Afgreiðsla mála úr nefndum
Föstudaginn 19. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég veit auðvitað að meiri hluti þingsins þarf ekki að standa við samkomulag frekar en honum sýnist því meiri hlutinn hefur fullt vald á því að afgreiða hér mál í gegnum þingið í trássi við samninga við stjórnarandstöðuna. Auðvitað veit ég að meiri hlutinn þarf ekki að gera það. Auðvitað getur meiri hluti Alþingis sagt: Mér hefur snúist hugur. Og auðvitað er hægt að haga vinnubrögðunum öðruvísi ef forsetar og nefndarformenn svo ákveða.
    Það liggur á hinn bóginn alveg ljóst fyrir að til að greiða fyrir þingstörfum er æskilegast að slíta fundi nú og hefja nefndarstörf í sjútvn. Mér er algjörlega óskiljanlegt ef það á að vera svo að andstaða sjútvrh. við eitthvert mál eigi að ráða því að þingnefnd megi ekki hittast. Ef það er komið svo í Alþingi að þeir menn sem við köllum hæstvirta inni í deildinni, hæstvirta hér á þinginu séu um leið þeir menn sem lítilsvirða þingið mest með því að banna því að starfa með eðlilegum hætti, þá held ég að sé kominn tími til að endurskoða hvort við eigum nokkuð að kalla þá hæstvirta miklu lengur.