Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 19. maí 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til að segja nokkur orð í tilefni þeirrar brtt. sem hér er fram borin. Eins og hv. þm. muna var fyrir rúmu ári flutt stjfrv. til breytinga á núgildandi kerfi sem fól í sér skerðingu á lánsrétti ýmissa hópa sem höfðu rétt í núgildandi húsnæðislánakerfi.
    Sú breyting sem þar var gerð fól einmitt í sér að það væri hægt að skerða lán og breyta kjörum á lánum umsækjenda sem eiga fyrir fullnægjandi íbúðarhúsnæði skuldlaust eða skuldlítið og stærra en 180 fermetrar brúttó að frádregnum bílskúr. Þetta ákvæði, sem var samþykkt fyrir rúmu ári, stendur enn í núgildandi húsnæðislöggjöf. Ég tel ástæðu til að benda á það vegna þess að í brtt. sem hér er lögð fram er tekin upp öll lagagreinin eins og hún stendur í núgildandi lögum. Eina breytingin sem þessi tillaga felur í sér er að það er bætt við að sama gildi um þann sem á aðrar eignir sem meta má jafngildar að verðmæti og ekki eru notaðar til eigin atvinnustarfsemi umsækjanda.
    Ég vil segja að þær þrjár brtt. sem voru í því frv. sem við erum að fjalla um voru felldar út úr því í Nd. Það var mat Húsnæðisstofnunar að þær þrjár mundu draga úr fjárþörf til húsnæðiskerfisins um 8%. Það sem vó þyngst var að það var gert ráð fyrir að skerða lánsrétt einstaklinga og lánsrétt þeirra sem voru að kaupa í annað sinn. Þessar tillögur voru felldar út úr frv. í Nd. ásamt þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Það var mat Húsnæðisstofnunar að ákvæðið sem hér er verið að fjalla um mundi vega mjög lítið í því að minnka fjárþörfina í húsnæðiskerfið, þessi 8 eða 9%. Þó að þessi brtt. yrði samþykkt hefði hún mjög lítið að segja að því er varðar fjárþörf í húsnæðiskerfið eða það að skerða rétt viðkomandi.
    Á það ber einnig að líta að þegar þessar brtt. voru samþykktar í fyrra var það samþykkt á hv. Alþingi að þær mættu ekki vera afturvirkar og ekki ganga inn í biðröðina. Ef þetta yrði samþykkt mundi það ekki fara að virka fyrr en fyrir þá hópa sem fara í biðröðina eftir að þessi tillaga væri samþykkt og mundi raunverulega ekki virka fyrr en eftir 2--3 ár. Ég tel þess vegna að þessi tillaga hafi ein út af fyrir sig mjög lítið að segja að því er varðar það að minnka fjárþörfina í kerfið þar sem aðrar tillögur tvær sem höfðu mest að segja voru felldar í Nd. Þess vegna get ég alls ekki mælt með að þessi tillaga verði samþykkt og ítreka að meginkjarninn í því sem fram kemur í brtt. er nú þegar í lögum.