Afgreiðsla mála úr nefndum
Föstudaginn 19. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla sem hér hafa komið fram og vegna þeirra óska sem hafa komið frá hv. þm. 2. þm. Norðurl. e., Halldóri Blöndal, og þar sem ég á sæti í sjútvn. Ed. hlýt ég að óska eftir því að það verði kallaður saman fundur í nefndinni.
    Hér hefur komið fram mjög ákveðin ósk frá einum hv. þm. um að fjalla um veigamikið mál og ég sé ekki annað en að við sem erum í nefndinni hljótum að taka undir það að þetta mál fái þá umfjöllun í þessari nefnd sem óskað er eftir.
    Ég get ekki séð að þótt komið sé að næstsíðasta degi þings sé ekki hægt að kalla saman nefnd um málefni sem þetta. Ég tel það mjög óþingræðislegt ef því verður hafnað. Ég verð þá að segja það, eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði, að það fer þá að líða að því greinilega að það gerist óþarfi að kalla saman þing yfirleitt. Kannski höfum við fengið ríkisstjórn yfir okkur í fyrsta skipti í sögunni síðan lýðveldið var stofnað 1944 sem telur þess ekki þörf að Alþingi Íslendinga komi saman og stjórni með stjórnskipunum. Við erum búnir að upplifa síðustu vikur að þeir menn sem þar ráða ríkjum telja sig ekki þurfa að ræða við verkalýðinn með sama hætti og við höfum vanist. Þess vegna hefur þjóðin horft upp á sex vikna verkfall hjá BHMR með öllum þeim þjáningum sem það hefur kallað yfir þá sem standa í deilunni og aðra saklausa. Ef ríkisstjórnin ætlar að halda áfram í þessum dúr segi ég að það sé tími til kominn að láta hart mæta hörðu og þingið sitji áfram þar til við höfum endurheimt þann rétt sem Alþingi ber sem er að ákveða með lögum hvernig þessu landi skuli stjórnað. Ég óska því eindregið eftir því að það verði boðað til fundar í sjútvn. Ed.