Leigubifreiðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. samgn. (Karvel Pálmason):
    Virðulegur forseti. Samgn. hefur fjallað um þetta frv. og rætt við ýmsa aðila sem því tengjast. Ég geri hér grein fyrir nál. nefndarinnar og er það svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Arnmund Backman lögfræðing, Helga Jóhannesson, lögfræðing í samgönguráðuneytinu, Sigurð Sigurjónsson, Gissur Ingólfsson og Bjarnfreð Ármannsson frá Sendibílum hf. og Óskar Sigurðsson, fulltrúa launþega í leigubifreiðastjórastétt.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Guðrún Agnarsdóttir sat sem áheyrnarfulltrúi á nefndarfundinum.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn í samgn. sem eru Karvel Pálmason, Egill Jónsson, Skúli Alexandersson, Guðmundur Ágústsson fundaskrifari, hann ritar undir með fyrirvara, Þorv. Garðar Kristjánsson, Jóhann Einvarðsson og Stefán Guðmundsson.
    Brtt. sem hér um ræðir er flutt á þskj. 1307 og er svohljóðandi:
    ,,Við 14. gr. 2. mgr. orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga þessara er ráðherra heimilt að veita undanþágu frá ákvæðinu þar sem önnur tilhögun hefur tíðkast.``
    Hér er fyrst og fremst um að ræða einn stað sem er með öðrum hætti en tíðkast hefur yfirleitt og menn eru hér að reyna að leysa þau mál í sem mestum friði í framhaldi af þessari lagasetningu. En ég held að það sé rétt að það komi fram við þessa umræðu að nefndin er sammála um að nauðsynlegt sé að í reglugerð verði kveðið skýrt á um mörkin milli atvinnusviðs fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða þannig að það leiki ekki vafi á hvað þar sé við átt.
    Það er ljóst að um þetta hafa verið nokkuð skiptar skoðanir. Menn telja eigi að síður að það sé skynsamlegra að málið nái fram að ganga en það stöðvist hér á síðustu klukkustundum þessa þinghalds. Hér er um löggjöf að ræða sem þarf að bæta í áframhaldi en nefndin er sammála um að mæla með því að frv. verði samþykkt eins og það nú liggur fyrir með brtt. sem er á þskj. 1307.