Staðgreiðsla opinberra gjalda
Föstudaginn 19. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við nál. og ég fagna því að svo virðist sem hér verði í deildinni allsherjarsamstarf um að breyta því, sem samþykkt var í fyrra, að gefa ríkinu nærri ótakmarkað vald yfir því að komast yfir eignir án þess að nokkur eðlilegur réttur fylgdi því. Það má segja að það sé mjög leiðinlegt að hæstv. fjmrh., sem einkum misskildi þetta mál, skuli ekki vera í deildinni þegar þetta verður afgreitt hér. Ég vænti þess a.m.k. að hann geri sér vel grein fyrir því að ríkisinnheimta á að byggjast á allt, allt öðru en því að réttur þeirra sem fyrir er minnki eins og búið er að lýsa að mundi gerast ef það héldi áfram að vera í lögum sem samþykkt var hér í fyrra.
    Ég ítreka að ég fagna því að það virðist vera samstaða um að breyta þessum lögum á þann veg sem hér er lagt til og ég vænti þess að okkar ágæti fjmrh., þegar hann kemur heim, átti sig á því að hann hafi ekki haft á réttu að standa þegar hann var að mæla gegn því.