sinni svo að ég hef starfað suður í Keflavík í allmörg ár sjálfur og var falið í fyrra starfi mínu að reyna að ná sáttum á milli þessara félaga. Ég gerði margítrekaðar tilraunir til þess og það tókst aldrei að sameina þær tvær leigubifreiðastöðvar sem þar eru. Fyrir því liggja margar ástæður sem ég ætla ekki að rekja hér. Ég tel að það sé alveg fráleitt að setja í löggjöf skilyrði um að menn skuli vera í sama stéttarfélagi. Ég held að í flestum þeim lögfræðiályktunum sem ráðherra minntist á áðan og reyndar í þeim hæstaréttardómi sem hann minntist á komi fram atriði um að menn eigi að vera í stéttarfélagi. Mér er sem ég sjái verkalýðshreyfinguna ef það yrði sagt á einu bretti í einni löggjöf að allir verkamenn á Íslandi skuli vera í einu stéttarfélagi. Ég minni á að í langflestum sveitarfélögum eru til sjálfstæð verkakvennafélög og verkamannafélög. Ég er ekki viss um að það yrði mikil ánægja með löggjöf frá Alþingi um að þessi félög skuli sameinast. Sem betur fer er þetta samt þróunin vegna þess að þau hafa tekið um það ákvörðun sjálf en ekki að frumkvæði löggjafans. Að ætla sér svo að setja í löggjöf að aðilar skuli vera í sama stéttarfélagi sem eru búnir að vera, ef ég má orða það svo, upp á kant í fjöldamörg ár og segja þeim að þeir hafi tvö ár til að aðlagast þessu nýja kerfi er gjörsamlega fráleitt.
    Ég held þess vegna að þetta þurfi að skoðast talsvert betur áður en við göngum frá þessu í deildinni og ég kem á framfæri með formlegum hætti núna við formann samgn. þessarar hæstv. deildar að kallað verði í Arnmund Backman lögfræðing, sem er held ég viðurkenndur vinnuréttarsérfræðingur, og aðra sérfræðinga í þessu máli til viðræðna um þessi mál áður en deildin fær það til frekari meðhöndlunar.
    Það eru reyndar held ég fleiri atriði athugunarverð en þau eru minni en þetta. En ég er ekki viss um að verkalýðshreyfingin væri sátt við að við settum löggjöf um að það væri eitt verkamannafélag yfir allt Ísland. Það væri að vísu kannski heppilegra í samningum einhverra hluta vegna, en að við ætluðum að taka ákvörðun um það á hinu háa Alþingi held ég að væri ekki skynsamleg ráðstöfun.