Afgreiðsla mála úr nefndum
Föstudaginn 19. maí 1989

     Stefán Guðmundsson:
    Herra forseti. Við þurfum sjálfsagt ekki að standa í orðaskaki hér. Ég vil að það komi fram enn og aftur, hv. þm. Halldór Blöndal, að þú ert eini maðurinn sem hefur nefnt það, ( HBl: Það á að segja hann hv. þm., ekki þú.) hv. þm. Halldór Blöndal, á hlaupum í gegnum deildina að það yrði haldinn fundur í nefndinni út af þessu máli og sagt að um það væri samkomulag. Enginn af formönnum þingflokka, ekki einu sinni formaður þingflokks Framsfl., hefur farið fram á það við mig að ég boðaði fund í þessari nefnd og að ég boði fund nú þegar í nefndinni. Það vill svo merkilega til að ég er varaformaður í annarri nefnd og nú voru að koma skilaboð fyrir um klukkutíma um að ég ætti að taka formennsku í þeirri nefnd í forföllum formannsins og ætti að halda fund. Fundur var boðaður kl. hálffjögur. Hann hefur ekki verið haldinn enn. Vegna hvers? Vegna þess að það tekur eðlilega tíma að afgreiða mál. Það tekur tíma að finna þá menn sem óskað er eftir að verði til viðtals og verði kallaðir fyrir nefndir.
    Ég vil að þetta komi skýrt fram og að ég hef ekki boðað og er ekki búinn að boða fund í sjútvn. enn þá.