Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 19. maí 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Fyrir örskammri stund gerðust þau tíðindi að hv. þm. Stefán Guðmundsson lýsti því yfir að vopnahlé af hans hálfu gagnvart þessari ríkisstjórn mundi ekki standa nema þá til haustsins. Hann gagnrýndi frv. það sem hér er til afgreiðslu mjög. Mér fannst eðlilegt að hann hefði tækifæri til að gera grein fyrir atkvæði sínu ef honum sýndist svo og það þarf ekkert að tefja þennan fund þó að þessi atkvæði falli í nafnakalli. Ég harma að hann skyldi ekki endurtaka þessi ummæli, en þau eru auðvitað þingfest og skjalfest og jafngild fyrir því. Ég segi já.