Afgreiðsla mála úr nefndum
Föstudaginn 19. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Í Ódysseifskviðu er skemmtilegur orðaleikur um orðið ,,enginn`` þegar Ódysseifur sagði við kýklópinn að hann héti ,,enginn``. Ég ætla ekki að fara út í það. Hitt hélt ég að ef nefndarmaður í sjútvn. biður um fund í nefndinni og kallaði sig eitthvað annað en ,,enginn`` og færi ekki að dæmi Ódysseifs og kallaði sig sínu rétta nafni ætti ekki við að enginn hafi beðið um fundinn. Nefndarmaður í sjútvn. Ed. bað um að fá fund í nefndinni um þetta mál. Nefndarmaður í sjútvn. snéri sér til forseta deildarinnar og skýrði honum frá því að hann óskaði eftir fundi í þessari nefnd. Það liggur því alveg ljóst fyrir að það var beðið um fundinn. Hverjir eru það sem mega reka á eftir því að formaður í nefnd haldi fund ef hann vill ekki gera það sjálfur? Stendur það þá ekki öðrum nefndarmönnum næst? Ég hef gert það þráfaldlega.
    Ég ítreka þetta: Hafi ég gert einhverjum upp getsakir biðst ég afsökunar á því, en þá skulum við líka vinda okkur í að halda fundinn ef enginn er á móti því að hann sé haldinn og ef allir eru sammála um það. Þá getum við notað hléið núna til þess, herra forseti, að halda fundinn fyrst svo er að menn eru sammála um að fundurinn sé haldinn. Ég bið þá afsökunar á því sem ég sagði og það kemur svo í ljós þegar búið er að fresta fundinum hvort þessi afsökunarbeiðni átti rétt á sér eða ekki.