Leigubifreiðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ekki skal ég lengja þessar umræður. Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir því að hér eru menn að tala á síðasta degi þings að öllu óbreyttu. Ég á sæti í hv. nefnd sem málið fer til. ( Gripið fram í: Þú ert formaður.) Ég á sæti þar. ( GHG: Já, sem formaður.) Er það ekki sæti? Menn geta bætt úr ef þeir vilja en sæti er það eigi að síður. En ef ekki er algjört samkomulag um þetta mál sé ég ekki hvernig þetta mál á að fara í gegn. Nú er ég ekki að taka efnislega afstöðu til málsins og ætla ekki að gera fyrr en ég sé frekar málið. En þetta mál er búið að vera í hv. samgn. Nd. trúlega í nokkrar vikur, án þess að ég vilji neitt þar um fullyrða, og enn virðast vera uppi skiptar skoðanir um málið þannig að ég bið menn að athuga hvort menn eru hér í raun og veru að tala um að láta málið ganga milli deilda í dag í breytingu. Ef svo er óttast ég að þetta mál fari ekkert í gegnum þingið.
    Ég heyri í þessari hv. deild að menn eru ekkert sammála um málið eins og það kemur frá Nd. En það er alveg ljóst að í þessari stöðu geta þeir sem eru andvígir og vilja stöðva mál gert það á þeim skamma tíma sem er til umráða fyrir þingið ef því á að ljúka í dag.
    Mér finnst þess vegna full ástæða til þess að ítreka að ef menn eru að tala um í fullri alvöru að málið nái fram að ganga hér í þinginu gerist það ekki að mínu viti öðruvísi en að það verði algjört samkomulag um málið ella dagar það uppi. Því held ég að menn verði að gera sér grein fyrir.